Þeir fjórir aðalþættir sem verkefnið byggir á eru upplýsingatækni, ritun, lestur og lykilhæfni. Þar sem um samþættingu er að ræða reynir þó á mun fleiri þætti en þessa fjóra.
Hugtakið upplýsinga- og miðlalæsi má skilgreina sem getuna til að greina hvaða upplýsinga er þörf, leita að þeim, meta þær á gagnrýninn hátt og auka þannig þekkingu sína og nýtingu efnis með fjölbreyttum miðlum. Námssviðið upplýsinga- og tæknimennt er miðlamennt, skólasafnsfræði, tölvunotkun og upplýsinga- og samskiptatækni. Samspil grunnþátta menntunar við upplýsinga- og tæknimennt er mikilvægt í námi nemenda sem og fyrir framtíð þeirra. Megintilgangur kennslu í þessari námsgrein er að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og hjálpa þeim að öðlast almenna og góða tæknifærni og gott tæknilæsi. Tækniframfarir eru gríðarlegar og fjöldi miðla sem í boði eru fer sífellt fjölgandi og því er mikilvægt að nemendur hafi víðtæka hæfni á sviði upplýsinga- og miðlalæsi við lok grunnskóla. Upplýsingatækni hjálpar til við sveigjanleika í kennslu og námi, styður við jafnrétti í námi og ýtir undir sköpunarþátt náms (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013 bls. 224-225).
Ritun snýst um að koma skoðunum sínum á framfæri og tjá hugsanir sínar í gegnum skriffæri eða tölvu en tólið sjálft skiptir ekki máli. Aðalatriðið er að venja sig á að leyfa hugsunum sínum, hugleiðingum og tilfinningum að flæða fram, áreynslulaust og án dómhörku. Þjálfun í ritun skiptist í tvo þætti, þ.e. skoðun á textanum sjálfum og textagerð sem valin er, málsnið, stíll og mál og svo hins vegar tæknileg útfærsla, þ.e. stafsetning, uppsetning og frágangur. Stundum þarf að hugsa sig um og jafnvel að vinna ákveðna undirbúningsvinnu áður en lagt er af stað með ritunarverkefni og þá þarf að beita skapandi og greinandi hugsun, temja sér heimilda- og rannsóknarvinnubrögð og blanda þessu rétt saman í samræmi við textagerð og stíl sem valin eru (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 99).
Sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og stuðlar að alhliða þroska hans er lykilhæfni. Hún tengist öllum námssviðum á fjölbreyttan hátt. Hún á að þroska sjálfsvitund og samskiptahæfni nemenda og búa þá undir að vera virkir borgarar sem taka þátt í lýðræðissamfélagi og hún á líka að ýta undir styrkleika nemenda og hvetja þá til áframhaldandi náms og starfsþróunar. Hæfniviðmið fyrir lykilhæfni hafa verið skilgreind í aðalnámskrá og skiptast þau í fimm flokka (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 86-87)
Hugtakið læsi felur að mestu í sér tvennt en það er lestur og ritun og er því sambland þeirra þátta. Miklar kröfur eru í samfélaginu um góða lestrarfærni á fjölbreyttan hátt. Texti lesenda er fjölbreyttari en áður og birtist ekki bara á pappír, heldur einnig rafrænt og þá sambland texta, mynda, hljóða og hreyfinga. Góð lestrarfærni er traustur grunnur fyrir framtíðina og hæfnin til að afla sér upplýsinga gerir nemendur hæfari til að taka þátt sem virkir borgarar í því samfélagi sem þeir búa í. Nemendum ber að kynnast íslenska menningararfinum sem birtist í bókum og ritum og kennsla Íslendingasagna er hluti af því ferli (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 98-99).
Í upphafi er sameiginleg hugstormun með nemendum og viðfangsefnið er víkingar, landnám, Laxdæla. Ætlunin er að fá fram forþekkingu nemenda, rifja upp og ræða saman um núverandi vitneskju. Niðurstöðum verður safnað á Padlet-vegg og nemendur geta nýtt hann í verkefnavinnu ef þeir kjósa svo (kennari þarf að setja upp Padletvegg og deila með nemendum).
Mikilvægt er að skoða vel verkefnavefinn í upphafi til að gera sér grein fyrir umfangi verkefna. Hér eru fimm undirsíður tengdar mismunandi námsgreinum og þar eru verkefnin sett upp þannig að nemandi geti glöggvað sig á þeim og auðvelt sé fyrir kennara að afrita þau og setja inn á Google Classroom ef það er notað.