Michael Schiro kynnir í bók sinni Curriculum theory (2013) ferns konar sýn á námskrá og hvernig sýnin birtist í því hvernig og hvað kennt er og hvernig nám eigi sér stað, hvernig og hvort nemendur fái að hafa áhrif á nám sitt, hvernig markmið eru sett fram og hverjum þau þjóna og hvert hlutverk nemenda og kennara er. Þessi fjórflokkun er fræðigreinasýn (e. scholar academic) sem leggur áherslu á að miðla þekkingarforða fræðigreina, samfélagsmiðuð sýn (e. social efficiency) sem leggur áherslu á að menntun þjóni þörfum samfélagsins, nemendamiðuð sýn (e. learner centered) sem leggur áherslu á þarfir nemenda og umbótamiðuð sýn (e. social reconstruction) sem leggur áherslu á samfélagslegar umbætur. Þær fela í sér mismunandi hugmyndir um fagleg markmið og kennsluhugmyndir kennara, þekkingu (hvaðan hún kemur, hvar hún verður til og til hvers notuð), hvernig nám á sér stað, hver hlutverk nemenda og kennara séu í náminu, hvernig kennarar stuðli að námi nemenda og hvernig það sé metið (Schiro,M. 2013, bls. 4-13).
Aðalnámskrá grunnskóla skiptist í almennan hluta og greinasvið. Almenni hlutinn er í senn samfélagsmiðaður, nemendamiðaður og umbótamiðaður, því lögð er áhersla á að námið nýtist nemendum til að öðlast nýja þekkingu og geti beitt henni, bæta leikni sína og hæfni. Vinnulag í skólum á að vera þannig að kennarar séu leiðbeinendur fyrir nemendur og þeir eigi að skapa aðstæður til náms. Grunnþættir menntunar, sem aðalnámskráin byggir á eru samfélagsmiðaðir, því þeir snúast um framtíðarsýn, getu og vilja nemenda til að taka þátt í samfélaginu, vilji hafa áhrif til umbóta og framfara. Jafnframt eiga þeir að stuðla að auknu jafnrétti, lýðræði og mannréttindum og að samfélagið fái vel menntað, heilbrigt fólk til vinnu. Greinasvið aðalnámskrár eru út frá fræðigreinasýn, þó þannig að inn í hana fléttast hinar þrjár og saman mynda þær eina heild eða nokkurs konar hringrás (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013).
Með nemendamiðaðri sýn er átt við að áhersla og skipulag náms gengur út á með þarfir nemandans í fyrirrúmi. Skólinn býr þannig til umhverfi sem hentar öllum nemendum og aðlagar sig að þeim. Skólinn er í senn ábyrgur gagnvart nemendum og samfélaginu sem tekur við þeim að skólagöngu þeirra lokinni og hann fylgir ákveðinni námskrá sem er hin opinbera lína. Kennurum er þó gefið frelsi til að gera hana að sinni, þannig að hún verði þessi virka námskrá sem birtist í skólastofunni og utan hennar. Sú námskrá er lifandi og í stöðugri þróun. Fagleg sýn kennara snýst um að aðstoða nemandann til að ná hámarksárangri í námi sínu, leiðbeina honum og læra með honum. Kennarinn er ekki þessi hefðbundni fræðari, heldur leiðbeinir hann, hlustar og lærir með, hjálpar að leita upplýsinga og vinna úr þeim og kennslan snýst ekki um að innbyrða sem mest af þekkingu, heldur að vinna með upplýsingar og læra af þeim og geta nýtt þær sér til hagsbóta. Kennarar þurfa að endurskipuleggja sína kennsluhætti og taka upp nýja siði, svo sem að venja sig af fyrirlestrum fyrir framan bekk. Kennarar þurfa að hafa aðgang að björgum fyrir þá sem þess þurfa og njóta stuðnings sinna yfirmanna og samstarfsfélaga. Námsefni er ekki hefðbundið, heldur