Í þessum hluta námskeiðsins er farið yfir öll atriði sem dómarar í kastgreinum þurfa að hafa á hreinu. Hér fyrir neðan er fyrirlesturinn um dómgæslu í kastgreinum en einnig glærurnar sem farið er yfir (glærurnar hafa verið uppfærðar síðan fyrirlestrarnir voru teknir upp svo það er ekki algjört samræmi. Það er verið að vinna í að taka fyrirlestrana upp aftur með uppfærðu námsefni). Ef þú ert að skoða síðuna í tölvu er hægt er að hlaða glærunum niður með því að smella á pop-out merkið í efra hægra horni glærurammans og svo á download merkið.
Einnig má hér finna samantekt á reglum í kastgreinum ásamt þrívíddarlíkani sem sýnir uppsetningu búnaðar og staðsetningu dómara í kúluvarpi. Best er að skoða líkanið í tölvu. Hægt er að snúa því til að sjá frá öllum sjónarhornum og einnig þysja inn og út. Uppsetning búnaðar og staðsetninar dómara í öðrum kastgreinum eru sambærilegar.
Til kastgreina teljast kúluvarp, spjótkast, kringlukast og sleggjukast (og lóðakast).
Framkvæmd keppninnar er eins í öllum kastgreinum.
Þyngdir á áhöldum eru lágmarksþyngdir. Engin hámarksþyngd á áhöldum. Aðeins áhöld sem viðurkennd eru af WA eru leyfð í keppni.
Upphitunartilraunir
Áður en keppni hefst ættu allir keppendur að fá nokkrar upphitunartilraunir á keppnisstaðnum. Algengt er að allir keppendur fái a.m.k. tvær upphitunartilraunir en ef tími leyfir og keppendur óska eftir því má leyfa fleiri upphitunartilraunir.
Eftir að keppni hefst mega keppendur ekki nota kasthringi, aðhlaupsbrautir, lendingarsvæði eða áhöld til æfinga.
Merki á keppnissvæði
Köst úr hring (kringla, kúla, sleggja)
Keppendur mega setja niður eitt merki á jörðina rétt aftan við eða nálægt hringnum og má það aðeins vera til staðar meðan á eigin tilraun hvers keppanda stendur.
Spjótkast
Keppendur mega setja niður að hámarki tvö merki á aðhlaupsbrautinni. Helst ætti að nota límband eða önnur merki sem auðvelt er að fjarlægja.
Setja má niður fána eða önnur merki á lendingarsvæði til að sýna gildandi met, t.d. lands- eða mótsmet.
Í kringlukasti og spjótkasti ætti að setja upp vindsokk (eða sambærilegt) á viðeigandi stað til að gefa til kynna vindátt og -styrk.
Keppnisröð og tilraunir
Ef keppendur eru fleiri en 8 er venjan að allir keppendur fái 3 tilraunir og þeir 8 keppendur sem eiga besta árangurinn eftir 3 umferðir fá 3 tilraunir til viðbótar. Í fyrstu þremur umferðunum skulu keppendur kasta í röð sem dregin er af handahófi en fyrir seinni þrjár umferðirnar er röðinni breytt þannig að sá sem á lakasta árangurinn kastar fyrst, næst sá sem á næstlakasta árangurinn o.s.frv. Oft er endurraðað upp á nýtt fyrir síðustu umferðina. Hvort það sé gert er í höndum skipuleggjenda mótsins.
Ef tveir eða fleiri keppendur eiga jafnan árangur eftir þrjár umferðir en ekki er pláss fyrir þá alla í seinni þremur umferðunum skal raða eftir næst besta árangri og ef enn er jafnt þá þriðja besta árangri. Ef enn er jafnt fá þeir allir að halda keppninni áfram.
Ef tveir eða fleiri keppendur sem eiga rétt á fleiri en þremur tilraunum eiga jafnan árangur eftir þrjár tilraunir skal raða þeim í sömu röð miðað við hvern annan og þeir köstuðu í fyrri þremur umferðunum.
Taflan hér að neðan sýnir dæmi um röðun eftir 3 umferðir.
Forkeppni
Séu keppendur svo margir að halda þurfi forkeppni skulu keppendur í forkeppni fá að hámarki 3 tilraunir. Árangur í forkeppni telst ekki með þegar í úrslitakeppnina er komið.
Algengast er að 12 keppendur komist áfram úr forkeppni. Á tæknifundi er ákveðið hvaða lágmarksárangri þurfi að ná í forkeppni til að eiga tryggt sæti í úrslitakeppni. Ef færri en 12 ná lágmarksárangri er fyllt upp í síðustu sætin í samræmi við árangur keppenda í forkeppninni.
