Harpa var fyrsti mánuður sumars og líklega ársins. Harpa hófst með sumardeginum fyrsta. Nafnið Harpa er ekki mjög gamalt, e.t.v. frá 17. öld, og uppruni þess óljós en tengist kannski vorhörkum, herpingi. Í Snorra-Eddu er mánuðurinn kallaður gaukmánuður og sáðtíð. Í rómantík 19. aldar fékk Hörpu-nafnið á sig rómantískan blæ og jafnvel talið nafn dóttur Þorra og Góu sem þá var líka farið að tala um sem hjón.
Skerpla var annar mánuður sumars og hófst á laugardegi í 5. viku sumars (19.–25. maí). Nafnskýring er óljós en hugsanlega er vísað til þess að á þessum árstíma er gróður skammt á veg kominn. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður kallaður eggtíð og stekktíð .
Sólmánuður var þriðji mánuður sumars og hófst mánudaginn í 9. viku sumars (18.–24. júní). Heitið sólmánuður skýrir sig sjálft. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður einnig nefndur selmánuður .
Heyannir var fjórði mánuður sumars og hófst með miðsumri (23.–29. júlí). Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar .
Haustmánuður var síðasti mánuður sumars. Haustmánuður hófst (oftast) á fimmtudegi í 23. viku sumars (21.–27. september).
Gormánuður var fyrsti mánuður vetrar. Gormánuður hófst fyrsta vetrardag . Nafnið mun vísa til sláturtíðar en gor þýðir hálfmelt fæða í innyflum dýra, einkum hjá grasbítum.
Ýlir var annar mánuður vetrar. Hann hófst með mánudegi í 5. viku vetrar (20.–26. nóvember). Nafnið trúlega skylt orðinu jól. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður kallaður frermánuður .
Mörsugur var þriðji mánuður vetrar. Mörsugur hefst með miðvikudegi í 9. viku vetrar (20.–26. desember). Hvað nafnið mörsugur þýðir er ekki vitað. Þessi mánuður var einnig kallaður jólmánuður . Í Snorra-Eddu er hann kallaður hrútmánuður, enda var þá hrútum hleypt til ánna .
Þorri var fjórði mánuður vetrar, miðsvetrarmánuður. Þorri hefst með föstudegi í 13. viku vetrar (19–25. janúar). Ekki er nákvæmlega vitað hvað nafnið merkir. Oftast er það þó tengt sögninni að þverra eða að minnka eða talið skylt lýsingarorðinu þurr. Einnig hefur verið nefnt að það gæti verið gælunafn Ása-Þórs. Þorri var persónugerður sem vetrarvættur á miðöldum. Fyrsti dagur þorra var tileinkaður húsbændum og síðar var farið að kalla hann bóndadag . Líklega eru þorrablót ævagömul hefð sem hefur verið endurvakin á síðustu áratugum.
Góa (áður gói ) var fimmti mánuður vetrar. Góa hófst með sunnudegi í 18. viku vetrar (18.–24. febrúar). Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa heitis. Góa var líka vetrarvættur sem skyldi fagna, rétt eins og þorra, og var fagnaðurinn tileinkaður húsfreyjum. Í fornum sögnum var góa talin dóttir þorra en síðar talið að hún væri eiginkona hans.
Einmánuður var síðasti mánuður vetrar. Einmánuður hófst á þriðjudegi í 22. viku vetrar (20.–26. mars). Ekki er vitað hvað heitið einmánuður merkir en kannski vísar nafnið til þess að mánuðurinn er síðastur vetrarmánaða, aðeins einn mánuður eftir af vetri.
Textar fengnir af vef mms.is.