Þegar tré eru felld eru þau gegnsósa af vatni. Talið er að allt að helmingur þungans í nýfelldum viði sé vatn. Lauftré binda þó minna vatn en barrtré. Vatnið er bæði laust vatn og vatn sem bundið er í viðnum. Lausa vatnið er á milli viðarfrumnanna og innan í þeim en fasta vatnið er í frumuveggjunum og í föstum tengslum við þau efni sem í þeim eru. Ósöguð tré sem liggja lengi úti í sólskini og þurrki rifna og koma oft gapandi rifur á þau. Orsökin er að tréð þornar meira að utan en innan og að rysjan rýrnar meira en kjarninn. Viðurinn leitast alltaf við að aðlaga sig raka umhverfisins. Ef umhverfið er þurrara en viðurinn þornar hann og rýrnar en sé loftrakinn meiri en viðarrakinn drekkur hann í sig raka og þrútnar. Þetta veldur því til dæmis að hurðir og gluggar verða stíf í körmum og erfitt verður að opna og loka þeim. Þegar vatnið losnar úr viðnum léttist hann og rýrnar, mest á þverveginn. Sú hlið borðviðar sem snýr að rysjunni (úthlið trésins) er kölluð rangsíða en hin sem snýr að miðju trésins nefnist réttsíða (merghlið). Ungviðurinn (rysjan) rýrnar mun meira en kjarnviðurinn. Það veldur því að rangsíðan verður íhvolf við þurrkun en réttsíðan kúpt.