Flökkusaga er hjartnæm saga um fjölbreytileikann, fordóma, söknuð og vináttu, skrifuð af Láru Garðarsdóttur. Bókin er ein af þessum frábæru barnabókum sem hægt er að vinna með á ótal vegu og því varð hún fyrir valinu í seinni þemavinnu vetrarins.
Í Safnahúsi Húsavíkur er að finna ísbjörn sem gekk á land í Grímsey árið 1969. Það var því tilvalið að heimsækja safnið með barnahópnum og fá að skoða ísbjörninn. Saga ísbjarnarins vakti athygli barnanna en í ljós kom að Óli, drengur á þeirra aldri, var fyrstur til að sjá ísbjörninn. Eftir nokkra rannsóknarvinnu kom í ljós að drengurinn sem nú er orðinn fullorðinn býr á Akureyri. Haft var samband við hann og var hann tilbúinn til að svara spurningum barnanna um atburðinn. Börnin bjuggu því til spurningar og sendu Óla bréf og fengu svar til baka. Bréf barnanna og spurningar má sjá neðar á síðunni.
Að tengja nám við raunverulegan atburð, eins og komu ísbjarnarins til Grímseyjar, eykur forvitni og dýpkar skilning barnanna á viðfangsefninu.
Þemavinnan var unnin í skiptiheimsóknum þar sem að börnin á elstu deild leikskólans og börnin í fyrsta bekk heimsóttu hvert annað og Safnahúsið og unnu saman fjölbreytt og skapandi verkefni sem öll miðuðu að því að efla tengsl, læra um náttúru og samfélag og vinna með læsi í víðum skilningi.
sagt frá helstu einkennum ísbjarna, heimkynnum þeirra og lifnaðarhátta
rannsakað uppruna ísbjarnarins á Safnahúsinu á Húsavík og tengt uppruna hans við nærumhverfi sitt
skrifað bréf til að afla upplýsinga
þekkt og nefnt stafina Íí og Bb og þekki hljóðin þeirra
geti klappað og talið atkvæði í orðum
geti notað forritið Osmo words til að æfa sig í umskráningu
Leikurinn er ein mikilvægasta námsleið barna í leikskóla. Í leiknum fá börn að prófa sig áfram, þróa hugmyndir, æfa samskipti og byggja upp skilning á heiminum í kringum sig. Leikurinn stuðlar að félagslegum, tilfinningalegum, mállegum og vitsmunaþroska barna og veitir þeim tækifæri til að læra á eigin forsendum í örvandi og merkingarbæru samhengi. Með því að vinna markvisst með leik sem kennsluaðferð er byggt á styrkleikum barna og áhuga þeirra.
Leikur er áberandi í aðferðum Byrjendalæsis sem er umgjörð um læsiskennslu á yngsta stigi grunnskólans. Í Byrjendalæsi er lögð áhersla á að unnið sé jöfnum höndum með alla þætti tungumáls; lestur, hlustun, tal og ritun í gegnum heildstæð og áhugaverð viðfangsefni. Barnabækur og aðrir rauntextar gegna lykilhlutverki sem uppspretta fjölbreyttra viðfangsefna og námstækifæra hvort heldur sem er á fyrstu stigum lestrarnáms eða þegar nemendur eru komnir vel á veg.
Í verkefninu Lítil skref til læsis er lagt upp með að tengja og byggja á styrkleikum beggja skólastiga og flétta þeim saman.
Flökkusaga fjallar um ísbirnina Ísold og mömmu hennar sem neyðast til að flýja heimkynni sín og leita á nýjar slóðir. Í bókinni eru margir áhugaverðir þræðir sem hægt er að vinna með og vekja áhuga barna á mörkum leik- og grunnskóla, einn þeirra er vinátta ísbjarnar og skógarbjarnar sem eru á svo margan hátt líkir en líka ólíkir. Læsisvinnu út frá bókinni má auðveldlega samþætta með bæði náttúruvísindum og samfélagsfræði, auðvelt er að tengja söguna reynsluheimi barnanna og nærumhverfi barnanna en á Húsavík er hægt að skoða ísbjörn í Safnahúsinu.
Í Byrjendalæsi er lagt upp með að viðfangsefni barnanna í læsisnámi séu áhugaverð og að nemendur geti á einhvern hátt tengt við þau því fannst kennurum upplagt að fara á Safnahúsið og skoða ísbjörninn sem þar er og rannsaka sögu hans. Í ljós kom að ísbjörninn var skotinn í Grímsey í janúar 1969. Saga ísbjarnarins er áhugaverð en það var ungur drengur sem var að reka kindur á beit sem fyrstur varð var við ísbjörninn á eyjunni. Hann taldi sig vera horfa á hest sem var á þessum tíma í eynni og var frekar ljós á litinn. Við nánari sýn sá hann að svo var ekki og flýtti sér heim og lét pabba sinn vita. Pabbi hans hélt til að byrja með að þetta hlyti að vera hesturinn en drengurinn gaf sig ekki og heimamenn lögðu af stað vopnaðir og felldu dýrið. Ísbjörninn var fluttur til Húsavíkur og stoppaður upp og er hann á Safnahúsinu á Húsavík.
Umsjónaraðilar verkefnisins höfðu samband við drenginn sem fann ísbjörninn á sínum tíma sem í dag er að sjálfsögðu orðinn fullorðinn maður og fengu leyfi hans til að senda bréf með spurningum varðandi þetta ævintýri. Með aðstoð kennaranna skrifuðu þau bréf með mörgum góðum spurningum sem Óli, ísbjarnardrengurinn svaraði skýrt og hnitmiðað. Börnunum fannst svolítið skrýtið að hann væri orðinn fullorðinn og ætti börn og barnabörn. Það vakti jafn mikla hrifningu hjá bæði ungum sem fullorðnum að fá tækifæri til að heyra um þessa lífsreynslu frá fyrstu hendi.
Hér má sjá bréfaskriftir á milli barnanna og Óla, virkilega flottar spurningar hjá börnunum sem varpa ljósi á hvað gerðist þegar ísbjörninn gekk á land.
Í síðustu skiptiheimsókninni tók safnvörður á móti hópunum í Safnahúsinu á Húsavík og sýndi þeim ísbjörninn og fræddi börnin um sögu hans.