Í þessum hluta námskeiðsins er farið yfir öll atriði sem dómarar í stökkgreinum þurfa að hafa á hreinu. Hér fyrir neðan er fyrirlesturinn um stökkgreinar en einnig glærurnar sem farið er yfir (glærurnar hafa verið uppfærðar síðan fyrirlestrarnir voru teknir upp svo það er ekki algjört samræmi. Það er verið að vinna í að taka fyrirlestrana upp aftur með uppfærðu námsefni). Ef þú ert að skoða síðuna í tölvu er hægt er að hlaða glærunum niður með því að smella á pop-out merkið í efra hægra horni glærurammans og svo á download merkið.
Neðst á síðunni má svo finna samantekt á textaformi.
Upphitunartilraunir
Áður en keppni hefst ættu allir keppendur að fá nokkrar upphitunartilraunir á keppnisstaðnum. Algengt er að allir keppendur fái a.m.k. tvær upphitunartilraunir en ef tími leyfir og keppendur óska eftir því má leyfa fleiri upphitunartilraunir.
Eftir að keppni hefst mega keppendur ekki nota aðhlaupsbrautina eða stökksvæðið til æfinga.
Merki á keppnissvæði
Keppendur mega setja niður eitt eða tvö merki meðfram aðhlaupsbrautinni. Keppnishaldari getur útvegið merkin en annars mega keppendur nota eigin merki, þ.á.m. límband, en ekki krít eða önnur efni sem erfitt gæti verið að fjarlægja.
Setja má niður fána eða önnur merki á lendingarsvæði til að sýna gildandi met, t.d. lands- eða mótsmet.
Setja ætti upp vindsokk (eða sambærilegt) á viðeigandi stað til að gefa til kynna vindátt og -styrk.
Keppnisröð og tilraunir
Keppendur skulu stökkva í röð sem dregin er af handahófi.
Keppandi má byrja að stökkva á hæð að eigin vali, af þeim hæðum sem áður hefur verið ákveðið að stokkið skuli á. Keppendur fá að hámarki þrjár tilraunir á hverja hæð.
Keppandi er úr leik stökkvi hann þrjú ógild stökk (felli þrisvar) í röð, óháð hæð. Keppandi getur því sleppt annarri og/eða þriðju tilraun á eina hæð en fær þá aðeins tvær eða þrjár tilraunir á þá næstu. Ef keppandi sleppir tilraun getur hann ekki tekið fleiri tilraunir á þá hæð (þarf að stökkva á næstu hæð).
Almennt má ekki hækka rána um minna en 2 cm í hástökki og 5 cm í stangarstökki. Eina undantekningin er ef keppandi er einn eftir í keppni og hefur tryggt sér sigur. Þá má keppandinn ráða hæðinni.
Hæðarmælingar
Hæðir eru allar mældar í heilum sentímetrum, hornrétt frá jörðu að lægsta punkti efri brúnar ráarinnar.
Sitthvor endi ráarinnar á að vera í sömu hæð, þ.a. að miðja ráarinnar sé lægsti puktur hennar. Í hástökki má ráin má síga mest 20 mm, þ.e. mesti leyfilegi munur á hæðinni milli miðjunnar og endanna er 20 mm, en 30 mm í stangarstökki (sjá myndir 1 og 2).
Mynd 1: Uppsetning ráar í hástökki
Mynd 2: Uppsetning ráar í stangarstökki
Tími milli tilrauna
Keppendur fá ákveðinn tíma til að hefja tilraun sína. Keppandi er talinn hafa hafið tilraun sína þegar hann leggur af stað í aðhlaup að stökkinu.
Tíminn byrjar að telja þegar dómari gefur merki um að allt sé til reiðu.
Helst ætti að vera til staðar klukka sem sýnir keppanda hversu mikinn tíma hann hefur til að hefja tilraunina. Auk þess á starfsmaður að sýna keppanda þegar hann á 15 sekúndur eftir með því að lyfta og halda uppi gulum fána.
Taflan hér að neðan sýnir tímann sem keppandi fær í hverri grein, eftir því hversu margir keppendur eru eftir í keppninni. Tíminn er ákvarðaður upp á nýtt eftir hverja hækkun ráarinnar.
