Leyniskógurinn er barnabók úr Tulipop-heiminum þar sem sveppasystkinin Búi og Glóð ferðast um dularfullan leyniskóg og kynnast furðulegum verum. Bókin er vel skrifuð og einkennist af ríkulegum orðaforða sem hægt er að vinna með á margvíslegan hátt. Efnið hentar vel til umræðna um ímyndunarafl, vináttu, ólíkar persónugerðir og tilfinningar.
Í leikskólanum Grænuvöllum hefur lengi verið lögð áhersla á útinám og því var ákveðið að leikskólabörnin myndu bjóða grunnskólabörnunum í heimsókn í skógrækt Húsavíkur sem hefur verið vettvangur útikennslu hjá báðum skólum til margra ára. Umhverfi skógarins býður upp á óteljandi tækifæri til að rannsaka og uppgötva náttúruna. Í skóginum eru fjölbreyttar gönguleiðir og alls kyns leynistaðir sem auðvelt er að tengja við texta bókarinnar.
Með því að vinna með bókmenntir í nærumhverfi barnanna skapast tækifæri til að samþætta læsi, náttúrufræði, hreyfingu og sköpun. Börnin fá tækifæri til að tengja efnið við reynsluheim sinn, skoða, skynja og túlka söguna í gegnum hreyfingu, leik og útivist.
Þemavinnan var unnin í skiptiheimsóknum þar sem að börnin á elstu deild leikskólans og börnin í fyrsta bekk voru saman í útikennslu og heimsóttu hvert annað í leik- og grunnskólann. Í skiptiheimsóknunum voru unnin fjölbreytt og skapandi verkefni sem miðuðu að því að efla tengsl, læra um náttúru og samfélag og vinna með læsi í víðum skilningi.
skilið og notað hugtökin; sögupersóna, aðalpersóna og höfundur
endursagt sögur með eigin orðum
notað ímyndunaraflið til að búa til nýjan leyniskóg eða framhaldssögu
æfi sig í að beita hugmyndaflugi sínu til að spá fyrir um framhald sögunnar um leyniskóginn
þekki og geti nefnt stafina Ll og Ss, þekki hljóðin þeirra og dragi rétt til stafs
Í þemavinnunni var útikennslu og vinnu með læsi í anda Byrjendalæsis fléttað saman. Útikennsla hefur lengi verið mikilvægur hluti af starfi leikskólans. Í henni er lögð áhersla á hreyfingu, leik, sköpun og upplifun í náttúrulegu umhverfi. Útinámið er lagað að ólíkum árstíðum, veðri og þeim stöðum í nærumhverfi barnanna sem henta fyrir útinám. Lögð er áhersla á að börnin fái tækifæri til að kanna umhverfið, spyrja spurninga og uppgötva með öllum skynfærum. Slík nálgun styður við alhliða þroska, styrkir tengsl við náttúruna og gerir námið merkingarbært.
Útikennslan á vel við þær aðferðir sem notaðar eru til að kenna Byrjendalæsi en Byrjendalæsi er umgjörð um læsiskennslu á yngsta stigi grunnskólans. Í Byrjendalæsi er lögð áhersla á að unnið sé jöfnum höndum með alla þætti tungumáls; lestur, hlustun, tal og ritun í gegnum heildstæð og áhugaverð viðfangsefni. Barnabækur og aðrir rauntextar gegna lykilhlutverki sem uppspretta fjölbreyttra viðfangsefna og námstækifæra hvort heldur sem er á fyrstu stigum lestrarnáms eða þegar nemendur eru komnir vel á veg.
Leyniskógurinn segir frá sveppasystkinunum Búa og Glóð sem ferðast um dularfullan skóg og kynnast þar ólíkum verum og ævintýrum. Hægt er að vinna með fjölbreytt viðfangsefni út frá bókinni, svo sem vináttu, hugrekki og ímyndunarafl. Auðvelt er að samþætta vinnu með læsi við náttúruvísindi og umhverfismennt. Skólarnir hafa aðgengi að frábærum útkennslusvæðum og í gegnum útinám var efni bókarinnar tengt við reynsluheim barnanna.
