Í aðalnámskrá grunnskóla er almenn menntum skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og þörfum einstaklinganna og stuðlar að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir í daglegu lífi. Nemandi þarf að efla skilning sinn á eiginleikum sínum og hæfileikum og öðlast hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu, síbreytilegu samfélagi. Fjölbreytt og skapandi nám á meginsviðum menningar, umhverfis og samfélags með áherslu á upplýsingatækni á sem flestum sviðum er þáttur í því að undirbúa nemendur fyrir framtíðina sem er enn óskrifuð (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 15).
Vitneskja nemenda þarf að vera þannig að þeir þurfa að vita ýmislegt og líka hvað þeir þurfa að vita til að geta beitt þekkingu sinni og leikni til að hafa áhrif á sitt umhverfi til að bæta það. Nemandi þarf að kunna að afla sér þekkingar, leikni og hæfni, geta greint hana og miðlað henni. Hæfni er því ekki bara þekking og leikni heldur einnig viðhorf, siðferðisstyrkur, sköpunarmáttur, tilfinningar, félagsfærni og frumkvæði (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 25-26).
Nemendasjálfstæði er það að nemandi geti tekið þátt í ákvörðunum er snúa að námi hans, hvað hann læri og hvernig, hvernig mati er háttað á vinnu og verkefnum og hann verður sjálfstæðari og ábyrgari varðandi sína vinnu. Virk þátttaka í öllum þáttum náms og ígrundun gerir nemandann nánari námi sínu. (Björk Pálmadóttir, 2018).
Nemendur þurfa að vera velmeðvitaðir um að námið sé við þeirra hæfi. Það á að vera mátulega krefjandi og það þarf að vera áhugavert til að skila árangri. Of auðveld viðfangsefni eru þannig að nemendur þurfa lítið sem ekkert að leggja á sig og þá eru þeir líklegast ekki að læra eða auka hæfni sína. Ef nemendur þurfa að leggja sig fram, gera mistök og læra af þeim og þeim finnst námið áhugaverk, þá eru þeir að læra eitthvað nýtt og auka hæfni sína. Ef námið veldur óþægindum hjá nemandanum og er erfitt og leiðinlegt, að þá er lítið eða ekkert nám að fara fram (Leiðsagnarnám, (e.d)
Námsmenning er hugtak sem kemur frá Lorrine Shepard og telur hún að skólasýn á okkar öld byggist á líkani þriggja meginhugmynda um skólastarf. Það sé námskenningin um hugsmíðahyggju og vitsmunalega hæfni háða sjálfsvitund og hugarfari, það sé að sýn á námskrá byggi á námi án aðgreiningar og það sé leiðsagnarmat (Rúnar Sigþórsson, 2012, bls. 89). Í rannsókn Rúnars Sigþórssonar á námsmenningu á unglingastigi og kynnt var í Glæðum, kom fram að kennsluhættir á unglingastigi voru frekar einsleitir, nemendur unnu verkefni í kennslubókum, glósuðu, hlustuðu á innlögn frá kennara og fengust ansi mikið við staðreyndavinnu sem gerði námið lítið spennandi. Þá voru hjálpargögn líkt og hljóðbækur lítið notaðar sem gerði nemendum með námsörðugleika erfiðara fyrir. Mikil áhersla var á lokamat og mjög lítil á leiðsagnarmat og hefðbundin skrifleg próf virtust vera mælikvarðinn árangur og kennurum fannst kennslan sín höfða lítið til nemendanna. Nemendur virtust vera að læra til að ná lágmarksárangri á prófum en ekki af því þeir hefðu áhuga á því (Rúnar Sigþórsson, 2012, bls. 92-96).
