De Wijnberg

Monique Hopman og Annemarie Graus tóku vel á móti okkur.

De Wijnberg skólinn er staðsettur í bænum Venlo sem er í Limburg héraði en það er syðsta héraðið af 12 héruðum Hollands.

De Wijnberg skólinn er hluti af greiningar- og meðferðarmiðstöð sem eru rekin af samtökum sem heita Mutsaersstichting og sérhæfa sig í meðferð, greiningu og menntun ungmenna sem ekki fylgja venjulegri námsframvindu eða búa við erfiðar aðstæður.

Skólinn er sérskóli fyrir 4-18 ára nemendur með tilfinninga- og hegðunarvanda og með skerta færni af einhverju tagi. Í honum eru að jafnaði 200-250 nemendur. Nemendur eru misjafnlega mikið og lengi í skólanum, allt eftir því hvernig þeim vegnar í náminu og öðru starfi við skólann og hvernig aðstæður þeirra eru að öðru leyti. Flestir nemenda koma í skólann með skólabílum og nokkrir búa á staðnum. Þar sem skólinn er hluti af greiningar- og meðferðarúrræðum fyrir skjólstæðinga eru þeir mismikið í skólanum og/eða í viðtölum eða annarri meðferðarvinnu. Það miðast við stöðu hvers og eins hverju sinni.

Samtökin Mutsaersstichting reka miðstöðvar fyrir börn og ungmenni á fimm stöðum í Hollandi og sú sem er í Venlo er sú stærsta.