Klamydía
Hvað er klamydía?
Klamydía er kynsjúkdómur sem smitast með bakteríunni Chlamydia trachomatis. Bakterían tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra, þvagrásar eða í endaþarmi og getur valdið bólgum á þessum stöðum. Bakterían getur líka farið í slímhúð augna og jafnvel í háls og valdið þar sýkingu. Um 2000 Íslendingar greinast árlega með klamydíu.
Hvernig smitast klamydía?
Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð annars einstaklingsins kemst í snertingu við slímhúð hins. Bakteríurnar geta líka smitað við munnmök. Viss hætta er á því að klamydía geti borist í augu ef sýktur einstaklingur snertir kynfærin og nuddar síðan augun. Þess vegna er góður handþvottur mikilvægur, t.d. eftir að farið er á salerni.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt.
Hér má nálgast meiri upplýsingar.
(Embætti Landlæknis, 2019).