Þegar leikskólabörnin buðu grunnskólabörnunum í fyrstu skiptiheimsókn í lok september var búið að lesa bókina tvisvar fyrir alla og velja lykilorð. Deildinni var skipt upp í fimm svæði og á hverju svæði var kennari með eina stöð. Stöðvarnar voru: Osmo words með myndum og orðum úr bókinni; klippa, líma og lita laufblöð; lita L og orð sem byrja á L; skrifa L eftir fyrirmynd, leira L og fleiri stafi og búa til L úr greinum. Eftir á að hyggja þótti þetta helst til of grunnskólamiðuð nálgun og var ákveðið að passa upp á að hafa heimsóknir framtíðarinnar leikskólamiðaðri með áherslu á læsi í gegnum leik.
Á Grænuvöllum er mikil áhersla lögð á útikennslu og var því tilvalið að hafa næstu skiptiheimsókn úti. Fyrsta bekk var því boðið í Skógræktina sem hefur mikið verið notuð í útikennslu síðasta áratuginn, enda ævintýralegur skógur með fjölbreyttum gönguleiðum og leynistöðum. Öll börnin á Árholti, deildin sem elsti leikskólaárgangurinn var á, gengu saman í grunnskólann þar sem þau hittu nemendurna í 1. bekk. Helmingur Árhyltinga varð eftir í skólanum og helmingur fyrstu bekkinga kom með í skógarferð. Í næstu skiptiheimsókn fóru börnin sem urðu eftir í skólanum í skóginn og öfugt. Áður en börnin komu í skóginn voru kennarar búnir að koma fyrir tjöldum, álfum og sveppum til að gera hann ævintýralegan og dularfullan. Einnig voru þeir búnir að fela plastaðar myndir af Fredda, Glóð og fleiri Tulipop félögum, ásamt bókstöfunum L og S víða um skóginn og var verkefni barnanna að finna myndirnar og koma þeim á sína staði inn í tjöldunum. Áhersla var lögð á samvinnu allra barnanna sem voru um þrjátíu í hvorum hópi. Það hefði líka verið hægt að skipta nemendum upp í minni hópa og biðja þá að finna ákveðnar myndir/bókstafi. Leitin var spennandi og gekk vel. Aðeins ein fígúra varð eftir ófundin í skóginum þegar hópurinn hélt af stað til baka í leikskólann en sem betur fer fannst hún nokkrum dögum síðar þegar næsti hópur kom í skóginn.
Eftir leitina fengu börnin leir til að gera andlit á trén með efniviði úr skóginum. Leirinn er búinn til úr náttúrulegum efnum sem fara ekki illa með náttúruna en hann var þó tekinn niður í lokin því hann á ekki heima í skóginum.
Þegar grunnskólinn bauð leikskólanum í heimsókn í byrjun október var búið að lesa bókina tvisvar sinnum fyrir þau á sitthvorum staðnum og lykilorðið kynnt sem var skógur. Í grunnskólanum fórum við í hringekju þar sem börnunum úr leik- og grunnskólanum var blandað saman og skipt í þrjá hópa. Í hringekjunni voru þrjár stöðvar og unnu börnin á hverri stöð í 25 mínútur. Í seinni heimsókninni var sama skipulag notað en börnin unnu önnur verkefni á stöðvunum.
Stafainnlögn Ss, hljóð þeirra og stafdráttur, þ.e. hvernig dregið er til stafs sem kennari sýndi á töflu. Einnig fundu börnin nokkur orð sem byrja á Ss. Í framhaldi af því fengu þau verkefnið að skrifa stafinn Ss eftir punktalínu og stafasúpu þar sem þau lituðu Ss með grænu. Ef tími gafst enduðu þau á að lita myndir af Tulipop.
Farið var yfir lykilorðið skógur, heiti allra stafanna í orðinu og hljóð þeirra. Næst var lykilorðið nota til að leysa krossglímu þar sem það er skrifað lóðrétt niður og þau finna orð sem hafa upphafsstaf hvers stafs í lykilorðinu.
Í framhaldi af því fengu þau frauðstafi og hjálpuðus að 2-3 saman að finna stafina til að mynda lykilorðið. Í lokin fengu þau yfirstrikunarpenna og gamlar bækur og fundu stafinn Ss og strikuðu yfir hann með pennanum.
