Verkefnið er að hanna og smíða lyklakippu úr 50 mm x 75 mm bút af 6 mm þykku plexigleri. Lyklakippan þarf að vera hlutur sem er auðþekktur af útlínunum.
Þekktar útlínur
Engar þekktar útlínur
Áhöld
Útsögunarbogi
Borvél og 4 mm bor
Smáþjalir
Efni
Bútur af 6 mm þykku plexígleri, u.þ.b. 50 mm x 75 mm að stærð
Lyklahringur eða klofinn hringur
Málaralímband
Fægilögur fyrir akrýl eða eir
Sandpappír, mismunandi grófur
Teiknið formið sem þið viljið hafa á lyklakippunni. Forðist fíngerða hluti þar sem þeim hættir til að brotna af.
Byrjið á að líma málaralímband yfir plexíglerbútinn. Límbandið ver bútinn og auðveldara er að teikna á það en bert plexíglerið.
Færið teikninguna yfir á límbandið og sagið út með útsögunarboga.
Sverfið brúnirnar til með þjöl og pússið með sandpappír þangað til þær eru orðnar sléttar. Notið stálull eða slípimassa fyrir akrýl til að fínpússa brúnirnar.
Borið að lokum 4 mm gat hæfilega langt frá brúninni og festið í það hring fyrir lyklana.
Nokkrar hugmyndir að lyklakippum:
Among Us kallar
Þórshamar og fleira
Demantur
1. Í byrjun er oftast nauðsynlegt að gefa nemendum nokkrar hugmyndir um form sem þeir geta notað á lyklakippurnar, svo sem bókstafi, tölustafi, bíla, dýr, teiknimyndafígúrur o.s.frv. Leggið áherslu á að auðvelt verði að þekkja hlutina af útlínunum þegar þeir eru séðir frá hlið.
2. Teikna þarf skyssu af hverri hugmynd í réttri stærð og láta stærðina ráðast af því hvernig ætlunin er að nota lyklakippuna; hvort hún á að hanga á lyklasnaga, vera fest við belti eða hvort ætlunin er að hafa hana í vasanum.
3. Síðan er skissan klippt út og færð yfir á glerið þannig að hægt sé að saga hlutinn út. Nauðsynlegt er að líma málaralímband yfir akrýlið til að verja það meðan verið er að saga hlutinn út.
4. Mikilvægt er að hafa sagarfarið sem næst skrúfstykkinu meðan verið er að saga út því annars er hætta á að akrýlið brotni. Sagið varlega þannig að ekki flísist úr glerinu að óþörfu.
5. Brúnirnar ætti að grófslípa áður en gatið fyrir lyklahringinn er borað. Mikilvægt er að staðsetja gatið hæfilega langt frá brúninni. Ef það er of nálægt er hætt við að brotni út úr því en ef það er of langt frá getur orðið erfitt að koma lyklahringnum fyrir í því. Hæfilegt er að hafa gatið u.þ.b. 4 mm frá brúninni.
6. Að lokum þarf að sverfa öll sagarför af brúnunum með þjöl og fínpússa þær síðan með fínum sandpappír og fægja að endingu.