Lítil skref á leið til læsis er samstarfsverkefni leik- og grunnskóla Húsavíkur og Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Verkefnið snýst um að byggja brú milli skólastiga og styðja við læsisnám barna frá leikskóla yfir í grunnskóla. Þema verkefnisins er læsi og er það rauði þráðurinn í öllu þróunarstarfinu. Í verkefninu er einnig lögð áhersla á að efla tengsl heimila og skóla og styðja fjölskyldur í að taka virkan þátt í læsisnámi barna.
efla læsisnám barna í leik- og grunnskóla Húsavíkur
auka fræðslu, stuðning og samstarf við foreldra
styrkja samvinnu kennara á mótum skólastiga
skapa samfellu í leik, námi og starfi barna frá leikskóla til grunnskóla
Stærsti hluti verkefnisins eru skiptiheimsóknirnar en þær fara þannig fram að elsta árganginum á leikskólanum er skipt í tvo hópa sem og nemendum 1. bekkjar. Yfir tveggja vikna tímabil skiptast hóparnir á að heimsækja hvorn annan . Fjórar skiptiheimsóknir eru yfir þetta tveggja vikna tímabil og fær því hver nemandi að vera gestur tvisvar sinnum og svo gestgjafi tvisvar. Hér má lesa meira um skiptiheimsóknirnar.
Hér að neðan má sjá bækurnar sem unnið var með í hverri skiptiheimsókn og nákvæma lýsingu á hvernig verkefni voru lögð fyrir.
Í mörg ár hefur verið vorskóli þar sem verðandi nemendur 1. bekkjar koma í heimsókn í grunnskólann og fá að taka þátt í daglegu starfi hans.