Áratuga hefð er fyrir samstarfi milli Borgarhólsskóla og Grænuvalla með það að leiðarljósi að brúa bilið á milli leik- og grunnskóla. Með verkefninu Lítil skref á leið til læsis vildum við setja niður markvisst samstarf sem byggði á lærdómssamfélagi kennara og markmiðum úr læsisstefnum skólanna.
Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) segir: Skólaganga barna á að mynda samfellda heild þannig að reynsla og nám barna á fyrri skólastigum nýtist þeim á næsta skólastigi. Að ljúka leikskólanámi og byrja í grunnskóla felur í sér breytingar fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Mikilvægt er að nám og uppeldi í grunnskóla byggist á fyrri reynslu og námi barna til að skapa þeim öryggi og ný námstækifæri.
Til að sameiginleg sýn ríki á færni barns og hlutverk þess í skólanum verða kennsluaðferðir að speglast og kennarar að hafa svipuð viðhorf til þeirra eiginleika sem þeir telja að nemendur þurfi að hafa við upphaf grunnskólagöngu. Til þess þarf að skapa svigrúm til samstarfs kennara á elstu deild leikskóla og kennara fyrsta bekkjar grunnskóla. Samstarfið þarf að fela í sér gagnkvæmar heimsóknir kennara af báðum skólastigum til að fylgjast með starfinu. Jafnframt þarf að skipuleggja tíma svo að kennarar af báðum skólastigum geti fundað saman.
Í verkefninu Lítil skref á leið til læsis er lögð áhersla á að efla samstarf á milli skólastiga, ein leið til þess er að kennarar vinni meira saman í kennslu og við undirbúning hennar. Ákveðið var að vinna tvö þemaverkefni á fyrsta skólaárinu þar sem að aðferðir Byrjendalæsis sem unnið er með í 1. bekk fléttuðust saman við leikinn sem er aðalnámsleið leikskólabarnanna. Í þemaverkefnunum var unnið út frá gæðatexta úr barnabókum. Heimsóknir barnanna á milli skóla fengu heitið skiptiheimsóknir og fóru þær fram á tveggja vikna tímabili á haustönn og aftur á vorönn. Heimsóknirnar voru átta í heildina en hver hópur fór í fjórar heimsóknir. Kennarar beggja skóla taka þátt í heimsóknunum, taka þátt í undirbúningi og fylgja börnunum í leik og verkefnavinnu.
Árganginum í leikskólanum er skipt í tvo hópa, A og B, og eins er gert í grunnskólanum. Hér fyrir neðan má sjá skipulagið en sama skipulag var notað á haust- og vorönn.
Með þessu móti hittast og kynnast öll börnin hvoru öðru.
Fyrri heimsókn
Þriðjudagur
Hópur A í leikskóla og A í grunnskóla hittast í leikskólanum
Hópur B í leikskóla og B í grunnskóla hittast í grunnskólanum
Fyrri heimsókn
Fimmtudagur
Hópur A í leikskóla og A í grunnskóla hittast í grunnskólanum
Hópur B í leikskóla og B í grunnskóla hittast í leikskólanum
Seinni heimsókn
Þriðjudagur
Hópur A í leikskóla og B í grunnskóla hittist í leikskólanum
Hópur B í leikskóla og A í grunnskólanum hittast í grunnskólanum
Seinni heimsókn
Fimmtudagur
Hópur A í leikskóla og B í grunnskóla hittist í grunnskólanum
Hópur B í leikskóla og A í grunnskólanum hittast í leikskólanum