Þekking, leikni og hæfni eru lykilhugtök í aðalnámskrá grunnskóla. Hugtakið hæfni felur í sér þekkingu og leikni og er samofið siðferðilegum viðhorfum nemenda. Nám í grunnskóla þarf að taka til allra þessara þátta þar sem tekið er mið af aldri og þroska nemenda. Í eftirfarandi skýringarmynd er að finna nánari skilgreiningu á hugtökunum þekking, leikni og hæfni og gerð grein fyrir tengslum þeirra innbyrðis (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 39).
Grunnþættirnir menntunar eru settir fram og skilgreindir í gildandi aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir byggja á lögum um áðurnefnd skólastig sem og öðrum lögum þar sem finna má greinar um menntun og fræðslu í skólakerfinu.
Þættirnir hafa þann tilgang að börn og ungmenni nái þeirri færni að byggja sig upp bæði líkamlega og andlega, að verða gildir samfélagsþegar og kunni að vinna einir og með öðrum. Þá eiga þeir að snúast um framtíðarsýn og um vilja og getu til að taka virkan þátt í samfélaginu, þróa það og breyta því. Þeir eiga að fléttast inn í aðalnámskrár á öllum skólastigum og inntak náms, efnisval, kennsla og leikur á að mótast af þeim og þannig verða þeir sýnilegir í skólastarfinu. Starfshættir og vinnubrögð nemenda og kennara eiga að vera undir áhrifum grunnþáttanna og stuðla að sjálfstæði, frumkvæði og þróun skólastarfs. Aðalnámskrár áðurnefndra skólastiga mynda heildstæða námskrárgerð í íslensku skólakerfi og grunnþættir menntunar eru grundvöllur þeirra.
Grunnþættirnir eru settir fram sem sex þættir sem tengjast innbyrðis og eru háðir hver öðrum. Þeir eiga að skerpa á markmiðum skólakerfisins og áherslum skólans. Þeir hafa hver og einn sitt sérkenni og með því að skipuleggja skólastarfið út frá þeim má skapa betri og meiri heildarsýn um skólastarfið.
Þeir ganga út frá þeirri grunnhugmynd að án fjölbreytts læsis sé ekki hægt að skapa virkt lýðræði og það þrífst eingöngu ef stuðlað er að jafnrétti hverskonar. Þá verði mannréttindi ekki tryggð nema velferð og heilbrigði einstaklingsins sé sinnt og að barátta sé gegn mismunun af hverju tagi sem hún birtist. Sjálfbærni er virðing fyrir umhverfinu, ábyrgð, heilbrigði, lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti nú sem og á komandi tímum og því tengjast mannréttindi og sjálfbærni í gegnum jafnrétti þjóðfélagshópa. Það er ábyrgðarverk að mennta ungmenni þannig að þau skilji nútímasamfélag sem og samfélag fortíðar. Ungmenni þurfa að öðlast styrk og getu til að verða virkir þegnar og þora að koma fram og taka þátt í samfélagsmótun og framtíðarsýn sinna samfélaga. Sköpun er mikilvægur þáttur í öllu námi og starfi og nær til allra annarra grunnþátta, því þeir hafa grunn í gagnrýninni hugsun, ígrundun, vísindalegum viðhorfum og vinnubrögðum og lýðræðislegu gildismati.
Þessi grunnþáttur byggist á andlegri, félagslegri og líkamlegri vellíðan einstaklinga og ræðst af samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis og getur oft á tíðum verið dálítið flókið. Heilsueflandi umhverfi í skólum og jákvæður skólabragur styður undir þroska og heilbrigði. Heilsutengdar forvarnir og heilbrigðir lífshættir þurfa að fá sinn sess í skólastarfinu til að efla líkamlega, andlega og félagslega velferð til framtíðar. Skólinn þarf að taka mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt og allir eiga að fá tækifæri til að njóta sinna styrkleika til að byggja upp jákvæða sjálfsmynd.
Markmið með jafnréttismenntun er að skapa jöfn tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, að rækta sína hæfileika og geta lifað ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi sem sýnir skilning, er friðelskandi, umburðarlynt og víðsýnt. Jafnrétti nær til margra þátta sem hafa áhrif á skólastarfið sem og samfélagið allt, s.s. aldur, kyn og lífsskoðanir. Jöfn staða kynja birtist í lögum um jafnrétti og áréttar að nemendur á öllum skólastigum skuli fá fræðslu um jafnréttismál. Nám um menningu, þjóðerni, tungumál, trúarbrögð og lífsskoðanir þarf einnig að eiga sér stað.
Frumforsendur lýðræðis eru samábyrgð, meðvitund og virkni borgara. Skólar þurfa að taka mið af framtíðarþátttöku barna og ungmenna í lýðræðissamfélagi og tryggja að starfshættir sínir séu með þeim hætti að virðing sé borin fyrir manngildum hvers og eins. Lýðræðislegur hugsunarháttur og lýðræðislegt gildismat eiga að vera þráður í gegnum skólastarfið og byggja á gagnrýninni hugsun og ígrundun um grunngildin sem ríkja í samfélaginu. Virkt samstarf við nærsamfélagið er einn af lykilþáttum sjálfbærni og tengist einnig lýðræðismenntun. „Börn og ungmenni læra til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði“ (Aðalnámskrá, (2013), bls. 21)
Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskrifa og umskapa heiminn með því að skapa eigin merkingu og kunna að bregðast við persónulega og á skapandi hátt við því sem þeir lesa með aðstoð þeirra miðla og tækni sem völ er á. Læsi er ekki eingöngu að kunna að umrita hugsun sína í ritað mál og skilið prentmál. Það snýst líka um að nýta fjölbreytta tæknimiðla og geta nýtt sér verkkunnáttu sína, svo sem til gerðar myndmáls. Þá hafa ný læsishugtök orðið til á síðustu árum, svo sem stafrænt læsi er snýr að tölvu- og nettækninotkun og miðlalæsi er snýr að þeirri kunnáttu að rýna í efni sem sett er fram á ýmsum miðlum sem og að nota það.
Algeng útskýring á sjálfbærni og sjálfbærri þróun er að skila umhverfinu til afkomenda í ekki verra ástandi en tekið var við því og að mæta samtímaþörfum án þess að skerða möguleika framtíðarkynslóðarinnar til þess sama.
Menntun til sjálfbærni hefur það helsta markmið að gera nemendum kleift að takast á við viðfangsefni sem snúa að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélagsins. Menntun til sjálfbærni á stuðla að sköpun samábyrgs samfélags þar sem hver og einn einstaklingur eru virkur þátttakandi og meðvitaður um alla þá þætti sem felast í því. Álitamál í samfélaginu og ágreiningsefni eru ágætiskennsluefni sem nemendur þurfa að takast á við með lýðræðislegum vinnubrögðum.
Það að búa til efni og miðla því, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en áður hefur verið gert er að skapa. Sköpun er líka að uppgötva, njóta, auka forvitni og áhuga, virkjun ímyndunaraflsins og að skoða hugsanlegar lausnir út frá nýjungum en einnig að sjá hið hagnýta. Að fara út fyrir ramma þess þekkta og stundum viðurkennda er að skapa. Gagnrýnin hugsun er lykilþáttur í sköpun, líkt og sköpunarkraftur og innsæi. Sköpun er mikilvæg í samhengi við þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og að móta sér framtíðarsýn.
Heimild
Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011, (bls. 16-24). Reykjavík: Höfundur.