Skrifað í október 2015Þegar síldarævintýrið hófst, breyttist fámennt samfélag norður við Dumbshaf í eitthvað sem enginn hafði áður upplifað. Þar sem áður hafði talist til stórtíðinda ef skip sigldi inn fjörðinn að frátöldum skektum eða hákarlaskipum heimamanna, ríkti nú sannkallað gullgrafaraæði. Fólki fjölgaði, húsum fjölgaði, söltunarstöðvum fjölgaði og verslunum fjölgaði. Allt þetta gerðist svo hratt, að engin önnur dæmi eru um slíkt í íslensku samfélagi og kannski gerist svona aldrei aftur. Hin siglfirska verslunarsaga er risastór í sniðum á hérlendan mælikvarða og við Aðalgötuna hefur varla staðið nokkurt hús sem ekki hefur verið verslað í.
Jón Sæmundur Sigurjónsson nefnir í grein sinni “Búðarráp á Siglufirði” sem birtist m.a. í Morgunblaðinu 1996, að líklega hafi verið um 70 verslanir í bænum um miðja öldina sem leið. Það virðist í fyrstu vera ótrúlegur fjöldi en eftir að rýnt hefur verið í þessi mál og þau borin undir ýmsa þá sem stóðu á miðju sviðinu fyrir hálfri öld eða meira, verður niðurstaðan sú að þetta geti bara meira en vel verið.
Við getum lygnt aftur augunum og látið hugann reika, séð fyrir okkur önnum kafna og sloppklædda búðarmenn og konur. Ösina, troðninginn, blindfulla sjóara jafnt sem guðhræddar konur, alla fólksmergðina sem átti leið inn og út um dyr kaupmannsins. Jafnvel leyft okkur að hnýsast í skápa, hillur og afkima krambúðanna. Þar sem saga verslunar og viðskipta er bæði meiri og merkilegri en víðast gerðist, í nafla alheimsins.
Verslunin Hamborg var staðsett að Aðalgötu 1, en hún var dæmigerð krambúð og verslaði nánast með allt sem hugsast gat eins og svo margar aðrar verslanir á fyrri hluta tuttugustu aldar. Í slíkum búðum mátti oft fá jafn ólíka hluti og leirtau, tvisttau, franskt morgunkjólatau og enskt sultutau. Burís, flónel, flöjel, shirting, lasting, pudsextrakt, fitusvertu, rjóltóbak og steinoliu. Einnig aprecots, rauðgrauts og cremduft, skonrok, sago, steyttan kanel og pipar, spírituskompása, þakpappa, fernis, rúðugler og kítti, kniplinga og blunder. Allt á sama stað. Eftir daga Hamborgar var rekin ljósmyndastofa í húsnæðinu og einhvern tíma enn síðar breytti Bjarki Árnason því í trésmíðaverkstæði.
Gaman væri ef einhver lumaði á mynd að húsnæðinu sem verslunin Hamborg var í.