Lítil skref á leið til læsis er þróunarverkefni leik- og grunnskóla Húsavíkur, Borgarhólsskóla og Grænuvalla, í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðherra árið 2024 og frá Sprotasjóði árið 2025.
Verkefnið byggir á fjórum stoðum og miðar að því að efla læsisnám barna, skapa samfellu í námi og barna á mörkum leik- og grunnskóla, styrkja samvinnu kennara á leik- og grunnskólastigi og auka fræðslu, stuðning og samstarf við foreldra. Hægt er að lesa meira um stoðirnar hér fyrir neðan.
Í þróunarverkefninu Lítil skref á leið til læsis er lögð áhersla á að efla alla þætti læsis í gegnum merkingarbært nám þar sem samræður, leikur, sköpun og fjölbreytt verkefnavinna gegnir lykilhlutverki. Verkefnið miðar að því að skapa samfellu í læsisnámi frá leikskóla yfir í grunnskóla þar sem kennsluaðferðir hvors skólastigs fléttast saman og fá að njóta sín. Áhersla er lögð á heildstæða nálgun í læsisnámi þar sem samræða, tjáning, hlustun, lestur, mál- og lesskilningur, orðaforði og ritun fléttast saman í gegnum fjölbreytt verkefni sem eru merkingarbær og tengjast reynsluheimi barna og áhugamálum. Leikurinn einkennir læsisnámið í Grænuvöllum og í fyrstu bekkjum Borgarhólsskóla er kennt eftir Byrjendalæsi. Þessar tvær nálganir eiga sérlega vel saman og styðja vel hvor við aðra.
Smelltu á hnappana til að lesa meira um samstarfsverkefni skólaársins 2024-2025:
Verkefnið hefur vakið athygli í samfélaginu og fékk það liðstyrk frá Natascha Catharina Damen sjúkraþjálfara sem hefur tekið virkan þátt í þróunarstarfinu og komið að innleiðingu markvissrar fínhreyfiþjálfunar fyrir börnin bæði í leik- og grunnskólanum. Natascha hefur verið með fræðslu fyrir foreldra og kennara um mikilvægi fínhreyfinga fyrir ritun, hún hefur einnig lagt fínhreyfipróf fyrir börnin og í framhaldi verið með þjálfun og eftirfylgd fyrir þá sem hafa þurft á því að halda.
Ein af meginstoðum verkefnisins er að skapa samfellu í námi barna þegar þau flytjast frá leikskóla yfir í grunnskóla. Markmiðið er að gera börnum kleift að takast á við þessi tímamót af öryggi og að upplifunin sé ánægjuleg. Í verkefninu er lagt upp með markvissan undirbúning og að samræma áherslur milli skólastiga.
Niðurstöður skimana úr leikskóla, svo sem Hljóm-2, TRAS og MIO, eru nýttar á markvissan hátt til að tryggja að börn sem þurfa aukinn stuðning eða meira krefjandi verkefni fái það. Fyrrnefndar skimanir og kannanir eru lagðar fyrir í leikskóla og gefa kennurum vísbendingar um hvaða þætti þarf að vinna sértaklega með til að efla læsi barnanna í leikskóla og við upphaf grunnskóla. Lögð er rík áhersla á snemmtækan stuðning þar sem unnið er út frá bæði styrkleikum, áhuga og þörfum hvers barns. Í grunnskóla eru niðurstöður lesfimiprófa einnig nýttar til að greina þarfir barna og veita viðeigandi stuðning áfram í námi. Lögð verður sérstök áhersla á þennan þátt í þróunarstarfinu skólaárið 2025-2026.
Ein af afurðum verkefnisins er að vinna sameiginlega námskrá eða leiðarvísi sem nær yfir bæði leik- og grunnskólastig og tekur mið af námi 5 og 6 ára barna. Með þessu er tryggt að samfella sé í læsisstefnum og kennsluháttum skólastiganna og að kennarar beggja skólastiga vinni saman að sameiginlegum markmiðum og jöfnum tækifærum fyrir öll börn. Námskráin er í vinnslu en áhugavert er að skoða tímalínu verkefnisins til að fá betri yfirsýn yfir skipulagið.
