Verkefnin sem hér eru sett fram er ekki skylda að vinna. Hugmyndir að þeim eru fengnar héðan og þaðan og aðlagaðar að sögunni. Ef nemandi nær að klára skylduverkefnin getur hann valið verkefni hér og unnið. Flest þeirra eru sett fram þannig að nemandi hefur ákveðið val um skilaform. Þótt verkefnið sé sett upp sem ritunarverkefni er ekkert sem segir að skilaformið þurfi að vera hefðbundið ritunarverkefni. Það er um að gera að virkja ímyndunaraflið varðandi skilaform. Ef nemandi hefur áhuga á einhverju öðru verkefni en hér er útlistað, er um að gera að ræða það við kennarann og fá leyfi til að framkvæma það. Ekkert er ómögulegt !
Þetta er einstaklingsverkefni.
Þegar þú sást þá framliðnu! Semdu sögu eða leikþátt í hrollvekjustíl og hafðu í huga frásögnina af því þegar Guðrún Ósvífursdóttir sá sjódauðu mennina eins og lýst er í 33. kafla bókarinnar.
Þetta er einstaklingsverkefni og skilaform er frjálst.
Hugsaðu þér að Þorkell Eyjólfsson hafi sloppið lifandi þegar að skipið hans fórst á Breiðafirði eins og lýst er í 33. kafla.
Hvernig hefði hann getað sloppið (hékk á planka, synti á sel, rak upp á sker,....)
Búðu til lýsingu á því og lýstu heimkomu hans til Guðrúnar.
Þetta er einstaklingsverkefni og á að skila sem ritun (eða munnlega).
a) Hugsaðu þér ef Guðrún hefði ekki gifst Bolla heldur beðið eftir Kjartani. Hvernig hefði sagan orðið þá? Rökstyddu niðurstöðuna.
b) Hugsaðu þér að Kjartan hefði orðið eftir í Noregi og gifst Ingibjörgu konungssystur. Hvernig hefði sagan þá orðið. Rökstyddu niðurstöðuna.
c) Veldu þér eitthvert atvik úr sögunni, veltu upp öðrum mögulegum afleiðingum þess og rökstyddu niðurstöðuna.
Þetta er hópverkefni og hópastærð fer eftir bekkjarstærð en æskilegt að ekki séu færri en 3 í hóp.
Búa á til myndband út frá einu viðfangsefni úr sögunni, vinna þarf í iMovie og huga vel að frágangi myndbandsins, s.s. hljóði og texta.
Dæmi um viðfangsefni:
-Höskuldur Dala-Kollsson og hans kvennamál
-Ólafur pái (ævi og störf)
-draumar Guðrúnar, ráðning og hvernig þeir rættust
-Kjartan og Bolli í Noregi
-Kvennamál þeirra Kjartans og Bolla
-Heimboð milli Lauga og Hjarðarholts (gripahvörf og samskiptavandræði)
-Fall Kjartans
-Ævi Guðrúnar
-viðfangsefni að eigin vali (bera undir kennara)
Þetta er einstaklingsverkefni en ef vilji er til er hægt að hafa þetta paraverkefni, í samráði við kennara.
Hér átt þú að búa til lag og texta. Lagið vinnur þú í GarageBand og syngur/rappar/talar textann þar inn. Textanum skilar þú í skjali (doc/Pages/notes) og laginu sem hljóðskrá. Hugaðu að uppbyggingu lagsins, takti, endurtekningum og svo textagerðinni þannig að textinn sé um eitthvað ákveðið efni.
Þetta er einstaklingsverkefni og skilaform er frjálst.
Í 8. kafla er sagt frá sverðinu Fótbít sem hefur yfirnáttúrulega hæfileika. Berðu saman Fótbít við önnur yfirnáttúruleg „sverð“ í bókmenntasögunni og/eða kvikmyndasögunni.
-Hvað einkennir hvert sverð?
-Hvernig eru þau lík og hvað er ólíkt með þeim?
Settu fram þína eigin útgáfu af sverðinu Fótbít.
Dæmi: Stafur Gandálfs í Lord of the rings, He-man sverðið, „Excalibur“ sverð, Töfrasprota Harry Potters, sverð í mismunandi tölvuleikjum o.s.frv...
Þetta er hópverkefni og best er að 3 séu í hóp.
Það á að semja handrit að útvarpsþætti / hlaðvarpi t.d. í anda morgunútvarps og taka upp þátt sem er 10-15 mínútur að lengd.
Skila á handriti og hljóðupptöku og gott er að nota forrit eins og GarageBand eða Anchor fyrir þetta verkefni.
Í þættinum þarf að koma fram inngangur þar sem hlustendur eru boðnir velkomnir, fara yfir það framundan er í þættinum, kynna sig og kynna inn gest/gesti. Fjalla um eitthvað ákveðið efni tengt Laxdælu og gesturinn tekur þátt í umræðum (semja spurningar og svör). Ljúka svo þættinum með t.d. tónlist. Þetta er mun formlegri þáttur en hlaðvarpsþáttur.
Þetta er hópverkefni og best að 3 séu í hóp.
Það á að búa til hlaðvarpsþátt, þar sem eru t.d 1 stjórnandi og 2 viðmælendur eða allir stjórna og spjalla jafnt. Þið eruð sögupersónur úr Laxdælu og eruð að ræða um ákveðin atvik úr sögunni. Hugið vel að handritsgerð áður en tekið er upp, en passið ykkur að lesa ekki allt beint upp af blaði heldur hafa spjallið frjálst og óhindrað. Skila á handriti og hljóðupptöku og æskileg tímalengd er 10-15 mínútur. Gott er að nota forrit eins og GarageBand eða Anchor fyrir þetta verkefni.