Börnunum var skipt á þrjú borð. Á borði 1 var lykilorðavinna þar sem þau fengu renning af lykilorðinu, þau klipptu það niður og límdu í rétta röð á litaðan pappír. Á borði 2 voru nokkur púsl af forsíðunni og þau skiptust á að pússla. Á borði 3 var 1, 2 og 6 þar sem þau notuðu tening til að kasta til að finna orð í bókinni með jafn mörgum stöfum og punktanir segja til um. Sem dæmi ef þau finna orðið ég þá er það tveir stafir og þau skrifa það á viðeigandi línur.
Spákonan sem spáir fyrir um innihald/framhald/ hvað ef... (verkfæri í gagnvirkum lestri) var kynnt fyrir börnunum, þar næst voru sögupersónurnar skrifaðar upp á töflu og þau völdu sér eina persónu og teiknuðu hana á hvítt blað og lituðu. Í lokin sögðu nokkrir frá persónunni sinni og spáðu fyrir um hvað myndi koma fyrir persónuna næst í sögunni.
Leikstöð, púsl, spil og Tulipop myndir til að lita. Farið var yfir að hér fengu allir að vinna saman og leika.
Fimm borð voru sett saman, stólar sitthvoru megin og rúlla af hvítum pappír yfir borðin. Börnin settust á stól og teiknuðu mynd í þrjár mínútur. Eftir þrjár mínútur færðu þau sig á næsta stól við hliðina og héldu áfram að teikna myndina sem var fyrir framan þau. Hvert barn fór allan hringinn og úr varð skemmtilegt sameiginlegt listaverk.
Hér eru notaðir teningar en einnig er hægt að hafa spilastokk. Nemendur skiptast á að kasta tveimur teningum. Finna orð í bókinni með jafnmörgum stöfum og talan sem kom upp á teningnum og skrifa orðið. Þegar börnin verða eldri er hægt að hækka töluna upp hærri töluna upp í 9. Tengingar eiga til að skapa hávaða sem sumum börnum finnst erfitt við þær aðstæður er hægt að nota spilastokk þar sem nemendur draga spil. Þegar þau hafa dregið spil og skrifað orð sem samsvarar tölunni á spilinu þá fer það í annan bunka ( ás til sex eða níu).
Í sóknarskrift skrifar barn með stuðningi fyrirmyndar. Verklagið er þá þannig að orðalisti úr textanum sem verið er að vinna með er hengdur upp fjarri skólaborðum barnanna. Börnin ganga að listanum, lesa orð og leggja rithátt þess á minnið. Ganga í sætið sitt og skrifa orðið. Markmiðið er að sækja alltaf bara eitt orð í einu. Hægt að hafa misþung orð og málsgreinar fyrir lengra komna. Hugsunin er að barnið sé að sækja í fyrirmynd eða stuðning til að byggja upp eigin færni í ritun.
Sóknarskrift eflir:
uppbyggingu setninga,
stafsetningu og málfræði,
form og framsetningu ritmáls.
Börnin fengu að leika sér frjálst með stafina í skóginum, þau skrifuðu nöfnin sín, orð úr bókinni og leituðu af stöfunum sínum og vina sinna.
Frauðstafirnir eru vatnsheldir og litríkir svo það er auðvelt að finna þá í náttúrunni og þeir skemmast ekki í snjónum,
Með því að smella á Gló opnast skjal með myndum af persónum úr bókinni og bókstöfunum sem lögð var áhersla á í verkefninu.
Skjalið er hægt að prenta út, klippa myndirnar út, plasta og hengja upp víða í skóginum.
Tilvalið tækifæri til að æfa afstöðu- og staðsetningarhugtök, eins og til dæmis ofar, neðar, bakvið, við hliðina á, undir, uppi og niðri.
2 bollar hveiti
3 msk olía
1 bolli volgt vatn
Matarlitur (má sleppa, við gerðum það)
Mælið tvo bolla af hveiti og setjið þá í skálina, hrærið þremur matskeiðum af olíu saman við. Sjóðið vatn og setjið einn bolla af því rólega út í hveitiblönduna þangað til deigið verður hæfilega þykkt. Þegar þið hafið hnoðað deigið þangað til það verður að góðum deigbolta sem klístrast ekki við hendurnar á ykkur er það tilbúið.