Af hverju og hvers vegna?
Ábyrg samræða á yngsta stigi
Ábyrg samræða á yngsta stigi
Af hverju og hvers vegna er námsefni sem er hugsað fyrst og fremst fyrir kennara og nemendur á yngsta stigi grunnskóla en námsefnið er hægt að nota með öllum nemendum sem þurfa að efla færni sína í að taka þátt í samræðum.
Námsefnið byggir á hugmyndum um ábyrga samræðu þar sem nemendur læra markvisst að nýta samræðustofna svo að þeir geti tekið virkan þátt í eigin námi með það að markmiði að stuðla að djúpnámi þeirra.
Samræðustofnarnir sem fylgja námsefninu ýta undir virkni nemenda í samræðum en samræður eru stór þáttur í öllu skólastarfi og því mikilvægt að byrja strax að þjálfa nemendur í að læra að taka markvissan þátt í samræðum.
Á þessari síðu er m.a. að finna samræðustofna sem hægt er að prenta út og hengja upp í kennslustofum, upplýsingar um hvað er ábyrg samræða og kennsluleiðbeiningar fyrir kennara um það hvernig er hægt að nýta samræðustofnana til þess að stuðla að ábyrgri samræðu nemenda.
Þá er lýsing á samræðuaðferðinni, Sex hugsunarhattar, sem hægt er að nýta með nemendum eftir að búið er að leggja rækt við að kenna nemendum að nýta samræðustofnana til þess að geta tekið markvissan þátt í samræðuaðferðum.
Námsefnið er unnið af Sigríði Ingadóttur og Írisi Hrönn Kristinsdóttur, sérfræðingum á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Verkefnið fékk styrk frá Þróunarsjóði námsgagna. Hugmyndin af vefnum kom upp í UTÍS námsferð til Bandaríkjanna haustið 2023 þar sem starfsfólk MSHA kynntist því hvernig skólar í New York vinna markvisst með samræður í skólastarfi. UNESCO hefur gefið út vandað rit um ábyrga samræðu sem haft hefur verið til hliðsjónar við gerð vefsins, hægt er að skoða ritið endurgjaldslaust á vef UNESCO Accountable talk: Instructional dialogue that builds the mind.