Ef keppandi getur ekki, af óviðráðanlegum ástæðum, stokkið áður en tíminn er liðinn hefur greinarstjóri leyfi til að veita honum uppbótarstökk eða endurstilla klukkuna. Ekki skal breyta stökkröðinni en gefa má keppanda aukatíma í samræmi við aðstæður.
Ef ákveðið er, eftir að keppni hefur haldið áfram, að veita keppanda uppbótarstökk skal uppbótarstökkið tekið strax, áður en aðrir keppendur stökkva fleiri stökk.
Utanaðkomandi valdar að falli
Ef skýrt er að einhver eða eitthvað (t.d. vindur) annað en keppandinn olli því að ráin féll eftir að keppandi fór yfir rána skal það ekki dæmt sem fall.
Ef það sama gerist undir einhverjum öðrum kringumstæðum (t.d. á meðan á aðhlaupi stendur) á keppandinn að fá nýja tilraun og klukkan endurstillt.
Skráning árangurs og úrslitaröð keppenda
Hver keppandi skal fá skráðan sinn besta árangur af þeim stökkum sem hann tók, líka ef besta stökkið var hluti af umstökkskeppni um fyrsta sæti.
Ef tveir eða fleiri keppendur fara yfir sömu lokahæð skal aðferðin til að til að ákveða röð vera eftirfarandi.
Sá keppandi sem fór yfir þá hæð, sem síðast var farið yfir, í færri tilraunum telst á undan.
Ef keppendur eru enn jafnir, skal sá keppandi sem sjaldnast hefur fellt í allri keppninni, að þeirri hæð meðtalinni sem þeir fóru síðast yfir, teljast á undan.
Ef keppendur eru enn jafnir skal viðkomandi keppendum veitt sama sæti nema það varði fyrsta sæti.
Sé um fyrsta sæti að ræða skal fara fram umstökk nema annað hafi verið ákveðið. Ef umstökk fer ekki fram eru keppendur dæmdir jafnir í fyrsta sæti.
Við skráning árangurs er ritað O til að tákna gilt stökk, X til að tákna ógilt stökk (fall) og ̶ ef tilraun er sleppt. Dæmi:
Umstökk
Umstökkskeppni fer þannig fram að fyrst fá keppendur eina tilraun á næstu hæð ofan við þá sem þeir fóru yfir í meginhluta keppninnar (miðað við þær hæðir sem voru ákveðnar fyrir keppni). Fari fleiri en einn yfir þá hæð er ráin hækkuð um 2 cm og þeir sem fóru yfir fá eina tilraun á þá hæð. Felli allir keppendur er ráin lækkuð um 2 cm og keppendur fá eina tilraun. Svona er haldið áfram þar til aðeins einn keppandi fer yfir tiltekna hæð.
Mynd 3 að neðan sýnir uppsetningu lendingarsvæðis í stangarstökki. Á brautinni á að vera máluð núll-lína (1 cm breið) sem fer í gegnum aftasta hluta stokksins. Á dýnunni sjálfri á svo einnig að vera núll-lína (5 cm breið). Hægt er að færa uppistöðurnar allt að 80 cm frá núll-línunni í átt að lendingarsvæðinu. Þegar uppistöðurnar eru á núllinu á nærbrún ráarinnar og nærbrún núll-línunannar að vera í sama lóðrétta plani (ráin er beint fyrir ofan núllínuna).
Mynd 3: Uppsetning stangarstökkssvæðis
Gild og ógild stökk í stangarstökki
Keppandi er talinn hafa fellt ef
ráin helst ekki kyrr á okunum á meðan á stökkinu stendur fyrir tilverknað keppanda
hann snertir jörðu, þar með talið lendingarsvæðið, handan línu (núll-línu) sem gaflinn á stökkstokknum er hluti af, með einhverjum hluta líkamans eða stönginni án þess að fara fyrst yfir rána
færir neðri hönd upp fyrir þá efri eða færir efri höndina lengra upp stöngina eftir að hann er laus frá jörðu
íþróttamaðurinn stillir eða setur rá sem er að falla aftur á sinn stað með höndum eða fingri meðan á stökkinu stendur.
