Talentencampus

Við hittum skólastjóra og deildarstjóra sérdeildarinnar og sögðum þeim frá útiskóla Þelamerkurskóla.

Talentencampus er fimm ára gamall skóli sem varð til úr sex skólum. Skólarnir sex voru bæði almennir grunnskólar og sérskólar.

Í skólanum eru um það bil 500 nemendur á aldrinum 4-12 ára og skiptist hann í þrjá getuhópa sem vinna saman að einhverju marki:

  • Nemendur án greininga/sérþarfa,

  • Nemendur sem þurfa stuðning í námi vegna hegðunar- eða tilfinningavanda,

  • Nemendur með miklar sérþarfir og/eða færniskerðingu.

Námsumhverfið (húsnæði, hópastærðir og stuðningur) er aðlagað að nemendum og kallast þorpið, borgin og stórborgin.

  • Í þorpinu eru fæstir nemendur í hópi (14 nemendur), lokað rými og minnstar kröfur um sjálfstæði.

  • Í borginni er opnara rými en í þorpinu, fleiri nemendur í hóp og meiri kröfur um sjálfstæði.

  • Í stórborginni er opið rými, margir í hóp (30-35 nemendur) og mestar kröfur um sjálfstæði.

Skólinn er einstakur fyrir blöndun nemendahópa af því hann er sá fyrsti sem er blanda af almennum skóla og sérskóla. Hindranirnar hafa þó verið margar við uppbyggingu hans:

  • Hefðir og venjur við skipulag á stundaskrám.

  • Fjármagn, bæði frá ríki og sveitarfélögum.

  • Laun og vinnutími. Til dæmis eru þeir kennarar sem kenna nemendum með sérþarfir með hærra kaup en aðrir kennarar.

  • Foreldar. Það varðar hugmyndir þeirra um að hegðunarvandi einstakra barna geti truflað nám bekkjarfélaga.

Skólinn er vel búinn af tækjum. Í hverri stofu eru alls kyns kennslugögn fyrir nemendur, allt frá smart-töflum til spila, hjálpartækja, pappírs og skriffæra.

Skólinn vinnur um þessar mundir að eigin uppeldisstefnu og hefur gert hana myndræna í pýramída þar sem grunnþarfirnar eru neðst og efstar eru sérþarfirnar og viðbrögð við þeim.

Hérna eru myndir sem teknar voru í heimsókninni.