Starfrænar hreyfitruflanir

Starfrænar hreyfitruflanir ( e. functional movement disorder) ganga undir nokkrum nöfnum

Starfræn einkenni frá taugakerfi eru líkamleg einkenni sem orsakast af truflun í taugaboðum.  

Kvíðahnútur í maganum er tilfinning sem margir þekkja sem orsakast venjulega af kvíða, stressi eða álagi. Þó kvíðahnútur sé e.t.v. eitt þekktasta starfræna (sállíkamlega) einkennið geta líkamleg einkenni álags verið mjög margvísleg. Allt frá skjálfta eða kippum yfir í einkenni sem líkjast meðvitundarleysi eða flogi. 

Ekki er óalgengt að fólk með starfræn einkenni frá taugakerfi fyrir fyrir öðrum einkennum eins og verkjum, þreytu og jafnvel örmögnunartilfinningu við litla áreynslu.

Heilmikið af gagnlegum upplýsingum um starfræn einkenni,  mismunandi einkenni þeirra og greiningu, má finna á heimasíðunni neurosymptoms.org sem ritstýrt er af taugalækninum Jon Stone sem er sérfræðingur í starfrænum einkennum frá taugakerfi í Skotlandi. 

Hver er meðferðin?

Ekki eru til lyf sem lækna starfræn einkenni frá taugakerfi. Taugalæknar geta greint starfræn einkenni frá taugakerfi en meðferð einkennanna fer aðallega fram hjá sjúkraþjálfurum og sálfræðingum sem hafa sérþekkingu á meðferð starfrænna einkenna.

Ef kvíði eða þunglyndi eru undirliggjandi vandamál hjá fólki með starfræn einkenni er stundum hægt að reyna að meðhöndla kvíðann og þunglyndið með lyfjum og með bættri líðan gætu starfrænu einkennin mögulega batnað. Þó er algengt að þegar fólk fær starfræn einkenni að það finni lítið fyrir andlegri vanlíðan eða kvíða, þá er líkt og líðanin komi fram í líkamlegum einkennum frekar heldur en í breyttri andlegri líðan.  

Við einbeitum okkur oft að þeim tímum sem einkennin eru hvað alvarlegust eða verst. Í meðferð starfrænna einkenna er ekki síður mikilvægt að líta til þess tíma sem einkennin eru minni eða jafnvel hverfa og reyna að breyta umhverfi sínu eða daglegri rútínu þannig að sem flestir dagar verði góðir. 

Alvarleg starfræn einkenni krefjast stundum þverfaglegrar endurhæfingar sem Reykjalundur hefur boðið upp á. 

Lesefni og fræðsla:

Yfirgripsmestu og nákvæmustu upplýsingar um starfræn einkenni ætluðum almenningi má finna á neurosymptoms.org og eru á ensku

Upplýsingabækling um starfræn einkenni á íslensku má finna hér á síðu Landspítalans

Yfirlitsgrein um starfræn einkenni má finna á vef Læknablaðsins

Aðra yfirlitsgrein um starfræn einkenni má finna í blaði Læknanemans frá árinu 2017 á bls. 32-37

Ritgerð til BS gráðu í sjúkraþjálfun: Agnes Ósk Snorradóttir, Freyja Barkardóttir og Lilja Minný Sigurbjörnsdóttir: Starfræn einkenni Einstaklingar með starfræn einkenni á taugalækningadeild Landspítala á árunum 2014 - 2015 og þekking sjúkraþjálfara á röskuninni 

Einstaklingar með starfræn einkenni gætu nýtt sér aðferðir og leiðsögn í bókinni Overcoming Functional Neurological Symptoms: A Five Areas Approach sem hægt er að panta t.d. á Amazon

Frekari upplýsingar á ensku má t.d. finna á vef Amerísku Taugarannsóknastofnunarinnar NINDS og einnig á síðu Baylor háskóla í Bandaríkjunum

© Anna Björnsdóttir 2023