ATH: Það telst vera fall ef stöngin sem keppandi notar fellir rána, jafnvel þó keppandi hafi farið yfir hana.
Eftir að keppandi sleppir stönginni má enginn snerta stöngina, nema ljóst sé að hún sé að falla burt frá ránni eða uppistöðunum.
Aðrar reglur í stangarstökki
Keppandi má láta færa uppistöður í átt að lendingarsvæðinu allt að 80 cm. Breyta má fjarlægðinni fyrir hvert stökk.
Keppendur mega nota efni til að auka grip á stönginni. Keppendur mega nota hanska.
Keppendur mega nota eigin stangir, en ekki stangir annarra nema með leyfi eiganda. Stangirnar eiga að vera sléttar. Vefja má límbandi á endana en límbandið má ekki snögglega breyta ummáli stanganna þannig að keppandi fái aukið grip á stönginni.
Dómarateymi í stangarstökki
Í dómarateyminu skulu helst vera eftirfarandi aðilar (þeir sem eru merktir með hástöfum eiga helst að vera með gild dómararéttindi) - Sjá mynd 4 fyrir neðan fyrir tillögu að staðsetingum dómara.
A. Greinarstjóri sem fylgist með allri framkvæmd keppninnar. Hann staðfestir mælingar á hæðum. Greinarstjóri hefur tvo fána, hvítan til að gefa til kynna gilt stökk og rauðan til að gefa til kynna fall eða ógilt stökk. Hann þarf að vera þannig staðsettur að hann sjái hvort keppandi stígi á eða yfir núll-línuna eða snerti jörðina/dýnuna aftan við núll-línuna með stönginni. Hann gæti þurft að breyta staðsetningu sinni eftir því hvort keppandi stekkur á hægri eða vinstri fæti.
B. Tveir aðstoðardómarar sem setja upp rána þegar hún fellur. Þeir aðstoða einnig greinarstjóra í hans störfum. Þeir sjá um að færa uppistöður í rétta fjarlægð samkvæmt óskum keppenda.
c. Ritari sem skráir árangurinn og kallar upp keppandann sem stekkur næst og þann sem kemur þar á eftir. Hann skráir einnig hvaða fjarlægðir keppendur óska eftir og kemur þeim upplýsingum til dómara B.
d. Starfsmaður sem sér um upplýsingaspjald. Staðsetning er breytileg, fer til dæmis eftir því hvar áhorfendur eru staðsettir o.fl.
e. Tímavörður sem sér um klukkuna sem segir keppendum hve mikinn tíma þeir hafa. Hann er með gulan fána sem hann lyftir og heldur uppi þegar keppandi á 15 sekúndur eftir til að hefja tilraun sína.
Best er ef sem flestir dómarar/starfsmenn sitja á meðan þeir sinna störfum sínum, til að skyggja sem minnst á keppnina.
Ef ekki eru nógu margir starfsmenn til að halda úti fullu dómarateymi er hægt að sameina hlutverk en sjá þarf til þess að öllum verkum sé sinnt.
Mynd 4: Tillaga að staðsetingum dómara í stangarstökki
Mynd 5 að neðan sýnir uppsetningu lendingarsvæðis í hástökki. Setja á niður hvíta línu (5 cm breiða, getur verið límband eða máluð lína á brautinni) milli punkta sem eru 3 m utan við hvora uppistöðu. Nærbrún línunnar á að vera í sama lóðrétta plani og nærbrún ráarinnar.
Mynd 5: Uppsetning hástökkssvæðis
Gild og ógild stökk í hástökki
Keppandi er talinn hafa fellt ef
hann stekkur jafnfætis.
hann veldur því, á meðan stökkinu stendur, að ráin fellur af uppistöðunum.
hann snertir jörð eða dýnu(r) handan við lóðrétt plan frá nærbrún ráar, annað hvort milli uppistaða eða utan þeirra, með einhverjum líkamshluta án þess að fara fyrst yfir rána. Ef stökkvari hins vegar snertir dýnuna í sjálfu stökkinu og hagnast ekki á því að mati dómara, skal stökkið ekki dæmt ógilt vegna þessarar ástæðu.