Þegar lágmarksárangri er náð fær keppandi ekki fleiri tilraunir í forkeppninni.
Ef tveir eða fleiri keppendur eru jafnir eftir forkeppni en ekki er pláss fyrir þá alla í úrslitakeppninni skal ákveða röðina eftir næst besta árangri og ef enn er jafnt þá þriðja besta árangri. Ef enn er jafnt fá þeir allir að keppa í úrslitum.
Tími milli tilrauna
Keppendur fá ákveðinn tíma til að hefja tilraun sína. Keppandi er talinn hafa hafið tilraun sína þegar hann leggur af stað í aðhlaup að stökkinu.
Tíminn byrjar að telja þegar dómari gefur merki um að allt sé til reiðu.
Helst ætti að vera til staðar klukka sem sýnir keppanda hversu mikinn tíma hann hefur til að hefja tilraunina. Auk þess á starfsmaður að sýna keppanda þegar hann á 15 sekúndur eftir með því að lyfta og halda uppi gulum fána.
Taflan hér að neðan sýnir tímann sem keppandi fær í hverri grein, eftir því hversu margir keppendur eru eftir í keppninni. Tíminn er ákvarðaður upp á nýtt eftir hverja hækkun ráarinnar.
Ef keppandi getur ekki, af óviðráðanlegum ástæðum, kastað áður en tíminn er liðinn hefur greinarstjóri leyfi til að veita honum uppbótarkast eða endurstilla klukkuna. Ekki skal breyta kaströðinni en gefa má keppanda aukatíma í samræmi við aðstæður.
Ef ákveðið er, eftir að keppni hefur haldið áfram, að veita keppanda uppbótarkast (t.d. ef kemur í ljós að mæling mistókst) skal uppbótarkastið tekið strax, áður en aðrir keppendur kasta oftar.
Árangur
Hver keppandi skal fá skráðan sinn besta árangur af þeim köstum sem hann tók. Ef tveir keppendur eiga jafnan besta árangur skal ákvarða röðina út frá næstbesta kasti, þriðja besta kasti o.s.frv. Ef keppendur eru enn jafnir skal það skráð sem jafntefli.
Aðstoð
Bannað er að binda saman tvo eða fleiri fingur. Greinarstjóri ætti að skoða hendur keppenda fyrir keppni.
Bannað er að bera einhver efni á hringinn eða á skó keppenda.
Aðeins í sleggjukasti má nota hanska.
Keppendur mega nota efni á hendur og áhald til að auka grip. Efnið þarf að vera auðvelt að fjarlægja af áhaldinu með blautum klút.
Mæling kasts
Mælingin er gerð strax eftir hvert gilt kast. Öll gild köst skal mæla.
Ógild köst skal ekki mæla, nema keppandi mótmæli strax að kasti loknu og möguleiki sé að dómi verði snúið við.
Spjótkast
Mælt er frá því fari sem áhaldið gerir í jörðina næst bogalínunni, að innri brún hennar, meðfram línu sem fer í gegnum punkt á aðhlaupsbrautinni 8 m fyrir aftan bogalínuna (sjá myndir 1 og 2).
Köst úr hring:
Mælt er frá því fari sem áhaldið gerir í jörðina næst kasthringnum, að innri brún kasthringsins, meðfram línu sem fer í gegnum miðju hringsins (sjá myndir 1 og 2).
Lengd kasts er skráð sem næsti 0,01 m fyrir neðan mælda kastlengd ef mælingin er ekki upp á heilan cm. kastlengdin er því alltaf námunduð niður að næsta heila sentímetra. Dæmi:
52 metrar og 32,3 sentímetra skal skrá 52,32 m.
34 metrar og 56,8 sentímetra skal skrá 34,56 m (en ekki 34,57).
16 metrar og 13,0 sentímetrar skal skrá 16,13 m.
Myndir 1 og 2: Mælingar í kastgreinum
Aðhlaupsbrautin og lendingarsvæðið
Lendingarsvæðið (kastgeirann) á að afmarka með 50 mm breiðum línum sem mynda 28,96° horn.
Innri brúnir línanna (ef framlengdar) skerast þar sem innri hluti bogalínunnar mætir hliðarlínum atrennubrautarinnar og mætast í punkti 8 m fyrir aftan bogalínuna („miðja“ kastgeirans).
Hægt er að mæla geirann auðveldlega með því að mæla fjarlægð milli geiralína 20 m frá punkti á brautinni 8 m fyrir aftan bogalínuna. Þar á fjarlægðin að vera 10 m ± 0,05 m. Í 60 m fjarlægð frá punktinum á bilið milli geiralínanna að vera 30 m.