Námshæfni er sögð undirstöðuþáttur í skólastarfi í aðalnámskrá grunnskóla og hluti af nemendamiðaðri námskrá sem byggir á forvitni og áhugahvöt nemenda. Leggja þurfi áherslu á að nemendur kunni að leita sér nýrrar þekkingar og leikni og kunni að beita henni, að þeir séu ábyrgir og skapandi og kunni að rökstyðja og ígrunda. Námshæfni er sögð byggja á sjálfsskilningi og áhuga og snúist um að geta tekið ákvarðanir byggðar á þekkingu sem eigi sér stoð í styrkleika og veikleika einstaklingsins. Námshæfni byggist líka á forvitni og áhugahvöt og trú á eigin getu og hún kalli á örvandi námsumhverfi sem þjálfi nemendur í að segja sínar skoðanir og útskýra vinnu sína á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt. Þessi sýn samrýmist hugsmíðahyggju, þ.e. hvernig nám á sér stað. Mikilvægt er að horfa til þess að nemendur sé skapandi og virkir (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 25-26). Vinnubrögð á borð við vinnubókarvinnu, fyrirlestra kennara og glósur eru ekki til þess fallin að auka áhuga nemenda á náminu, efla ekki rökhugsun og þjálfa nemendur ekki við lausnaleit og má kalla sem yfirborðsnám. Nám sem hins vegar er skipulagt þannig að nemendur kafa djúpt ofan í efnið, beita rökhugsun og gagnrýninni hugsun, sköpun og sýna virkan áhuga er það sem kalla má djúpnám og er það betur til þess fallið að nemendur efli námshæfni sína (Rúnar Sigþórsson, 2012, bls. 95).
Í rannsókn á kennslu og námsmati í skólum í Queensland í Ástralíu koma fyrir hugtök um ákveðinn skólabrag sem stuðlar að góðum árangri nemenda og eykur hæfni þeirra sem virkir þjóðfélagsþegn. Rúnar Sigþórsson hefur þýtt þessi hugtök sem menntandi kennslu og menntandi námsmat og byggir á hugmyndafræði John Dewey um reynsluna sem grundvöll menntunar. Í áðurnefndri rannsókn eru tiltekin þau atriði sem hafa þarf í huga til að nemendur taki virkan þátt í námi sem veitir þeim námsreynslu sem hægt er að læra af. Það eru atriði eins og að auka þátttöku allra nemenda og sjálfstjórn þeirra í námi og ákvarðanatöku um nám, gagnkvæm virðing og styðjandi samskipti milli nemenda og kennara, þátttaka allra nemenda og einstaklingsmiðun verkefna með uppbyggilegri hvatningu og örvun og samþykki fyrir fjölbreytileika nemendahópa. Þessi atriði má segja að tilheyri lærdómssamfélagi sem skólinn og nærsamfélagið á að mynda. (Rúnar Sigþórsson, 2013, bls. 195-197). Til þess að nemendur taki ábyrgð á eigin námi þarf að kenna þeim að setja sér markmið í námi og útbúa áætlun um framvindu. Þá þarf að kenna þeim að meta vinnu sína skipulega og gera áætlanir út frá leiðsögn kennara sem þarf að fara mjög reglulega fram. Stuðningur og hvatning kennara eru mikilvæg og til þess fallin að fá nemendur til að vinna að náminu vegna eigin áhuga en ekki utanaðkomandi umbunar. Nemendur þurfa að hafa val um námverkefni, fá að skipuleggja námið með kennurum og skipuleggja sína vinnu út frá því hvaða aðferðir og aðstæður henta þeim (Rúnar Sigþórsson, (munnleg heimild, febrúar 2020)).
Þátttöku barna og ungmenna í skólastarfi setti Fletcher fram sem þátttökustiga árið 2005 og út frá honum má meta rödd nemenda í námi og skólastarfi. Stiginn hefur átta þrep og frá þrepi 4 – 8 eru nemendur þátttakendur en á neðstu þrepunum er ekkert hlustað á rödd nemenda.
8. þrep: Nemendur og kennarar taka sameiginlegar ákvarðanir, nemendur valdeflast og eru þátttakendur í öllum breytingum og þróunarstarfi skólans.
7. þrep: Nemendur taka ákvarðanir um það sem skiptir þá sjálfa máli, þeir eiga frumkvæði að verkefnum út frá þeirra áhugasviði og kennarar eru þeim til stuðnings.
6. þrep: Kennarastýrðar ákvarðanir teknar með nemendum, þ.e. kennarar ákveða verkefnin en útfærsla og framkvæmd er í samráði við nemendur.
5. þrep: Kennarastýrðar ákvarðanir byggðar á skoðunum nemenda, þ.e. nemendur fá að vera ráðgefandi varðandi verkefni sem eru skipulögð af kennurum og fá að vita hvernig þeirra tillögur verða nýttar.
4. þrep: Kennarastýrðar ákvarðanir þar sem nemendur hafa umsagnarrétt er þannig að það sem nemendur gera er stýrt af kennurum, þeir útdeila verkefnum og hlutverkum og segja nemendum hvernig þeir eigi að taka þátt og af hverju.
