Mánudagurinn 15. desember var heldur betur gleðidagur hjá 2. og 3. bekk í Hvassaleitisskóla. Sigurður Gunnar Magnússon, leikjahönnuður hjá Evolytes, kom í heimsókn og færði okkur þær frábæru fréttir að nemendur í Hvassaleitisskóla hefðu borið sigur úr býtum í Stóru stærðfræðikeppninni sem nemendur um allt land hafa tekið þátt í undanfarnar sex vikur. Allir nemendur í 2. og 3. bekk fengu bíómiða í verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur og umsjónarkennararnir fengu líka glaðning.
Íslenska menntatæknifyrirtækið Evolytes hefur þróað heildstætt námskerfi sem kennir stærðfræði á árangursríkan og skemmtilegan máta í gegnum námsleik fyrir spjaldtölvur, námsbækur og upplýsingakerfi. Að baki kerfinu liggja áralangar þverfaglegar rannsóknir sem sýna að börn geta með þessum hætti lært hraðar og með árangursríkari hætti en með hefðbundnum kennsluaðferðum. Evolytes leikurinn er á pari við það skemmtiefni sem börn sækjast í og gerir því stærðfræðinámið bæði áhugavert og skemmtilegt.
Nemendur í 2. og 3.bekk í Hvassaleitisskóla hafa verið einstaklega dugleg að reikna í Evolytes stærðfræðileiknum það sem af er þessu skólaári og kennararnir eru sammála um börnin séu heldur betur að blómstra í honum. Það er ekki bara aukin stærðfræðiþekking sem þau öðlast með því að spila hann, heldur þurfa þau líka að vera lausnamiðuð og hjálpa hvert öðru ef einhver kemst ekkert áfram í leiknum.
Einn af helstu kostunum við leikinn er að hann færir nemendur úr ákveðnum dæmum og þyngir þau þegar hann skynjar að barnið er farið að svara öllu rétt.