Þetta þýðir að ef keppandi stígur á línuna undir ránni án þess að stökkva yfir ránna er stökkið dæmt ógilt.
hann snertir rána eða lóðrétta hluta uppistaðanna í atrennunni, án þess að stökkva.
Dómarateymi í hástökki
Í dómarateyminu skulu helst vera eftirfarandi aðilar (þeir sem eru merktir með hástöfum eiga helst að vera með gild dómararéttindi) - Sjá mynd 6 fyrir neðan fyrir tillögu að staðsetingum dómara.
A. Greinarstjóri sem fylgist með allri framkvæmd keppninnar. Hann staðfestir mælingar á hæðum. Greinarstjóri hefur tvo fána, hvítan til að gefa til kynna gilt stökk og rauðan til að gefa til kynna fall eða ógilt stökk. Hann þarf að vera þannig staðsettur að hann sjái hvort keppandi stígi á eða yfir núll-línuna eða snerti jörðina/dýnuna aftan við núll-línuna með stönginni. Hann gæti þurft að breyta staðsetningu sinni eftir því hvort keppandi stekkur á hægri eða vinstri fæti.
B. Tveir aðstoðardómarar sem setja upp rána þegar hún fellur. Þeir aðstoða einnig greinarstjóra í hans störfum.
c. Ritari sem skráir árangurinn og kallar upp keppandann sem stekkur næst og þann sem kemur þar á eftir. Hann skráir einnig hvaða fjarlægðir keppendur óska eftir og kemur þeim upplýsingum til dómara B.
d. Starfsmaður sem sér um upplýsingaspjald. Staðsetning er breytileg, fer til dæmis eftir því hvar áhorfendur eru staðsettir o.fl.
e. Tímavörður sem sér um klukkuna sem segir keppendum hve mikinn tíma þeir hafa. Hann er með gulan fána sem hann lyftir og heldur uppi þegar keppandi á 15 sekúndur eftir til að hefja tilraun sína.
Best er ef sem flestir dómarar/starfsmenn sitja á meðan þeir sinna störfum sínum, til að skyggja sem minnst á keppnina.
Ef ekki eru nógu margir starfsmenn til að halda úti fullu dómarateymi er hægt að sameina hlutverk en sjá þarf til þess að öllum verkum sé sinnt.
Mynd 6: Tillaga að staðsetningum dómara í hástökki
Upphitunartilraunir
Áður en keppni hefst ættu allir keppendur að fá nokkrar upphitunartilraunir á keppnisstaðnum. Algengt er að allir keppendur fái a.m.k. tvær upphitunartilraunir en ef tími leyfir og keppendur óska eftir því má leyfa fleiri upphitunartilraunir.
Eftir að keppni hefst mega keppendur ekki nota aðhlaupsbrautina eða stökksvæðið til æfinga.
Merki á keppnissvæði
Keppendur mega setja niður eitt eða tvö merki meðfram aðhlaupsbrautinni. Keppnishaldari getur útvegið merkin en annars mega keppendur nota eigin merki, þ.á.m. límband, en ekki krít eða önnur efni sem erfitt gæti verið að fjarlægja.
Setja má niður fána eða önnur merki á lendingarsvæði til að sýna gildandi met, t.d. lands- eða mótsmet.
Setja ætti upp vindsokk (eða sambærilegt) á viðeigandi stað til að gefa til kynna vindátt og -styrk.
Keppnisröð og tilraunir
Ef keppendur eru fleiri en 8 er venjan að allir keppendur fái 3 tilraunir og þeir 8 keppendur sem eiga besta árangurinn eftir 3 umferðir fá 3 tilraunir til viðbótar. Í fyrstu þremur umferðunum skulu keppendur stökkva í röð sem dregin er af handahófi en fyrir seinni þrjár umferðirnar er röðinni breytt þannig að sá sem á lakasta árangurinn stekkur fyrst, næst sá sem á næstlakasta árangurinn o.s.frv. Oft er endurraðað upp á nýtt fyrir síðustu umferðina. Hvort það sé gert er í höndum skipuleggjenda mótsins.
