Velkomin á greinadómaranámskeið í frjálsum íþróttum. Greinadómaranámskeið veitir einstaklingi réttindi til þess að starfa sem greinastjóri á öllum innlendum mótum. Greinastjóri (e. Event Referee) er sá dómari sem sér um og stýrir framkvæmd keppni í hverri grein fyrir sig og hefur æðsta ákvörðunarvald, að undanskildum yfirdómara. Ákvarðanir um atriði eins og brottvísanir úr keppni, framlengingu tíma sem keppendur fá til tilrauna, eða breytingu á keppnisröð eru í höndum greinastjóra, en greinastjórar gætu líka þurft að taka á mótmælum. Réttindi greinadómara eru veitt í þremur flokkum, þ.e. hlaupagreinum, stökkgreinum og kastgreinum. Ekki eru veitt réttindi til einstakra greina, t.d. aðeins langstökks.
Námsefnið er það sama og á héraðsdómaranámskeiðinu en til að hljóta greinadómararéttindi nægir að fara yfir námsefnið þar sem farið er yfir almenn atriði í dómgæslu frjálsra íþrótta auk námsefnis viðkomandi greinaflokks (hlaup, stökk eða köst). Með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan má nálgast námsefnið.
Þegar þú hefur lokið við yfirferð námsefnisins er aðeins eftir að taka próf. Fylltu út formið hér að neðan til að fá sent til þín greinadómarapróf. Fyrirkomulagið er þannig að þú færð sendan til þín hlekk með prófinu. Þú hefur 60 mínútur til að klára prófið eftir að þú opnar hlekkinn. Nánari upplýsingar fylgja með prófinu.
Til að ná prófinu þarf að ná a.m.k. 50% stiga. Greinadómararéttindi renna út um fimmtu áramót eftir að prófið er tekið, þ.e. ef próf er t.d. tekið í júní 2024 renna réttindin út um áramót 2029.