Vinnureglurnar okkar
Hér eru átta mikilvægar vinnureglur sem bæta öryggi okkar allra í smíðastofunni.
Við verjum okkur
Við hugsum áður en við framkvæmum
Við höldum verkstæði og vinnusvæðum hreinum
Við forðumst utanaðkomandi truflun
Við tökum því rólega
Við þvingum ekki
Við leyfum vélum og tækjum að stoppa og klára
Við klæðumst viðeigandi fötum
1. Við verjum okkur
Öryggisgleraugu, heyrnarhlífar, svuntur, öryggisskór, hlífðarföt og hanskar eru mikilvæg hlífðartæki. Einnig eru ýmiskonar hlífðarbúnaður á verkfærum og smíðavélum sem eru mikilvægir fyrir öryggi okkar.
2. Við hugsum áður en við framkvæmum
Skipulag forðar flestum slysum. Þegar við hugsum fyrst um hvað við erum að gera og metum áhættuna áður en við framkvæmum þá getum við forðast mörg slys og mistök. Gamla máltækið um að „mæla tvisvar en saga einu sinni“ er góð regla.
3. Við höldum verkstæði og vinnusvæðum hreinum
Hreinlæti er mjög mikilvægt öryggisatriði. Óhreinindi og hlutir á gólfi geta skapað hættu, mikil óreiða á vinnuborði getur skapað hættu. Passa verður vel upp á loftgæði þegar verið er að mála, líma eða nota sterk efni og hættuleg. Hrein borð og hreint verkstæði er líka besti vinnustaðurinn.
4. Við forðumst utan að komandi truflun
Utan að komandi truflun hefur áhrif á einbeitingu. Einbeiting er okkur mikilvæg í smíði vegna þess að við erum stundum að hanna og hugsa, eða mæla og reikna, eða smíða eitthvað mjög nákvæmt og mikilvægt. Við erum líka að nota verkfæri sem eru beitt, þung og hættuleg. Ef einhver truflar okkur við þessa vinnu mun það tefja okkur og í verstu tilfellum slasa okkur.
5. Við tökum því rólega
Ein mikilvægasta reglan er að taka því rólega. Hraði og flýti auka líkur á slysum og auka líkur á mistökum. Til að öðlast reynslu og læra vel það sem við erum að gera þá notum við tíma. Í smíði höfum við nægan tíma og mörg tækifæri til að æfa okkur.
6. Við þvingum ekki
Flest sem við vinnum með á að vera áreynslulaust. Hlutirnir sem við erum að smíða eiga að passa saman, hönnunin okkar á að virka hnökralaust, og verkfærin okkar eiga að vinna létt. Þegar við þvingum aukum við líkur á slysum, skemmdum og mistökum.
7. Við leyfum vélum og tækjum að stoppa og klára
Margar vélar og tæki sem við notum snúast og hreyfast á einhvern hátt. Þegar við slökkvum á þeim eða tækin klára verkefnið sitt þá tekur þau tíma til að stoppa. Sög þarf að hætta að snúast og 3D prentari eða fræsivél þarf að stilla sér á upphafspunkt. Þess vegna er mikilvægt að gefa öllum tækjum sinn tíma til að stoppa og klára.
8. Við klæðumst viðeigandi fötum
Víður og laus klæðnaður getur verið hættulegur í smíðastofum því þau geta flækst í vélum og tækjum. Einnig á alltaf að setja sítt hár í teygju og halda frá borvélum og öðrum snúningstækjum.