Af hverju upplýsinga- og tæknimennt í skólastarfi?
Af hverju upplýsinga- og tæknimennt í skólastarfi?
Í aðalnámskrá grunnskólanna (2013) segir að megintilgangurinn með kennslu í upplýsinga- og tæknimennt sé að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og aðstoða þá við að efla almennt, gott tæknilæsi og tæknifærni. Þessir þættir fela meðal annars í sér að geta nýtt sér fjölbreyttan tæknibúnað og úrvinnsluleiðir, aflað sér þekkingar og miðlað henni með búnaðinum, hæfninni til að ná í, flokka og vinna úr upplýsingum á skapandi og gagnrýnan hátt og hæfni til að ná í, greina, meta og búa til miðlaskilaboð. Þannig verða nemendur læsir á myndir og töluleg gögn, texta, fingrasetningu, ná góðri tæknifærni og hæfni á sviði upplýsinga- og miðlalæsi. Með upplýsingatækni er stuðlað að sveigjanleika, jafnrétti til náms og rými til sköpunar á ýmsum sviðum, en nemandi þarf að undirbúa sig fyrir virka þátttöku í sínu nærsamfélagi sem og alþjóðasamfélagi en þar gegna mikilvægu hlutverki samskipti, samvinna og alþjóðatengsl (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 224-225).
Tæknibúnaður skólanna skiptir því miklu máli ef nemendur eiga að vera í stakk búnir til að standa undir þeim kröfum sem ekki bara aðalnámskrá leggur fram heldur einnig tæknisamfélagið sem við búum við í dag. Tækjabúnað má því leggja undir sama hatt og öll önnur námsgöng. Þau eru verkfæri sem notast á við á ábyrgan hátt til að gera skólastarfið og nám nemenda markvissara, fjölbreyttara og einnig til að efla áhugahvöt nemenda í námi almennt.
Hér eru fimm þættir um markvissa notkun upplýsingatækni í skólastarfi:
1. Möguleikar tækninnar styðja við fjölbreyttar þarfir barna og ungmenna í skóla margbreytileikans.
2. Upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi eru lykilþættir sem styðja við áhuga og styrkleika, gagnrýna og skapandi hugsun, samstarf, virkni, tjáningu og miðlun.
3. Forritun, sýndar- og gagnaukinn veruleiki, vinsælir miðlar, tölvuleikir, þrívíddarhönnun og fjölbreytt verkfæri upplýsingatækninnar eru notuð á markvissan hátt í námi og leik.
4. Upplýsingatækni styður við teymisvinnu, samþættingu verkefna og tengir saman raunheima og hinn stafræna heim.
5. Upplýsingatækni er notuð til að efla samstarf heimila og starfsstaða og veita samfélaginu innsýn í öflugt skóla- og frístundastarf.
Upplýsinga- og tæknimennt er hluti af hinum daglega raunveruleika sem við búum við í dag og okkar skylda að kenna nemendum ekki bara að nota tækjabúnaðinn sjálfan sem slíkan heldur að nýta sér hann til þekkingaöflunar og sköpunar.