Klamydía

Hvað er klamydía?

Klamydía er kynsjúkdómur sem smitast með bakteríunni Chlamydia trachomatis. Bakterían tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra, þvagrásar eða í endaþarmi og getur valdið bólgum á þessum stöðum. Bakterían getur líka farið í slímhúð augna og jafnvel í háls og valdið þar sýkingu. Um 2000 Íslendingar greinast árlega með klamydíu.

Hvernig smitast klamydía?

Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð annars einstaklingsins kemst í snertingu við slímhúð hins. Bakteríurnar geta líka smitað við munnmök. Viss hætta er á því að klamydía geti borist í augu ef sýktur einstaklingur snertir kynfærin og nuddar síðan augun. Þess vegna er góður handþvottur mikilvægur, t.d. eftir að farið er á salerni.

Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?

Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt.


Hér má nálgast meiri upplýsingar.

(Embætti Landlæknis, 2019).


HIV/Alnæmi

Smitar HIV í daglegri umgengni?

HIV smitar ekki í daglegri umgengni. Algjörlega hættulaust er því að búa á sama heimili eða vera í daglegu samneyti við þann sem er smitaður af HIV/alnæmi.


Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?

Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt. Sprautufíklar skulu gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum með öðrum.


Er HIV hættulegur sjúkdómur?

HIV er alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur, þróist sjúkdómurinn án meðferðar. Engin lækning er til við honum og hún er heldur ekki í augsýn.


Hver eru einkenni HIV og hvenær koma þau í ljós?

Hluti nýsmitaðra fá einkenni fáeinum dögum eða vikum eftir smit. Helstu einkennin eru almennur slappleiki, hálssærindi, eitlastækkanir, útbrot, höfuðverkur og vöðva- og liðverkir sem ganga oftast yfir á 1–2 vikum. Eftir það eru flestir einkennalausir í mörg ár, en veiran vinnur smám saman á vörnum líkamans og skemmir ónæmiskerfið.

Hér má nálgast fleiri upplýsingar

(Embætti Landlæknis, 2014).


Flatlús

Hvað er flatlús?

Flatlús (Phthirus pubis) er sníkjudýr sem er aðallega að finna í hárunum í kringum kynfærin. Hún getur líka verið í handarkrika, bringuhárum, augnabrúnum og augnhárum. Flatlús er sjaldgæf í hársverði.

Hvernig smitar flatlús?

Flatlús smitast við nána snertingu en einnig með handklæðum, sængurfatnaði og fötum.

Hver eru einkenni af völdum flatlúsar?

Flatlús veldur oftast miklum staðbundnum kláða.

Er hægt að fá meðferð við flatlús?

Hægt er að kaupa lúsaáburð án lyfseðils í lyfjaverslunum. Hann er borinn á alla hærða staði nema hársvörðinn. Farðu nákvæmlega eftir leiðbeiningunum í pakkanum. Bólfélaginn og fjölskyldumeðlimir verða líka að fá meðferð svo smit eigi sér ekki stað aftur. Sængurver og föt skal þvo á venjulegan hátt.

(Embætti Landlæknis, 2016).

Hér má sjá yfirlit og upplýsingar um fleiri kynsjúkdóma, fræðsluefni og annað tengt efni á heimasíðu embætti Landlæknis.

Heimildir

Embætti Landlæknis. (2019). Klamidía. Sótt af https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12514/Klamydia-(C--trachomatis-og-C--venereu/LGV)

Embætti Landlæknis. (2014). HIV/Alnæmi. Sótt af https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12487/HIV/Alnaemi

Embætti Landlæknis. (2016). Flatlús. Sótt af https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12476/Flatlus