3. þrep: Þátttaka nemenda er til málamynda, þ.e. þeir virðast hafa rödd en hafa lítið sem ekkert um um það að segja hvað þeir gera og hvernig.
2. þrep: Skreyting, sem útskýrist sem að kennarar nota nemendur óbeint til að styðja mál sitt og taka allar ákvarðanir.
1. þrep: Fölsuð þátttaka þar sem kennarar beita nemendum fyrir sig til að styðja við efni og ákvarðanir með því að láta líta út eins og þeir séu þátttakendur.
Út frá þessum stiga er hægt að meta hvernig nemendur fá að taka þátt í skólastarfi og hafa áhrif á sitt nám og sinn skóla (Þóra Björk Jónsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2013, bls. 269-270).
Mat í starfi skóla og á námi barna þarf að eiga sér stað með reglubundnum hætti. Námsmat á að veita upplýsingar um árangur nemenda við að uppfylla markmiðnáms og hvernig þeim gengur að ná hæfniviðmiðum aðalnámskrár og örva þá til frekari afreka. Þá á það að nýtast kennurum til að stuðla að frekari framförum nemenda og það á að vera foreldrum til upplýsinga um námsgengi. Skólar eiga að gera grein fyrir viðmiðum námsmats og umsagna í sinni skólanámskrá, þannig að ljóst sé öllum hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn ætlar að meta hvernig þær eru uppfylltar. Það er lykilatriði að allir skilji niðurstöður námsmats á svipaðan hátt, til að bæta nám og kennslu. Matsaðferðir þurfa að vera fjölbreyttar, í samræmi við hæfniviðmið og eiga að endurspegla áherslur í kennslu og taka mið af þörfum nemendum.
Námsmat á að vera áreiðanlegt og óhlutdrægt, það á að vera heiðarlegt og sanngjarnt. Það þarf að meta alla þætti náms, hæfni, leikni og þekkingu út frá viðmiðum aðalnámskrár. Kennarar eiga að hjálpa nemendum að tileinka sér sjálfsmat, þannig að það verði raunhæft og þeir geti gert grein fyrir markmiðum námsins og hvernig þeim gangi að nám þeim.
(mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 27-28).
Í rannsókn á námsmati og stöðu þess í skólanámskrám í grunnskólum frá árinu 2007, kom fram að í um 60% skólanna var að finna upplýsingar um tilgang og stefnumörkun námsmats, þar sem aðallega kom fram almennt skipulag þess, umfjöllun um einkunnir og umsagnir en minna fjallað um tilgang námsmatsins. Svo virtist sem ruglings og ósamræmis gætti varðandi orðaðan tilgang námsmats á móti umfjöllun um námsmatið. Af niðurstöðum mátti sjá að þrátt fyrir yfirlýsta stefnu skóla um að beita leiðsagnarmati var það ekki gert, heldur var formlegra mati beitt, þá yfirleitt skriflegum prófum og virtist það stundum stríða gegn betri sannfæringu kennara, sem þurfa að fylgja yfirlýstri stefnu skólans. (Meyvant Þórólfsson, Ingvar Sigurgeirsson og Jóhanna Karlsdóttir, 2009).
Leiðsagnarmat er frekar tengt við námsmat heldur en nám en staðreyndin er sú að með leiðsagnarmati er áherslan mun meiri á námið en matið sjálft. Í aðalnámskrá er fjallað um fjölbreyttar námsmatsaðferðir, þar sem leiðsagnarmat á að vera það mat sem lögð er mest áhersla á, en einnig er fjallað um lokamat.
Lokamat fer fram við lok námsáfanga og líklegast er ekki ætlunin að nota niðurstöðurnar til frekari vinnu heldur fyrst og fremst til að upplýsa um niðurstöðu (Leiðsagnarnám, (e.d.)).
Í aðalnámskrá segir að lokamat í formi bókstarfa skuli fara fram við lok grunnskóla. Leiðsagnarmat er meira lýsandi fyrir námsstöðu nemenda frekar en lokamat og því er skiljanlegt að megináhersla eigi að vera á það. Við lok 10. bekkjar á að fara fram lokamat í hverri námsgrein út frá hæfniviðmiðum og er það á bókstafakvarða A-D (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 55).