Sex hugsunarhattar (e. Thinking hats) Edward de Bono er samræðuaðferð þar sem nemendum er kennt markvisst að ræða saman ákveðna þætti viðfangsefnis til þess að halda sig afmarkað við umræðuna, hlusta á öll sjónarhorn og taka afstöðu til allra þátta í umræðunni.
Þegar nemendur hafa náð tökum á því að nýta samræðustofnana þá er hægt að kynna fyrir þeim aðferðina Sex hugsunarhattar þar sem samræðustofnarnir nýtast í samræðunum.
Edward de Bono þróaði þessa samræðuaðferð til þess að bæta samræður og efla gagnrýna og skapandi hugsun til þess að stuðla að sem árangursríkri ákvarðanatöku. Hugmyndin með aðferðinni er sú að nemendur setja upp „ákveðinn hatt“ og reyna þannig að hugsa út frá einu sjónarhorni í einu. Þannig hjálpar það hópnum að greina viðfangsefni frá mismunandi hliðum án þess að skoðanir rekist á. Þetta gerir nemendum kleift að hugsa saman á markvissan og fjölbreyttan hátt.
Hafið hattana sýnilega
(geta verið litaðar derhúfur, spjöld, skilti eða eitthvað annað).
Kynnið hattana og tilgang með hverjum og einum þeirra.
Hér er mikilvægt að vera með dæmi fyrir hvern hatt fyrir sig.
Skilgreinið umræðuefnið.
Allir setja upp sama lit af hatt og ræða viðfangsefnið út frá þeim hatti.
Notið svo hvern hattinn á fætur öðrum til þess að ræða allar hliðar á viðfangsefninu. Athugið að það er gott að byrja og enda á bláa hattinum (skilgreina viðfangsefnið í upphafi og draga saman það helsta sem fram hefur komið í umræðunni í lokin).
Það er mikilvægt að nemendur upplifi sig örugga í umræðunni - engin hugsun er röng á meðan viðkomandi hattur er í notkun.
Skoðið hvað kom fram í samræðunum.
Hvað kom í ljós?
Hver eru næstu skref?
Hér er líka hægt að biðja nemendur um að skrifa niður eigin hugleiðingar, annaðhvort undir hverjum hatti eða mat/heildarniðurstöðu eftir samræðurnar.
Blái hatturinn er sá sem byrjar og endar samræðurnar og gengur undir nafninu stjórnunarhatturinn.
Hlutverk: Stýrir ferlinu og ákveður röðina á höttunum, hann heldur utan um samræðurnar og passar upp á að taka saman niðurstöður úr samræðunum.
Rauði hatturinn gengur undir nafninu tilfinningahatturinn.
Hlutverk: Leyfir okkur að tjá okkur um viðfangsefnið án þess að rökstyðja. Hérna deilum við innsæi okkar, tilfinningum og hugboði. Hér má segja hvernig okkur líður um þetta tiltekna viðfangsefni.
Hvíti hatturinn snýst um að upplýsingar, staðreyndir og gögn og kallast hlutlægi hatturinn.
Hlutverk: Skoðar hvað við vitum og hvaða upplýsingar okkur vantar. Hér á hvorki að hafa eigin skoðun né tilfinningar.
Svarti hatturinn er kallaður efasemdahatturinn.
Hlutverk: Skoðar veikleika viðfangs-efnisins eða hugmyndarinnar. Hér þarf að gagnrýna og velta vöngum yfir þeirri varúð sem þarf að hafa í huga. Þessi hattur hjálpar til við að greina t.d. áhættu.
Græni hatturinn kallast skapandi hatturinn
Hlutverk: Skoðar nýjar hugmyndir og notar lausnaleit. Dæmigerðar spurningar:
Hvað annað getum við gert?
Hvernig getum við nálgast þetta öðruvísi?
Guli hatturinn kallast jákvæði hatturinn.
Hlutverk: Skoðar kosti, tækifæri og styrkleika. Spurningar sem gott er að spyrja:
Hvað er gott við þessa hugmynd?
Hvers vegna ætti þetta að geta gengið vel?