Markmið með vorskólanum er skapa öryggi og jákvæðar væntingar til skólabyrjunar. Í vorskólanum taka elstu börnin í leikskólanum þátt í starfi grunnskólans. Þau fá tækifæri til að kynnast umhverfinu í grunnskólanum bæði innan og utan og taka þátt í ýmsum kennslustundum. Lögð er áhersla á að börnin fái að taka þátt í öllum stundum dagsins, þau fara í matsalinn, skammta sér sjálf og borða með yngsta stigi, fara í íþróttahúsið, leika sér úti í frímínútum og kynnast bæði skólalóðinni og nemendum á yngsta stigi.
Börnin taka einnig þátt í kennslustundum þar sem kennt er eftir Byrjendalæsi. Í vorskólanum 2025 var unnið með bókina Skrímsli í heimsókn. Skrímslabækur Áslaugar Jónsdóttur eru stuttar, skemmtilegar, vel myndskreyttar og ná vel til barnanna. Lykilorðið var heimsókn þar sem að börnin komu í fjórar heimsóknir í grunnskólann á síðasta skólaári.
Vorskólinn er haldinn í maí á hverju ári og er þrír dagar frá kl. 10:00-13:30. Þar hitta börnin umsjónarkennara sína sem munu kenna þeim í fyrsta bekk. Þau fá að vera í stofunni sem þau verða í komandi haust og á meðan er núverandi fyrsti bekkur með öðrum bekk, þar sem þau verða saman í teymi á næsta skólaári. Leikskólakennarar fylgja börnunum og eru með þeim í sitthvorri stofunni á meðan vorskólanum stendur.
Foreldrar fá upplýsingar um Vorskólann að hausti og aftur í maí áður en skólinn byrjar.
Kennarar beggja skólastiga eru í samráði fyrir Vorskólann um hvernig honum er háttað hvert sinn.
Eftir Vorskólann hittast kennarar aftur á skilafundi þar sem upplýsingar um börnin skila sér milli skólastiga.
læri að hlusta á bók
læri að þekkja há- og lágstafinn Hh, hljóð hans og geti dregið rétt til stafs
æfi blýantsgrip
að börnin læri að vinna með krossglímu
að börnin læri að vinna með lykilorð
að börnin kynnist og æfi sig í að leyfa öllum að vera með
Byrjendalæsi byggist á markvissri og stigvaxandi lestrarkennslu þar sem lestur, ritun, hlustun og tal þróast samhliða. Kennslunni er skipt í þrjú þrep sem styðja við málþroska, læsi og skapandi tjáningu barna.
Á fyrsta þrepi er gæðatexti lesinn fyrir nemendur, í þessu tilfelli varð bókin Skrímsli í heimsókn fyrir valinu. Kennari byrjar á að sýna börnunum textann og vekja athygli á efni hans og hvetur þau til spurninga og vangaveltna. Síðan er textinn lesinn fyrir eða með börnunum og innihald hans rætt á ýmsa vegu. Börnin skoða valin orð og merkingu þeirra, ræða ýmis álitamál og dýpka skilning sinn á efninu.
Lagt er upp með að textinn sem notaður er í Byrjendalæsi sé fjölbreyttur, s.s. barnabækur, fræðitextar, myndefni og ljóð og að fjölbreytni sé í aðferðum við lestur, ritun og aðra miðlun. Kennarar velja textana út frá markmiðum hverju sinni og gæta þess að þeir höfði til nemenda. Við val á texta hafa kennarar í huga félags- og menningarlegan fjölbreytileika nemendahópsins.
Bókin sem varð fyrir valinu fjallar um Stóra skrímslið og Litla skrímslið. Skrímslin tvö eru vön að fara saman í veiðiferð á laugardögum. Einn daginn kemur babb í bátinn, Litla skrímslið er upptekið því að Loðna skrímslið er komið í heimsókn. Í bókinni er fjallað um vináttu og hvernig hægt er að leyfa öllum að vera með og þannig tengist bókin markmiðum vorskólans.
Á öðru þrepi Byrjendalæsis er unnið með tæknilega þætti læsis svo sem samband stafs og hljóðs, umskráningu, réttritun og endurþekkingu orða. Efniviður í þá vinnu er sóttur í textann sem búið er að lesa og ræða á fyrsta þrepi. Úr textanum er jafnframt valið lykilorð sem er stökkpallur í þá tæknilegu vinnu sem fyrir liggur.
Lykilorðið var heimsókn.
Lykilorðavinna á töflu. Stafurinn var skoðaður og börnin spreyttu sig á að finna orð sem byrja á Hh eða hafa Hh í sér. Einnig léku þau sér að því með kennaranum að klippa orðið í sundur heim - sókn.
Stafainnlögn H og h, hljóð, stafadráttur og orð sem byrja á Hh.
Á þriðja þrepinu byggja nemendur upp heildstæðan texta. Þeir eru hvattir til að tjá eigin þekkingu og skoðanir á fjölbreyttan hátt og nota til þess aðferðir sem þeim hafa verið kenndar. Þeir semja nýja texta, s.s. sögur og ljóð, útbúa hugtakakort eða teikna og skrifa á þann hátt sem hentar markmiðum og lesendum hverju sinni. Þriðja þrepið er oft samþætt með list- og verkgreinavinnu, þar sem börnin endurskapa eitthvað sem tengist textanum í gegnum sjónlistir, tónlist eða leiklist.
Hægt er að útfæra þriðja þrepið á ótal skapandi vegu, þar sem dagskráin var þétt í vorskólanum var ákveðið að á þriðja þrepinu fengju börnin að skapa sitt eigið skrímsli með leir.