Mynd 3: Uppsetning lendingarsvæðis og atrennubrautar í spjótkasti
Gild og ógild köst
Kast er ógilt ef
keppandi heldur ekki um vafninginn á spjótinu með annarri hendi.
keppandi snertir með einhverjum líkamshluta línurnar sem afmarka aðhlaupsbrautina, þ.m.t. bogalínuna.
keppandi kastar spjótinu ekki yfir öxlina með framenda spjótsins á undan.
afturendi spjótsins lendir fyrst eða spjótið lendir flatt.
fyrsta snerting áhalds við jörðina er á línunum sem afmarka lendingargeirann eða utan við þær.
keppandi fer af brautinni áður en áhaldið lendir.
fyrsta snerting keppanda við samsíða línurnar sem afmarka brautina eða jörðina utan við þær er ekki aftan við bogalínuna.
Kast er talið gilt ef keppandi stígur á eða yfir (ímyndaða) línu 4 m aftan við endapunkta bogalínunnar eftir að áhaldið er lent.
Dómarateymið
Í dómarateyminu skulu helst vera eftirfarandi aðilar (þeir sem eru merktir með hástöfum eiga helst að vera með gild dómararéttindi) - Sjá mynd 4.
A. Greinarstjóri sem fylgist með allri framkvæmd keppninnar.
B. Tveir dómarar sem meta hvort kastið hafi verið framkvæmt rétt og mæla lengd kastsins. Annar er með tvo fána (e. Chief Judge), annan hvítan og hinn rauðan til að gefa til kynna gild og ógild köst. Hann setur keilu á brautina eftir kastið og tekur hana upp þegar allt er til reiðu fyrir næsta kast. Hinn dómarinn dregur málbandið í gegnum punkt á brautinni, 8 m aftan við bogalínuna en hinn les lengdina af innri brún bogalínunnar. Ef ljósmælingatæki eru notuð er ekki þörf á tveimur dómurum.
C. Dómari sem setur niður núllið á málbandinu (eða prismann á ljósmælingatækinu) niður á þann punkt sem á að mæla frá.
D. Dómari sem metur hvaðan eigi að mæla kastið, eftir að spjótið lendir. Hann er staðsettur úti í kastgeira.
Ef spjótið lendir utan kastgeirans eða ef spjótið lendir ekki með framendann fyrst, gefa dómarar C og D það til kynna með því að halda úti útréttum handlegg. Helst á ekki að nota fána til að gefa þetta til kynna. Aðeins dómari B á að vera með fána.
e. Einn eða tveir starfsmenn sem sækja áhöld og skila þeim til baka. Ef málband er notað ættu þessir starfsmenn að sjá til þess að málbandið sé beint og strekkt.
f. Ritari sem skráir árangurinn og vind og kallar upp keppandann sem stekkur næst og þann sem kemur þar á eftir.
g. Starfsmaður sem sér um upplýsingaspjald. Staðsetning er breytileg, fer til dæmis eftir því hvar áhorfendur eru staðsettir o.fl.
h. Tímavörður sem sér um klukkuna sem segir keppendum hve mikinn tíma þeir hafa. Hann er með gulan fána sem hann lyftir og heldur uppi þegar keppandi á 15 sekúndur eftir til að hefja tilraun sína.
i. Starfsmaður sem hefur umsjón með áhöldum
Best er ef sem flestir dómarar/starfsmenn sitja á meðan þeir sinna störfum sínum, til að skyggja sem minnst á keppnina.
Ef ekki eru nógu margir starfsmenn til að halda úti fullu dómarateymi er hægt að sameina hlutverk en sjá þarf til þess að öllum verkum sé sinnt.
Hlutverkaskipting getur breyst ef t.d. eru notuð ljósmælingatæki í stað málbands.
Mynd 4: Tillaga að staðsetningum dómara í spjótkasti
Kasthringurinn og lendingarsvæðið
Lendingarsvæðið (kastgeirann) á að afmarka með 50 mm breiðum línum sem mynda 34,92° horn. Innri brúnir geiralínanna (ef framlengdar) eiga að mætast miðju kasthringsins.
Hægt er að mæla geirann nákvæmlega með því að mæla fjarlægð milli geiralína 20 m frá miðju kasthrings. Þar á fjarlægðin að vera 12 m ± 0,05 m (sjá myndir 5-7).