Ef tveir eða fleiri keppendur eiga jafnan árangur eftir þrjár umferðir en ekki er pláss fyrir þá alla í seinni þremur umferðunum skal raða eftir næst besta árangri og ef enn er jafnt þá þriðja besta árangri. Ef enn er jafnt fá þeir allir að halda keppninni áfram.
Ef tveir eða fleiri keppendur sem eiga rétt á fleiri en þremur tilraunum eiga jafnan árangur eftir þrjár tilraunir skal raða þeim í sömu röð miðað við hvern annan og þeir stukku í fyrri þremur tilraununum.
Forkeppni
Séu keppendur svo margir að halda þurfi forkeppni skulu keppendur í forkeppni fá að hámarki 3 tilraunir. Árangur í forkeppni telst ekki með þegar í úrslitakeppnina er komið.
Algengast er að 12 keppendur komist áfram úr forkeppni. Á tæknifundi er ákveðið hvaða lágmarksárangri þurfi að ná í forkeppni til að eiga tryggt sæti í úrslitakeppni. Ef færri en 12 ná lágmarksárangri er fyllt upp í síðustu sætin í samræmi við árangur keppenda í forkeppninni.
Þegar lágmarksárangri er náð fær keppandi ekki fleiri tilraunir í forkeppninni.
Ef tveir eða fleiri keppendur eru jafnir eftir forkeppni en ekki er pláss fyrir þá alla í úrslitakeppninni skal ákveða röðina eftir næst besta árangri og ef enn er jafnt þá þriðja besta árangri. Ef enn er jafnt fá þeir allir að keppa í úrslitum.
Tími milli tilrauna
Keppendur fá ákveðinn tíma til að hefja tilraun sína. Keppandi er talinn hafa hafið tilraun sína þegar hann leggur af stað í aðhlaup að stökkinu.
Tíminn byrjar að telja þegar dómari gefur merki um að allt sé til reiðu.
Helst ætti að vera til staðar klukka sem sýnir keppanda hversu mikinn tíma hann hefur til að hefja tilraunina. Auk þess á starfsmaður að sýna keppanda þegar hann á 15 sekúndur eftir með því að lyfta og halda uppi gulum fána.
Taflan hér að neðan sýnir tímann sem keppandi fær í hverri grein, eftir því hversu margir keppendur eru eftir í keppninni. Tíminn er ákvarðaður upp á nýtt eftir hverja hækkun ráarinnar.
Ef keppandi getur ekki, af óviðráðanlegum ástæðum, stokkið áður en tíminn er liðinn hefur greinarstjóri leyfi til að veita honum uppbótarstökk eða endurstilla klukkuna. Ekki skal breyta stökkröðinni en gefa má keppanda aukatíma í samræmi við aðstæður.
Ef ákveðið er, eftir að keppni hefur haldið áfram, að veita keppanda uppbótarstökk (t.d. ef kemur í ljós að mæling mistókst) skal uppbótarstökkið tekið strax, áður en aðrir keppendur stökkva oftar.
Árangur
Hver keppandi skal fá skráðan sinn besta árangur af þeim stökkum sem hann tók. Ef tveir keppendur eiga jafnan besta árangur skal ákvarða röðina út frá næstbesta stökki, þriðja besta stökki o.s.frv. Ef keppendur eru enn jafnir skal það skráð sem jafntefli.
Stökkplankinn
Stökkplankinn er samansettur af 20 cm breiðu hvítu stökkborði og 10 cm merkiborði í öðrum lit en brautin og stökkborðið. Allt yfirborð plankans á að vera í sömu hæð og aðhlaupsbrautin og yfirborð sandgryfjunnar.
Öll stökk teljast ógild þar sem fótur keppanda rýfur lóðréttan flöt við stökkbrúnina á meðan á uppstökki stendur. Notast má við myndavél til að hjálpa við dómgæslu (og er sterklega mælt með því). Ef ekki er notuð myndavél er best að nota merkiborð með leir sem nær upp fyrir yfirborð stökkborðsins og brautarinnar.
Myndir 7 og 8 sýna nokkur gild og ógild stökk.
