Brynhildur Kristinsdóttir (f.1965) nam myndlist í Myndlistarskólanum á Akureyri og í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Eftir útskrift úr myndmótunardeild fór Brynhildur til Pietrasanta á Ítalíu þar sem hún vann með myndhöggvurum. Pietrasanta er mikil miðstöð myndlistar og þá sérstaklega höggmyndalistar og er þekkt fyrir marmarann sem er þar allt um kring.
Eftir Ítalíuævintýrið fór Brynhildur í Iðnskólann í Reykjavik þar sem hún lærði húsgagnasmíði. Auk þess að starfa við eigin myndsköpun hefur hún kennt myndlist og smíðar, átt í samstarfi við ýmsa listamenn og gert leikmynd fyrir dans. Brynhildur hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Hún starfar nú sem safnakennari í Listagilinu og í Davíðshúsi á Akureyri. Brynhildur er einnig smíðakennari í Oddeyrarskóla og formaður Myndlistarfélagsins auk þess sem hún stundar nám í Háskólanum á Akureyri.