Leó Ólason Siglfirðingar, fyrr og nú - Sögur og myndir.
HALLÓ AKUREYRI, HÉR KOMUM VIÐ (aftan í dráttarvél).
Sumrin 1972 og 1973 spilaði hljómsveitin Frum aðra hverja helgi í Allanum á Akureyri. Þetta var góður tími og yfirleitt góð mæting, því þetta var eini staðurinn á Akureyri þar sem aldurstakmarkið var sextán ár. Fyrra sumarið var ég ekki nema sextán ára sjálfur en þrátt fyrir það keypti ég Volkswagen rúgbrauð af Ingimar Láka sem notast skyldi sem hljómsveitarbíll.
En þar sem Guðni Sveins var fæddur í janúar og hafði þá þegar fengið slæman snert af bíladellu og var að sjálfsögðu kominn með bílpróf, þá var hann meira en til í að vera hljómsveitarrúgbrauðsbílstjóri þar til eigandinn væri kominn með aldur og ökuréttindi (og jafnvel lengur).
Það var snemma sumars 1972 á föstudegi að við hlóðum hljóðfærunum í bílinn síðla dags og lögðum af stað til Akureyrar. Lágheiðin var enn lokuð vegna snjóa og bleytu, svo við urðum að fara Öxnadalsheiðina.
Allt gekk vel og okkur miðaði vel áfram þangað til í Hörgárdalnum þar sem bíllinn hægði ferðina smátt og smátt og stöðvaðist að lokum úti í kanti. “Pissustopp,” sagði einhver og allir þustu út nema Guðni. Hann sat hljóður undir stýri um stund og fór svo að reyna að starta en bíllinn tók alls ekki við sér.
“Fyndinn,” sagði ég, fullviss um að hann væri eitthvað að stríða okkur. Það tók hljómsveitarmeðlimi smástund að átta sig á að hér var bláköld alvara á ferð. Bíllinn fór alls ekki í gang, sama hvað við gerðum og jafnvel þótt við opnuðum vélarhlífina að aftan og horfðum á vélbúnaðinn með ógnandi augnaráði.
En við höfðum ekki staldrað lengi við þegar bjargvætt okkar bar að, akandi á rauðum Zetor. Við veifuðum honum og hann stoppaði. “Geturðu nokkuð dregið okkur til Akureyrar?” Við útskýrðum fyrir ökumanni Zetorsins tilgang ferðar okkar og hversu mikilvægt það væri að við kæmumst tímanlega á áfangastað. Þetta var auðsótt mál og við bundum bílinn aftan í traktorinn og svo var ekið af stað á 27 km. hraða.
Við fórum upp brekkur og niður brekkur og reyndar alla leiðina á 27 km. hraða. Okkur fannst ferðin ganga seint, en seinna komst ég að því þegar ég keyrði alveg eins Zetor frá Tjörnum í Sléttuhlíð til Siglufjarðar að þegar allt var í botni komst ég í 27 km. hraða á klukkustund og akkúrat og nákvæmlega ekkert umfram það hvað sem ég reyndi.
Klukkan var örlítið byrjuð að ganga eitt þegar við renndum í hlaðið fyrir framan Allann og hópur væntanlegra ballgesta tók á móti okkur með fagnaðarlátum sem hreinlega aldrei ætlaði að linna. “Frá hvaða bæ eruð þið?” Þessari athugasemd féll í kramið. “Spilið þið sveitatónlist?” Gleðin við dyrnar á Allanum jókst enn til muna. Þetta voru annars fínir krakkar sem hjálpuðu okkur með hljóðfærin inn á pall, fóru síðan út aftur og keyptu sig inn á ballið því nú var það var óhætt þar sem hljómsveitin var mætt. Ég spurði ökumann Zetorsins hvað ég skuldaði honum fyrir “dráttinn” en hann leit á úrið og svo á mig. “Tólfhundruðog fimmtíu slétt” sagði hann eins og leigubílstjóri sem les á mælinn. Ég velti fyrir mér hvort það væri algengt að hann bjargaði aðkomuhljómsveitum síðasta spölinn til Akureyrar og notaðist við sérstakan hljómsveitabílataxta. Ég greiddi uppsett gjald og þakkaði honum fyrir vel og lengi, en horfði svo á eftir honum svolitla stund leggja í hann til baka á nákvæmlega 27 km. hraða. Þegar Zetorinn var horfinn fyrir næsta horn birtist Dabbi vinur okkar. En hann Dabbi hafði verið á Siglufirði fyrir nokkru síðan að vinna við að fleyta Rauðkutönkunum fram af hafnarbryggjunni ásamt bræðrum sínum og föður og hékk þá oft ásamt fleiri krökkum á æfingum hjá okkur í Sjallanum. Ég sagði honum af vandræðum okkar og hann opnaði bílstjórahurðina renndi hendinni bak við svissinn, fann þar lausan vír og stakk honum í samband. “Startaðu nú” sagði hann og hló mikið. Ég settist upp í og startaði og viti menn, bíllinn hreinlega datt í gang og malaði blíðlega eins og vel vaninn heimilisköttur sem fær rjóma í skálina sína.
Dabbi fékk auðvitað frítt inn í þetta skiptið..