Ábyrg samræða (e. Accountable talk) byggir á markvissum samræðum þar sem nemendur læra að hugsa upphátt, segja frá og rökstyðja hugmyndir sínar, takast á við ólíkar skoðanir og byggja upp sameiginlega þekkingu.
Þekkingu - nemendur bera ábyrgð á að vísa í staðreyndir, texta eða önnur gögn sem styðja málflutning þeirra.
Röksemdum - nemendur þurfa að útskýra hugsun sína, styðja við skoðanir sínar með rökum og tengja saman hugmyndir.
Virðingu fyrir skoðunum og hugmyndum annarra - nemendur hlusta af athygli, vísa í það sem samnemendur segja og byggja ofan á hugmyndir þeirra.
Þessar grunnstoðir hvetja til dýpri hugsunar og auka virka þátttöku allra nemenda í umræðum.
Setja skýr viðmið fyrir samræður, svo sem að hlusta án þess að grípa fram í og virða skoðanir annarra.
Gefa „biðtíma“ svo nemendur geti hugsað áður en þeir svara.
Vera fyrirmyndir í því hvernig á að útskýra, spyrja, tengja og efast á uppbyggilegan hátt.
Virkja alla nemendur til þátttöku.
Nota hlutverk innan umræðuhópa sem stýra flæði samræðunnar, þjálfa mismunandi tegundir hugsunar og tjáningar og tryggja að allir taki þátt.
Nota samræðustofna (t.d. „ég held... því að...“) í hópavinnu til að hjálpa nemendum að festa samtalsvenjur í sessi.
Notið opnar spurningar: „Hvernig veistu það?“, „Af hverju heldurðu því fram?“, „Hvaða önnur skýring gæti verið á þessu?“
Biðjið um nánari útskýringar: „Segðu mér meira“, „Geturðu fært rök fyrir þessu?“
Tengdu hugmyndir saman: „Er þetta svipað og það sem María sagði?“
Dragðu fram mismunandi sjónarmið: „Eru aðrir með aðra lausn?“
Virkjaðu hópinn: Látum nemendur endurtaka það sem aðrir segja, túlka eða meta. Þannig verður umræðan sameiginleg.
Í náttúrufræðitíma ræða nemendur niðurstöður tilraunar.
Kennarinn spyr: „Af hverju heldurðu að þetta hafi gerst?“
Nemandi svarar: „Vegna þess að vatnið var kaldara.“
Kennarinn spyr: „Geturðu sýnt okkur það í gögnunum?“
Annar nemandi bætir við: „En í hópi B var vatnið líka kalt og það breyttist ekki.“
Nú er samræðan farin að snúast um rök, gagnrýna hugsun og samanburð á gögnum. Kennarinn leiðir umræðuna áfram en nemendurnir eiga innihaldið.
skilning og dýpt í námi,
þátttöku allra nemenda, líka þeirra sem eru feimnir eða glíma við tungumálahindranir,
færni í að rökræða, útskýra, hlusta og túlka,
félagslega samkennd og virðingu fyrir ólíkum skoðunum.
Samræðan er sjálfstæð námsaðferð, ekki bara umræða um eitthvað sem var kennt, heldur ferlið þar sem þekkingin verður til. Ábyrg samræða gerir samtalið í kennslustofunni að meginverkfæri námsins. Hún krefst þjálfunar og þrautseigju, en skilar dýpri skilningi og þekkingu auk þess sem rödd nemenda í náminu verður sterkari.
Í grunnþættinum Lýðræði og mannréttindi segir m.a. að kennurum er uppálagt að vinna með hugmyndina - eða hugsjónina - um lýðræði bæði sem markmið og viðmið um verklag. Kennari sem vill taka lýðræðislegt hlutverk sitt alvarlega getur vitanlega farið ólíkar leiðir. Ein leið er að leggja áherslu á samræður - bæði samræður sem aðferð í kennslu og sem markmið skólastarfs (Ólafur Páll Jónsson og Þóra Björg Sigurðardóttir, 2012, bls. 13). Þá hafa rannsóknir sýnt að samræður í skólastarfi ýti undir djúpnám nemenda (Fisher, Frey og Hattie, 2018).
Textinn byggir á ritinu Accountable talk: Instructional dialogue that builds the mind frá International Academy of Education & UNESCO International Bureau of Education:
Fisher, D., Frey, N., & Hattie, J. (2016). Visible learning for literacy: Implementing the practices that work best to accelerate student learning. Corwin Press.
Ólafur Páll Jónsson og Þóra Björg Sigurðardóttir. (2012). Lýðræði og mannréttindi: Grunnþáttur í menntun á öllum skólastigum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Resnick, L. B., Asterhan, C. S. C., & Clarke, S. N. (2018). Accountable talk: Instructional dialogue that builds the mind (Educational Practices Series No. 29). International Academy of Education & UNESCO International Bureau of Education. https://www.ibe.unesco.org/en/accountable-talk