Þvermál kasthrings:
Kringlukast: 2,50 m ± 5 mm
Kúluvarp: 2,135 m ± 5 mm
Sleggjukast: 2,135 m ± 5 mm
Í sleggjukasti er oft notaður sami hringur og í kringlukasti en þá þarf að setja inn í hringinn sérstakt innlegg til að þvermálið sé rétt.
Í kúluvarpi er stilliplanki (e. stop board) fastur við hringinn, sem keppendur mega snerta að innanverðu.
Kastbúr
Í kringlukasti og sleggjukasti á að kasta úr kastbúri til að tryggja öryggi áhorfenda, keppenda og starfsfólks.
Kastbúrin geta verið af ýmsum gerðum. Á mótum á vegum FRÍ er gerð krafa um búr ”af viðurkenndri gerð”, þ.e. viðurkennt af World Athletics.
Í sleggjukasti eru notaðir færanlegir ”vængir”, ýmist hægra eða vinstra megin eftir því hvort keppendur eru rétt- eða örvhentir.
Myndir 5-7: Uppsetning lendingarsvæðis, kasthrings, og kastbúrs í kúluvarpi (mynd 5), kringlukasti (mynd 6) og sleggjukasti (mynd 7). Á mynd 7 má sjá hvernig vængjum búrsins er stillt fyrir réttentan kastara.
Gild og ógild köst
Kast er ógilt ef
keppandi snertir með einhverjum líkamshluta efri flöt hringsins (eða efri brún hringsins) eða jörðina utan hrings.
Í kúluvarpi: Keppandi snertir einhvern hluta stilliplankans annan en innri hlið hans.
fyrsta snerting áhalds við jörðina er á línunum sem afmarka lendingargeirann eða utan við þær
keppandi fer úr kasthringnum áður en áhaldið lendir.
fyrsta snerting keppanda við jörðina utan kasthringsins er ekki aftan við miðju hringsins.
Í kúluvarpi: kúlunni er ekki kastað frá hálsi keppanda
Dómarateymið
Í dómarateyminu skulu helst vera eftirfarandi aðilar (þeir sem eru merktir með hástöfum eiga helst að vera með gild dómararéttindi) - Sjá mynd 4.
A. Greinarstjóri sem fylgist með allri framkvæmd keppninnar.
B. Tveir aðstoðardómarar sem meta hvort kastið hafi verið framkvæmt rétt og mæla lengd kastsins. Annar er með tvo fána (e. Chief Judge), annan hvítan og hinn rauðan til að gefa til kynna gild og ógild köst. Hann setur keilu í hringinn eftir hvert kast og tekur hana upp þegar allt er til reiðu fyrir næsta kast. Annar dómarinn dregur málbandið í gegnum miðju hringsins en hinn les lengdina af innri brún kasthringsins. Ef ljósmælingatæki eru notuð er ekki þörf á tveimur dómurum.
C. Dómari sem metur hvaðan eigi að mæla kastið, eftir að áhaldið lendir. Hann er staðsettur úti í kastgeira.
D. Dómari sem setur niður núllið á málbandinu (eða prismann á ljósmælingatækinu) niður á þann punkt sem á að mæla frá.
Ef spjótið lendir utan kastgeirans gefa dómarar C og D það til kynna með því að halda úti útréttum handlegg. Helst á ekki að nota fána til að gefa þetta til kynna. Aðeins dómari B á að vera með fána.
e. Einn eða tveir starfsmenn sem sækja áhöld og skila þeim til baka. Ef málband er notað ættu þessir starfsmenn að sjá til þess að málbandið sé beint og strekkt.
f. Ritari sem skráir árangurinn og vind og kallar upp keppandann sem stekkur næst og þann sem kemur þar á eftir.
g. Starfsmaður sem sér um upplýsingaspjald. Staðsetning er breytileg, fer til dæmis eftir því hvar áhorfendur eru staðsettir o.fl.
h. Tímavörður sem sér um klukkuna sem segir keppendum hve mikinn tíma þeir hafa. Hann er með gulan fána sem hann lyftir og heldur uppi þegar keppandi á 15 sekúndur eftir til að hefja tilraun sína.
i. Starfsmaður sem hefur umsjón með áhöldum
Best er ef sem flestir dómarar/starfsmenn sitja á meðan þeir sinna störfum sínum, til að skyggja sem minnst á keppnina.
Ef ekki eru nógu margir starfsmenn til að halda úti fullu dómarateymi er hægt að sameina hlutverk en sjá þarf til þess að öllum verkum sé sinnt.
Hlutverkaskipting getur breyst ef t.d. eru notuð ljósmælingatæki í stað málbands.
Myndir 11 og 12: Tillögur að staðsetingum dómara í kúluvarpi og kringlukasti