Græna línan

Hannelore og Bert segja okkur frá starfinu í Grænu línunni.

Græna línan (h. de Groene Lijn) er sérstök deild innan De Wijnberg í umsjón tveggja starfsmanna, Hennelore Rubie og Bert Dautzenberg. Starf þeirra er að bjóða bæði heilum námshópum og einstaklingum að vinna að margs konar hagnýtum verkefnum utandyra. Á hverjum fimmtudegi er svokallaður Grænn fimmtudagur þar sem starfsmenn Grænu línunnar bjóða uppá dagskrá. Dagskráin tekur mið af árstíðunum hverju sinni (ræktun, uppskera, úrvinnsla) og oftast reyna starfsmenn að fá til sín annað hvort listamann eða einhvern úr atvinnulífinu til að sjá um einn liðinn á dagskránni.

Fimmtudaginn 2. nóvember þegar við vorum í heimsókn gátu nemendur unnið með listamanni að verkum úr bambus og teygjum, farið út í skóg í leiki með einum starfsmanni og bakað sér kartöflur og spjallað saman við eld sem var kveiktur í eldstæði á skólasvæðinu. Nemendur hjálpuðust að við að elda kartöflurnar og gátu líka setið við eldinn og haft það náðugt.

Nemendur gátu valið hvort þeir voru allan tímann á einni stöð eða færu á milli stöðva. Í útiskólarjóðrinu var farið í upphitunarleik og teygjubyssugerð. Í öllum leikjunum reyndi á samvinnu og útsjónarsemi nemenda. Þar kom vel fram hvernig starfsfólkið hvetur nemendur til að finna sjálf út úr leikjunum og áskorunum þeirra. Ef nemendur spurðu spurninga þá er þeim alltaf svarað með spurningu svo nemendur gæru sjálfir fundið lausnirnar.

Starfsmenn Grænu línununnar segja að helsta áskorun þeirra sé að skapa skilning hjá kennurum skólans á því að starfið í Grænu línunni sé jafnmikilvægt og annað nám og að það geti hjálpað til við framfarir nemenda. Þau segja að mikið af tíma þeirra fari í kynningarstarfsemi og til að hvetja kennara og nemendur til að nýta sér það sem þar er í boði á hverjum degi.