Aðalhlutar lifandi trés eru þrír, það eru rót, stofn og króna. Rótin gegnir því hlutverki að veita trénu festu í jarðveginum og að sjúga vatn og önnur næringarefni úr jörðinni og flytja til stofnsins sem tekur við vatninu og næringarefnunum og dreifir til laufblaða og greina. Krónan á mikinn þátt í vexti og viðhaldi trésins þar sem laufblöð hennar taka til sín kolsýru úr andrúmsloftinu, tengja hana vatni og framleiða úr þessum efnum flókin efnasambönd. Til þessarar framleiðslu þarf orku og tréð nýtir sólarljósið og framleiðir hana með hjálp blaðgrænunnar. Á þennan hátt byggir tréð upp hinn lífræna líkama sinn. Við þessi efnaskipti verður til súrefni sem tréð losar út í andrúmsloftið og annað lífríki nýtur góðs af. Efnavinnslan er uppbyggingarstarf sem krefst orku og bindur orku. Öndunin er niðurbrotsstarf eða bruni sem leysir orku sem tréð þarfnast til að geta lifað og dafnað. Laufblöðin með sinni blaðgrænu má því með sanni kalla efnasmiðjur lífsins. Stofninn ber blaðkrónuna og greinarnar og lyftir blöðunum móti birtunni. Innst í honum er mergurinn og liggur eftir honum endilöngum. Börkurinn umlykur svo stofn og greinar trésins líkt og húð. Eins og húðin er hann lagskiptur og skiptist í ytri og innri börk. Ytri börkurinn er myndaður úr dauðum korkfrumum sem einangra tréð frá umhverfinu.
Undir honum er innri börkurinn en hann er myndaður úr lifandi frumum. Undir berkinum er feitt slímkennt lag sem kallast vaxtarlag eða ungvefur. Í ungvefnum myndast barkarfrumur að utan en viðarfrumur að innan. Á vorin myndar vaxtarlagið ljósar og þunnar viðarfrumur en þegar dregur nær hausti myndar það stærri frumur og dekkri. Hringirnir sem myndast á þennan hátt sjást vel þegar tré er sagað þvert á bolinn. Vorbaugarnir eru ljósir og mjúkir en haustbaugarnir dökkir og harðir. Vorbaugarnir og haustbaugarnir mynda báðir þann við sem bætist utan á stofninn á hverju ári og saman nefnast þeir árbaugar (árhringir). Þannig er auðvelt að lesa aldur trjáa með því að telja árhringina. Tré sem vaxa í hitabeltinu eru þó með mjög óljósa árbauga vegna þess að þar er lítill sem enginn munur á sumri og vetri og munur á vor- og haustbaugum er ekki greinilegur.
Yngstu árhringirnir eru ekki eins trénaðir og þeir eldri og eru þess vegna lausir í sér og í þeim er mun meira af næringarefnum trésins. Þessi hluti trésins er kallaður rysja. Viðurinn í ystu árhringunum (rysjunni) er því viðkvæmari fyrir raka og ekki eins sterkur og aðrir hlutar viðarins, og þar af leiðandi ekki eins góður smíðaviður. Besti smíðaviðurinn er næst miðju trésins. Hann er kallaður kjarni eða kjarnviður. Frumur trésins eru flestar aflangar og liggja eins og stofninn. Sumar liggja þó þvert á stofninn, frá ungviðnum og inn að mergnum og mynda merggeislana.
Viðaræðarnar liggja hins vegar með ýmsu móti. Í sumum trjám liggja þær svo að segja þráðbeint upp eftir stofninum, nema þar sem kvistir eru í honum en þar bugðast þær um kvistinn. Í öðrum trjátegundum liggja æðarnar í alls konar bugðum og sveipum sem nefnast vígindi (stundum kallað flammar). Útlit árhringanna hefur afgerandi áhrif á útlit viðarins. Borðviður sem skorinn er úr trénu næst berkinum hefur örvarlaga mynstur (flamma) sem verða til vegna þess að tréð er mjórra að ofan en neðan og því eru færri árhringar ofan til í trénu en neðanverðu. Þetta mynstur verður mjög líflegt og fjölbreytilegt og efnið kallað flatskorið efni. Borð sem skorið er úr miðju trésins hefur beint, röndótt og reglulegt mynstur og er kallað mergskorið efni. Ef efnið er tekið úr mjög greinóttu og óreglulegu tré fæst langfjölbreytilegasta mynstrið. Efni af þessu tagi er þó viðkvæmast fyrir rakabreytingum og í því getur verið mikil spenna sem gerir það erfitt í vinnslu. Flatskorið efni er mun betri smíðaviður en mergskorna efnið er stöðugast og því besti smíðaviðurinn.