Takk fyrir að sýna dómaranámskeiðum í frjálsum íþróttum áhuga. Á þessari síðu má nálgast upplýsingar um þau námskeið sem Dómaranefnd FRÍ býður upp á. Námskeiðin eru fimm talsins og veita ýmis réttindi til dómgæslu á frjálsíþróttamótum. Fjögur þeirra samsvara þeim fjórum stigum dómara sem skilgreind eru í reglugerð FRÍ um dómaramál, þ.e. aðstoðardómarar, greinadómarar, héraðsdómarar og landsdómarar en auk þess er boðið upp á sérnámskeið sem veitir réttindi til að dæma götuhlaup á Íslandi.
Á þessu netnámskeiði er aðeins farið yfir allra helstu grunnatriðin í reglum frjálsra íþrótta. Námskeiðið, sem ekki lýkur með prófi, veitir réttindi aðstoðardómara. Samkvæmt reglugerð FRÍ um dómaramál er það í höndum hvers félags að mennta aðstoðardómara en dómaranefndin ákvað að bjóða upp á þetta námskeið fyrir þá sem það kjósa. Námskeiðið er að mörgu leyti byggt upp á svipaðan hátt og héraðsdómaranámskeiðið (sjá að neðan) en ekki er farið jafn djúpt í öll atriði. Námsefni grunnnámskeiðsins getur líka nýst foreldrum eða öðrum áhugasömum sem eru að kynnast íþróttinni og vilja fá innsýn inn í helstu grunnatriðin.
Smelltu hér til að nálgast námsefni grunnnámskeiðsins.
Greinadómaranámskeið veitir einstaklingi réttindi til þess að starfa sem greinastjóri á öllum innlendum mótum. Greinastjóri (e. Event Referee) er sá dómari sem sér um og stýrir framkvæmd keppni í hverri grein fyrir sig og hefur æðsta ákvörðunarvald. Ákvarðanir um atriði eins og brottvísanir úr keppni, framlengingu tíma sem keppendur fá til tilrauna, eða breytingu á keppnisröð eru í höndum greinastjóra. Réttindi greinastjóra eru veitt í þremur flokkum, þ.e. hlaupagreinum, stökkgreinum og kastgreinum. Ekki eru veitt réttindi til einstakra greina, t.d. aðeins langstökks.
Námsefni greinadómaranámskeiðs er það sama og námsefni héraðsdómaranámskeiðs nema þau sem hyggjast sækja sér réttindi greinastjóra fara aðeins yfir umfjöllun um almenn atriði í keppni frjálsra íþrótta og um þann greinaflokk sem áhugi er fyrir (hlaup, stökk eða köst). Námskeiðinu lýkur með prófi úr námsefninu.
Smelltu hér til að nálgast námsefni greinadómaranámskeiðsins.
Héraðsdómaranámskeið í frjálsum íþróttum veitir réttindi héraðsdómara. Samkvæmt reglugerð FRÍ um dómaramál geta héraðsdómarar verið yfirdómarar og mótsstjórar á öllum innlendum mótum öðrum en meistaramótum og bikarkeppnum fullorðinna, ásamt því að hafa sjálfkrafa réttindi greinadómara í öllum greinum. Yfirdómari móts (e. Technical Delegate) hefur yfirumsjón með dómgæslu á móti, fer m.a. yfir að uppsetning í hverri grein sé samkvæmt reglum, hefur ákvörðunarvald í málefnum er varða m.a. röðun í riðla, byrjunarhæðir o. fl. og sker úr um vafaatriði sem upp geta komið.
Námsefninu er skipt í fimm hluta: Almenn atriði, hlaupagreinar, stökkgreinar, kastgreinar og fjölþrautarkeppnir. Til þess að hljóta héraðsdómararéttindi er nauðsynlegt að fara yfir námsefni hvers hluta fyrir sig og taka svo próf þar sem spurt er úr hverjum hluta fyrir sig.
Smelltu hér til að nálgast námsefni héraðsdómaranámskeiðsins.
Landsdómaranámskeiðið veitir réttindi landsdómara, sem samsvarar og er jafngilt National Athletics Referee (NAR) dómarastiginu í dómarastrúktúr alþjóða frjálsíþróttasambandsins (World Athletics). Landsdómarar geta verið yfirdómarar og mótsstjórar á meistaramótum og bikarkeppnum fullorðinna, og greinastjórar á alþjóðlegum mótum sem haldin eru á Íslandi. Landsdómaranámskeiðið er viðbót við héraðsdómararéttindi og því gerð forkrafa um héraðsdómararéttindi. Viðbótin felst m.a. í nánari umfjöllun um hlutverk yfirdómara auk verklegs þáttar.
Smelltu hér til að nálgast námsefni landsdómaranámskeiðsins.