Hvernig stöndum við í dag?

Ákveðin þáttaskil áttu sér stað í lok árs 2023 þegar bæjarstjórn ákvað að veita aukið fjármagn í tækjavæðingu skólans. Hugmyndin um kennslustýrð tæki og símalausan skóla eiga þar talsvert stóran þátt. Með mikilli vinnu og áræðni starfsfólks skólans erum við að sjá fram á að okkar framtíðarsýn verði að veruleika. Við höfum fengið samþykkt að tækjavæða skólann á næstu 3 skólaárum sem verður að teljast mikið framfaraskref í tækjasögu skólans.

Eins og fram hefur komið annars staðar á síðunni ætlum við okkur að veita nemendum í 3. - 10. bekk eitt tæki á mann og að hverjir 2 nemendur í 1. og 2. bekk deili tæki.

Nú þegar er búið að setja upp kennarastýringu á Ipada skólans og unnið er að kennarastýringu á Chromebækurnar. Þar sem við vinnum ekki í Google umhverfinu er þessi hluti pínu flækjustig svo við náum að uppfylla persónuvernd nemenda. Engir Google aðgangar verða stofnaðir sem hægt er að rekja til einstaka nemenda en það er bæði flókið og tímafrekt ferli. Við berum hag nemenda okkar að leiðarljósi og gætum ávallt ítrustu varkárni þegar kemur að meðferð persónuupplýsinga þeirra. 

Forritin sem við notum til að stjórna tækjunum eru annars vegar Jamf (fyrir ipadana) og Securly (fyrir Chromebækurnar). Þessi forrit eru hönnuð þannig að kennarar stýra því hvaða forrit nemendur nota, skoðað hvernig þeir eru að vinna verkefnin sýn og nemendur geta fengið sértæka aðstoð ef þeir óska. Eins eru samfélagsmiðlar ekki leyfðir og kennarar hafa heimildir til að slökkva á öllum skjáum í miðri kennslu ef þeir eru með sérstakt innlegg sem þarfnast athygli nemenda. 

Stefna grunnskólans miðast einkum af því að tækjabúnaðurinn sé nýttur sem námstæki en ekki leiktæki. Því erum við að taka það skref að bæði banna önnur snjalltæki sem nemendur eiga sem og tækjabúnaður skólans sé ekki nýttur sem leiksvæði (þó að nám sé að sjálfssögðu leikur einn). Það er á okkar ábyrgð að kenna nemendum að nýta sér tæknina til náms og það er sannarlega okkar megin markmið. 

Þetta ferli er langt og strangt. Margir skólar hafa stigið þetta skref á undan okkur og við nýtum okkur að sjálfssögðu þeirra ferli í okkar innleiðingu. Að mörgu er að huga og nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar. 

Kennarastýrð tæki á mann er því að okkar mati besta leiðin til að veita nemendum okkar í GSS sín bestu náms tækifæri til framtíðar!