nýtir nemandinn þau tæki og tól sem hann hefur aðgang að til að afla sér upplýsinga en kennarinn tryggir að aðgangur að námsefni sé til staðar. Fjölbreytni í verkefnavali og efniviði sem reynir á þroska, samskiptahæfni, sjálfstæði og námshæfni nemenda er mikilvæg og óhefðbundnar leiðir í námi eru vel séðar. Nám á sér stað innan skólastofunnar og utan hennar í vettvangsferðum. Námið er aðlagað að þroska og þörfum hvers og eins og því er einstaklingsmiðun mun auðveldari þegar þessi sýn er á námið, heldur en t.d. fræðigreinasýnin sem býður ansi oft upp á einsleita kennslu og námsmat. Nemendur byggja ofan á fyrri reynslu og litið er til styrkleika hvers og eins. Fjölbreytileiki í skólastofu getur verið töluverður en allir fá að vinna á sínum forsendum að verkefnum við hæfi út frá sínu áhugasviði. Nemendamiðuð sýn býður upp á fjölbreyttar kennsluaðferðir og nemendur eru hafðir með í ráðum varðandi verkefnaval, úrvinnslu og skil. Með því hafa nemendur ákveðið eignarhald á sínu námi og líklegra er að áhugi kvikni á frekari námi og vinnu í tengslum við viðfangsefnin. Það verður til ákveðin innri hvöt hjá nemendum til að læra og takmarkið er ekki að læra sem mest utanbókar fyrir lokapróf. Litið er á nemendur sem virka gerendur eða þátttakendur í náminu og hugsað er út frá því sem þeir geta og hvernig þeir geta nýtt sér það til að byggja ofan á enn meiri þekkingu og færni. Námsmat er fjölbreytt og fyrir nemendur og þeir þurfa að fá að taka þátt í því og þar kemur leiðsagnarmat sterkt inn. Hæfniviðmið og markmið liggja fyrir í upphafi og nemendum er ljóst hvernig á að meta og hvenær. Forðast þarf að bera nemendur saman, því allir eru að vinna á sínum forsendum. Þekkingu þarf að prófa og það er hægt með matslistum eða prófum og lokamat byggir á öllu námsmati sem hefur farið fram meðan á vinnu nemenda stóð. Vel ígrundaðar umsagnir segja mun meira heldur en ein tala. (Schiro,M. 2013, bls. 104-149).
Með hugtakinu virkri námskrá er átt við það sem gerist inn í skólastofunni og byggist á því hvernig kennarar túlka fyrirmæli og opinbera stefnu námskrár þegar þeir skipuleggja kennslu og nám. Það sem einkennir virka námskrá er að hún hefur áætlun sem byggist á hæfniviðmiðum og lykilhæfni og hægt er að meta viðmiðin. Hún samræmist stefnu skólans og byggir á hæfni kennarans og áhuga hans á námsefninu og starfinu sjálfu. Áhrifa af umhverfinu gætir á hana, svo sem sýn skólastjóra, fjármagn, kennsluaðstaða og samstarfsfólk. Þá getur tímaskortur kennara haft þannig áhrif að ekki vinnist tími til að útfæra kennslu eins og helst væri kosið. Eins geta kennarar fallið í þá gryfju að láta námsefnið stýra sinni kennslu frekar en hæfniviðmiðin og það getur verið erfitt að útfæra virka og lifandi námskrá bundinn í báða skó. Út frá virku námskránni mótast áunna námskrá nemenda en hún er námsreynsla nemenda og það hvað þeir fá út úr námi sínu. Ekki fara samt ritaðar námskrár og þær virku alltaf saman og geta verið ýmsar ástæður fyrir því, meðal annars hópastærð í kennslustofum, stefna skólans og sýn kennara fara ekki saman og vandræði með agastjórnun og tímastjórnun ((Nemendur NÞN (munnleg heimild, 2020); Rúnar Sigþórsson, 2012, bls. 89).