Ef alvarlegt slys kemur upp í skólanum skal tilkynna kennara eða starfsmanni skólans sem hringir í 112
Öryggi okkar er mikilvægt og skal alltaf vera það fyrsta sem við tryggjum á vinnustað. Í smíðastofunni má finna fjölmörg verkfæri og tæki sem eru beitt, hreyfast hratt, eða eru þung. Efnin sem við vinnum með geta líka verið hættuleg. Það er því mikilvægt að kynna sér tækin, efnin og umhverfið sem við munum vinna með.
Slysin gerast líka þegar við verðum værukær á vinnustaðnum. Þegar við verðum löt og kærulaus í skipulagi og vinnulagi og tökum upp hegðun sem hentar ekki á vinnustöðum þar sem öryggi er alltaf númer eitt.
Vissir þú að við erum nú þegar með mikilvægasta verkfærið í smíðastofunni?
Það er kallað skynsemi.
Þegar við tökum nokkrar mínútur, jafnvel bara sekúndur, og hugsum af skynsemi getum við sparað tíma, peninga, og forðast slys og mistök.
Tveir mikilvægir þættir í auknu öryggi eru þekking og reynsla. Við öðlumst þekkingu þegar við lærum reglur smíðastofunnar. Við lærum að þekkja öryggisbúnaðinn og hvenær á að nota hann, við lærum að þekkja vélar og verkfæri og hvernig og hvenær á að nota þau. Það er þó nokkur munur á þekkingu og reynslu.
Tökum dæmi um hann Jón sem les notkunarleiðbeiningar fyrir borðsög sem hann keypti sér. Jón lærir hvað allt heitir, hvar það er staðsett á söginni og hvernig á að nota sögina í ýmis verkefni. Jón þekkir sögina mjög vel.
Jón hefur ekki ennþá notað sögina til að saga timbur. Hann hefur aldrei kveikt á henni og stillt hana í rétta stöðu. Jón hefur enga reynslu ennþá.
Jón byrjar að nota sögina til að saga. Hann nýtir þekkingu sína til að öðlast reynslu í að nota sögina. Með tímanum fær Jón meiri reynslu og hann verður hæfari og klárari að nota sögina. Jón hefur þekkingu og reynslu við að nota sögina.
ÞEKKING
Fræðsla um viðfangsefnið
REYNSLA
Notkun á viðfangsefninu
Með því að nota öryggisbúnaðinn, hlífðarbúnaðinn, verkfærin, vélarnar og skynsemina á réttan hátt þá fáum við reynslu. Reynsla byggir upp hæfni og þekkingu til að gera betur og betur. Eins og þegar við byrjuðum fyrst að lesa var lesturinn hægur því við vorum ekki vön að lesa og kunnum ekki öll þessi orð sem við lásum. En með tímanum og fleiri orðum og bókum sem við lásum varð lesturinn betri og betri. Við fengum þekkingu á orðum og reynslu í lestri.
Við þurfum reynslu í hönnun og smíði. Við þurfum að æfa okkur og prófa okkur áfram til að læra hönnun og smíði. Við þurfum líka að æfa okkur að nota öryggisbúnaðinn.
Öryggisbúnaður er hannaður til að vernda okkur frá ýmis konar hættum. Allir vinnustaðir eru hættulegir. Sumt er lítið hættulegt eins og að reka sig í eða fá litla flís. Annað er mjög hættulegt eins og mikill hávaði, þungt efni, beittar eða þungar vélar eða mikil hraði. Á öllum vinnustöðum er því mikilvægt að kynna sér hætturnar og nota öryggisbúnað sem passar við aðstæður.
Í þessari bók munum við læra að þekkja hættur í verkefnum okkar og læra að velja og beita öryggisbúnaði á réttan hátt.
Öryggisbúnaði er skipt í persónulegan búnað sem verndar líkama okkar og heilsu og sérhæfðan búnað sem ver fólk fyrir fyrir vélum, tækjum og aðstæðum.
Í þessum kafla lærum við að þekkja persónulegan hlífðarbúnað og í öðrum köflum lærum við að meta hvar og hvenær við notum öryggisbúnaðinn.
Öryggisgleraugu eru mikilvæg. Þau vernda augun okkar fyrir allt kyns óhreinindum sem gætu skotist í augun okkar. Litlar og stórar flísar geta skotist mjög hratt í burtu frá verkefnunum okkar og ef þær fara í augun geta þau skaðað sjónina.
Öryggigleraugu eru úr harðplasti og mikilvægt er að halda þeim hreinum og heilum. Brotnum öryggisgleraugum skal skipta út fyrir ný.
Andlitshlífar eru notaðar til að hlífa öllu andlitinu frá ýmis konar óhreinindum og fljúgandi aðskotahlutum.
Andlitshlífar eru notaðar þegar slípa þarf vinnustykki eða hætta er á að efni og vökvi skvettist til.
Heyrnarhlífar eru mikilvægar til að vernda heyrnina okkar. Á vinnusvæðum er oft mikil hávaði sem getur skaðað heyrnina okkar.
Við þekkjum öll þegar hávaðinn er mjög mikill en það er líka hægt að skaða heyrn í hávaða sem er stöðugur yfir langan tíma.
Rykgríma ver okkur fyrir ryki og óhreinu lofti. Til eru margar gerðir rykgríma sem eru hannaðar fyrir mismunandi aðstæður.
Rykgrímur vernda okkur EKKI frá eitruðum lofttegundum. Ef von er á eiturgufum eða reyk þarf að nota sérstakan útsogsbúnað, hafa opið út eða nota sérstakar öndunargrímur.
Hanskar eru mikilvægir til að vernda hendurnar okkar. Leðurhanskar vernda okkur frá litlum flísum og skörpum brúnum sem geta rispað, skorið okkur og stungið. Svo er hreinlegra fyrir okkur að nota hanska. GÆTA SKAL ÞESS VEL AÐ HANSKAR FESTIST EKKI Í VÉLUM OG TÆKJUM SEM SNÚAST
Svuntur vernda okkur frá efnum og verkfærum sem geta rispað, stungið eða skorið í okkur. Svuntur vernda fötin okkar líka fyrir óhreinindum og skemmdum.
Við klæðumst svuntum og bindum eða festum þær á réttan hátt þannig að þær verndi framhluta líkamans.
Öryggisskór vernda fæturna okkar. Öryggisskór eru með stálhlíf yfir tærnar og stálplötu undir iljunum og vernda okkur þegar eitthvað dettur á tærnar eða ef við stígum á oddhvassa hluti eins og nagla.
Öryggihjálmur verndar höfuðið. Öryggishjálmar eru úr harðplasti og hannaðir til að hlífa höfuðkúpunni ef að hlutir falla á okkur.
Öryggishjálmar eru notaðir þar sem hætta er á að hluti falli í mikilli hæð, til dæmis á byggingasvæðum þar sem unnið er í mikilli hæð frá jörðu.
Mikilvægt:
Allan öryggisbúnað þarf að nota á réttan hátt svo hann verndi okkur eins og hann var hannaður til.
Allur öryggisbúnaður þarf að vera heill og snyrtilegur.
Allan öryggisbúnað skal geyma á réttan hátt svo hann skemmist ekki.
Skipta þarf út biluðum eða skemmdum öryggisbúnaði og fá nýjan.