Þetta verkefni er myndbandsverkefni og er hópverkefni með 2-4 í hóp.
Eins og þið vitið eru Íslendingasögurnar ekki skrifaðar fyrr en töluvert eftir að þær gerast (u.þ.b. 1200-1400) og þangað til voru sögurnar geymdar í munnmælum. Til þess að leggja þær betur á minnið og halda lesendum spenntum nota höfundar ýmis ráð. Eitt þeirra er að flétta inn í sögurnar vísbendingar um það sem koma skal. Oft eru það draumar sem einhver er fenginn til þess að ráða, stundum eru það dagdraumar, veðurfar eða annað sem felur í sér forspá.
Rýnið í drauma í Laxdæla sögu og öðrum Íslendingasögum (skoðið t.d. Gunnlaugs sögu, Brennu-Njáls sögu o.fl.).
-Hvernig eru þessir draumar notaðir í Íslendingasögunum sem þú hefur lesið?
-Eru þeir vísbending um það sem koma skal í sögunni?
-Nefndu dæmi úr fleiri en einni sögu.
Skil á verkefninu skulu fara fram í formi innslags í þætti á borð við Landann. Lengd innslags u.þ.b. 4-10 mínútur. Notaðu forrit og efni eins og iMovie, islendingasogur.is, Brennu-Njáls saga, Gunnlaugs saga o.fl. til að vinna verkefnið.
Þetta er hópverkefni og gott er að 3-5 séu í hóp. Lengd myndbands minnst 3 mínútur.
Veljið ykkur saman atriði úr Laxdæla sögu sem þið viljið kvikmynda. Munið að hafa fjölbreytta myndatöku, veljið búninga við hæfi og notið fagmannleg vinnubrögð. Best er að nota forrit eins og IMovie fyrir upptöku og vinnslu.
Mikilvægt: Við gerð handritsins þurfið þið að vitna beint í samtöl úr bókinni.
Þetta er einstaklingsverkefni þar sem þú lest um aðför Kjartans og hans manna að Laugum í Sælingsdal. Hvers vegna fór hann þessa leið til þess að svívirða Laugamenn?
Teiknaðu mynd, málaðu málverk, hannaðu líkan eða klippimynd um atburðina sem gerðust á Laugum og stendur þeim er í því lentu ávallt til háðungar. Best er að gera skyssur fyrst, áður en farið er að vinna verkefnið til fullnustu.
Láttu kennara vita að þú þurfir á striga/efni að halda í tíma, svo hægt sé að útvega þér slíkt - en vertu þá viss um að vera búin/nn að gera skyssu að verkinu þínu.
Þetta er einstaklingsverkefni þar sem þú átt að búa til hugarkort þar sem Guðrún Ósvífursdóttir er aðalatriðið.
Settu inn á kortið allt sem komið hefur fram um Guðrúnu í sögunni. Notaðu forrit eins og t.d. MindMeister eða annað forrit fyrir hugarkortagerð sem þér finnst gott að vinna með. Skilaðu kortinu inn sem pdf-skjali eða .jpeg mynd.
Þetta er einstaklingsverkefni þar sem þú átt að fara vel yfir fleyg orð, orðtök og málshætti sem finna má í Laxdæla sögu og settu fram á myndrænan hátt (teikningar) á veggspjald með útskýringum. Hægt er að vinna þetta bæði á pappír eða í tölvu.
Mundu að útskýra hvað átt er við með orðtökunum og segðu frá því við hvaða tilefni þau eru notuð. Notaðu t.d. vefinn tilvitnun.is, handbækur á skólasafni og snara.is
Búðu til flettispjöld/rafbók þar sem fram koma eftirfarandi persónur úr sögunni: Ketill flatnefur, Unnur djúpúðga, Höskuldur Dala-Kollsson, Melkorka, Mýrkjartan, Ólafur pái, Þorgerður Egilsdóttir, Kjartan Ólafsson, Bolli Þorleiksson, Guðrún Ósvífursdóttir.
Tengdu myndir og/eða myndbönd við verkefnið og segðu frá því helsta sem þú veist um persónurnar.
Hægt er að vinna þetta verkefni í t.d. Quizlet fyrir spjöld en BookCreator fyrir bókargerð.
Þetta er einstaklingsverkefni.
Búðu til tímaás atburðanna er gerast í sögunni, allt frá því að Ketill flatnefur flýr frá Noregi þar til Guðrún Ósvífursdóttir andaðist á Helgafelli.
Útskýrðu atburðarrásina með stuttum skýringartexta við atburðina.
Hægt er að vinna þetta á marga vegu, bæði í tölvu og á blaði.
Þetta er para- eða hópverkefni og umfang þess fer eftir fjölda í hóp.
Hannið fréttamiðil (líkt og Smartland Mörtu Maríu, Séð og heyrt tímarit, vefsíða,...) frá landnámsöld.
Hverjir voru hvar og hvað var að gerast? Hér má blanda saman sögum og hugið að þeim sögum sem þið hafið lesið áður.
Skoðið vel uppsetningu á slíkum fréttamiðlum áður en þíð komist að niðurstöðu varðandi uppsetningu. Þetta má vera á hvaða formi sem er.
Þetta er einstaklings- eða hópverkefni.
Veldu eina persónu úr sögunni og farðu í gegnum það hvernig hún myndi opinbera sig og afrek sín á samfélagsmiðlum (Facebook SnapChat, Instagram..).
Ef fleiri vinna þetta saman gætu þeir verið með eina persónu á mann og farið út í samskipti og sendingar þeirra á milli. Hugið vel að framsetningu, orðbragði og myndefni.
Ef þú ert með hugmynd að verkefni sem tengist sögunni og viðfangsefnunum og þig langar að vinna skaltu ræða við kennarann þinn og athuga hvort þú getur ekki unnið að því.