Skrifað í október 2015
Aðalgata 9 var (og er) á horninu sunnan Aðalgötu og ofan við Vetrarbrautina, en milli húss þeirra Öllu og Matta og Vetrarbrautarinnar er í dag lítill og snyrtilegur grasbali. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið því þar stóð áður verslunarhús eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Verslun var á götuhæðinni en uppi í risinu mun hafa verið skrifstofa og einhver geymsla. Í næsta húsi fyrir neðan er hús Iðju sem er númer 7, svo að þetta hlýtur að hafa verið 9a eða 9b. Anna Lára sagði mér að í sínu ungdæmi þegar hún var að alast upp í Hertervigsbakaríinu á Vetrarbrautinni, hafi margir verslað þarna og með ólíkan varning. Sumir stóðu stutt við, en hún myndi þó einna best eftir sælgætisbúð sem þarna var um tíma. Síðasti kaupmaðurinn var frændi minn Gunnar Bíldal (1902-1980), en hann var hálfbróðir Sóleyjar ömmu minnar á Hverfisgötu 11. Verslunin hét Heba og hann seldi þar aðallega reiðhjól og varahluti í þau. Hann var líka með reiðhjólaverkstæði, en húsið brann í apríl árið 1946. Skömmu fyrir brunann á verslun Gunnars hafði Egill Melsted opnað sína reiðhjólabúð aðeins fáum metrum ofar í götunni, og fóru tvennar sögur af kærleikum þeirra kaupmanna hvað sem satt var í því.
Nokkra unga reiðhjólaeigendur sem höfðu alla jafna verslað við Gunnar, vantaði eitt sinn eitthvert smáræði og komu við hjá honum, en hann átti því miður ekki til í augnablikinu það sem þá vanhagaði um. Það varð því að fara yfir til Egils sem tók þeim heldur fálega og sagði að hann ætti nóg til af öllu fyrir sína kúnna. Þeir skyldu bara fara á sama stað og þeir komu frá, og vera þar þangað til úr rættist. En eftir svolítið spjall og skjall munu þó samningar hafa náðst við Egil.