Mynd 7: Á efri tveimur myndunum eru stökkin ógild. Á neðri tveimur myndunum eru stökkin gild.
Mynd 8: Sjónarhornið úr plankamyndavélinni. Mikilvægt er að myndavélinni sé stillt upp þannig að hún sjái akkúrat þvert á plankann. Ef einhver hluti stökkfótarins fer yfir hvítu línuna (á myndinni lengst til vinstri og í miðjunni) á meðan fóturinn er í jörðinni er stökkið dæmt ógilt. Þetta eru allt gild stökk.
Vindmæling
Vindur er mældur í 5 sekúndur frá því keppandi fer framhjá merki sem staðsett er 40 m frá stökkbrúninni. Ef aðhlaup keppanda er minna en 40 m er mælt frá því hann leggur af stað.
Vindmælirinn er staðsettur 20 m frá stökkbrúninni, í 1,22 m hæð frá jörðu og í mesta lagi 2 m frá aðhlaupsbrautinni.
Vindmælingu á að skrá upp á einn staf eftir kommu. Ef mælirinn sýnir tvo aukastafi á að námunda upp að einum aukastaf, líka ef mæling er neikvæð.
+2,03 m/s námundast upp í +2,1 m/s
-2,03 m/s námundast upp í -2,0 m/s)
Lendingarsvæðið
Miðlína aðhlaupsbrautarinnar (ef framlengd) á helst að falla ofan í miðlínu lendingarsvæðisins. Ef svo er ekki á að minnka lendingarsvæðið með bandi þannig að miðjulína aðhlaupsbrautarinnar falli ofan í miðlínu lendingarsvæðisins, en þó þannig að breidd lendingarsvæðisns sé a.m.k. 2,75 m (sjá mynd 12).
Yfirborð lendingarsvæðisins á að vera slétt og í sömu hæð og uppstökksplankinn. Mögulega þarf að bæta við sandi í gryfjuna eða færa hann til í gryfjunni.
Mæling stökks á planka
Mælingin er gerð strax eftir hvert gilt stökk. Öll gild stökk skal mæla.
Ógild stökk skal ekki mæla, nema keppandi mótmæli strax að stökki loknu og möguleiki sé að dómi verði snúið við.
Mælingin er gerð frá því fari sem keppandi gerir í sandinn næst stökkbrúninni, þvert á stökkbrúnina eða framlengingu hennar (sjá myndir 10-13).
Lengd stökks er skráð sem næsti 0,01 m fyrir neðan mælda stökklengd ef mælingin er ekki upp á heilan cm. Stökklengdin er því alltaf námunduð niður að næsta heila sentímetra. Dæmi:
5 metrar og 32,3 sentímetra skal skrá 5,32 m.
4 metrar og 56,8 sentímetra skal skrá 4,56 m (en ekki 4,57).
6 metrar og 13,0 sentímetrar skal skrá 6,13 m.
Myndir 10-13: Helstu atriði til að hafa í huga við mælingu í langstökki og þrístökki
Mynd 14: Mæling í lang- og þrístökki 13 ára og yngri
Krakkar 13 ára og yngri
Keppendur 11 ára og yngri skulu stökkva af metrasvæði í stað stökkplanka. Keppendur 12-13 ára skulu stökkva af 50 cm svæði. Met sett við þessar aðstæður gilda ekki upp í eldri aldursflokka.
Svæðið afmarkast með tveimur hvítum línum, sem teljast innan svæðis. Sé stigið fram yfir fremri brún svæðis telst stökkið ógilt, sé stokkið upp innan svæðis skal mælt frá fremstu tá stökkfótar, en sé stokkið upp aftan svæðis, skal mælt frá aftari brún stökksvæðis.
Mynd 14: Mæling í lang-/þrístökki 13 ára og yngri
Gild og ógild stökk
Stökk er talið ógilt ef
einhver hluti stökkfótar rýfur lóðréttan flöt sem liggur í gegnum stökkbrúnina á meðan stökkfóturinn er í jörðinni.
stokkið er upp með allan fótinn utan við annan hvorn enda stökkplankans.
Hluti fótar má vera utan við stökkplankann, ekki allur fóturinn.
Það er í lagi að hlaupa utan við hvítu línurnar sem afmarka aðhlaupsbrautina.
Í lagi er að stökkva upp áður en komið er að stökkplankanum.
framkvæmd eru heljarstökk af einhverju tagi, hvort sem er í aðhlaupi eða í stökkinu sjálfu.
keppandi snertir jörðina utan við lendingarsvæðið eftir að stokkið er upp en áður en er lent.
á meðan lendingu stendur snertir keppandi jörðina eða svæðið utan við lendingarsvæðið nær stökkbrúninni en aftasta far í sandinum.
Það er í lagi að snerta brún lendingarsvæðisins eða jörðina utan við það ef snertingin er lengra frá stökkplankanum en aftasta far í sandinum.
Farið úr gryfjunni
Eina löglega leiðin til að fara úr gryfjunni er að fyrsta skrefið er lengra frá stökkbrúninni en aftasta far í sandinum
Ef aðrar leiðir eru farnar er stökkið dæmt ógilt.
Ef keppandi gengur í gegnum lendingarsvæðið eftir að hann fer löglega úr gryfjunni skal stökkið dæmt gilt.
Sérreglur í þrístökki
Í þrístökki skulu fyrstu tvö stökkin vera stokkin af sama fætinum og það þriðja af hinum. Ekki skiptir máli hvort fyrsta stökkið er með hægri eða vinstri fæti (getur verið hægri-hægri-vinstri eða vinstri-vinstri-hægri).
Það er í lagi að sá fótur sem ekki er verið að stökkva með snerti jörðina.
Í stökki tvö og þrjú má stökkfóturinn vera út fyrir línurnar sem afmarka aðhlaupsbrautina.
Dómarateymið
Í dómarateyminu skulu helst vera eftirfarandi aðilar (þeir sem eru merktir með hástöfum eiga helst að vera með gild dómararéttindi) - Sjá mynd 15
A. Greinarstjóri sem fylgist með allri framkvæmd keppninnar.
B. Dómari sem metur hvort uppstökkið hafi verið gilt og hvort keppandi fari löglega úr gryfjunni. Þá mælir hann einnig lengd stökksins. Hann er með tvo fána, hvítan til að gefa til kynna gilt stökk og rauðan til að gefa til kynna ógilt stökk. Passa þarf að lyfta ekki fána fyrr en keppandi er farinn úr gryfjunni. Þessi dómari setur keilu á jörðina eftir stökkið og tekur hana upp þegar brautin og gryfjan eru tilbúin fyrir næsta stökk.
C. Dómari í gryfjunni sem metur hvar aftasta far í sadinum er og setur núllið á málbandinu (eða prismann á ljósmælingatækinu) við það far.
d. Ritari sem skráir árangurinn og vind og kallar upp keppandann sem stekkur næst og þann sem kemur þar á eftir.
e. Starfsmaður sem sér um upplýsingaspjald. Staðsetning er breytileg, fer til dæmis eftir því hvar áhorfendur eru staðsettir o.fl.
f. Dómari sem stjórnar vindmæli 20 m frá stökkbrúninni. Hann kemur vindmælingu hvers stökks til skila til þess sem skráir árangurinn (d).
g. Helst a.m.k. tvo starfsmenn sem sjá um að gryfjan sé slétt eftir hvert stökk.
h. Tímavörður sem sér um klukkuna sem segir keppendum hve mikinn tíma þeir hafa. Hann er með gulan fána sem hann lyftir og heldur uppi þegar keppandi á 15 sekúndur eftir til að hefja tilraun sína.
Best er ef sem flestir dómarar/starfsmenn sitja á meðan þeir sinna störfum sínum, til að skyggja sem minnst á keppnina.
Ef ekki eru nógu margir starfsmenn til að halda úti fullu dómarateymi er hægt að sameina hlutverk en sjá þarf til þess að öllum verkum sé sinnt.
Hlutverkaskipting getur breyst ef t.d. eru notuð ljósmælingatæki í stað málbands.
Mynd 15: Tillaga að staðsetningum dómara í langstökki og þrístökki