Áratuga hefð er fyrir samstarfi milli Borgarhólsskóla og Grænuvalla með það að leiðarljósi að brúa bilið á milli leik- og grunnskóla. Með verkefninu Lítil skref á leið til læsis vildum við setja niður markvisst samstarf sem byggði á lærdómssamfélagi kennara og markmiðum úr læsisstefnum skólanna. Í verkefninu er lögð áhersla á að efla samstarf á milli skólastiga, ein leið til þess er að kennarar vinni meira saman í kennslu og við undirbúning hennar. Ákveðið var að vinna tvö þemaverkefni á fyrsta skólaárinu þar sem að aðferðir Byrjendalæsis, sem unnið er með í 1. bekk, fléttuðust saman við leikinn sem er aðalnámsleið leikskólabarnanna. Í þemaverkefnunum var unnið út frá gæðatexta úr barnabókum. Heimsóknir barnanna á milli skóla fengu heitið skiptiheimsóknir og fóru þær fram á tveggja vikna tímabili á haustönn og aftur á vorönn.
Smelltu hér til að lesa meira um samstarf kennara í leik- og grunnskóla
Í verkefninu Lítil skref á leið til læsis er lögð rík áhersla á öflugt samstarf heimila og skóla. Foreldrar fá fræðslu um málörvun og læsi, fínhreyfingar, ritun og jákvæðan aga. Fundirnir eru einnig vettvangur fyrir samtal og tengslamyndun milli foreldra og starfsfólk skóla.
Fyrirkomulag fundanna er þannig að foreldrum og forráðamönnum elsta árgangs leikskólans og fyrsta árgangs grunnskólans er boðið á fræðslufundi einu sinni á önn. Lögð er áhersla á aðferðir sem styðja við læsisnám barnanna og hægt er að nota á einfaldan hátt í daglegu lífi fjölskyldunnar. Fundirnir eru alls fjórir og dreifast yfir skólaárin tvö, þegar börnin eru elst í leikskóla og yngst í grunnskóla. Markmiðið er að byggja upp traust, mynda tengsl og skapa samfellu í námi barnanna – þar sem foreldrar fá tækifæri til að hittast og kynnast innbyrgðis en einnig til að hitta kennara barnanna bæði í leik- og grunnskólanum.
Á fundunum flytja kennarar og annað fagfólk stutt innlegg og þátttakendur taka þátt í stöðvavinnu sem veitir innsýn í kennsluhætti og viðfangsefni barnanna í leik- og grunnskólanum. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir samtal, tengslamyndun og samvinnu allra sem koma að barnahópnum.
Að nemendur:
auki orðaforða með fjölbreyttri verkefnavinnu
þjálfist í að tjá sig á fjölbreyttan hátt frammi fyrir skólafélögum sínum
fylgist með umræðum og taki þátt í þeim
hlusti á upplestur á textum og ljóðum
auki orðaforða og efli málskilning með fjölbreyttri verkefnavinnu
kynnist hugtökunum; höfundur, aðalpersóna og söguþráður
læri/kynnist stafrófinu
Að nemendur:
þekki skriftaráttina
þjálfist í fínhreyfingum
læri rétt grip um skriffæri
læri að skrifa nafnið sitt
Verkefnið Lítil skref til læsis hefur eflt samstarf milli leik- og grunnskóla á Húsavík. Samstarfið byggir á traustri hefð en með tilkomu þróunarverkefnisins hefur samstarfið orðið markvissara og formfastara. Ákveðin vinnubrögð hafa fest sig í sessi og er það mat þátttakanda að þær breytingar sem hafa verið gerðar á samstarfinu hafi tekist vel. Hluti af þróunarstarfinu felst í að ígrunda og leggja mat á þá vinnu sem unnin hefur verið og sjá þátttakendur strax tækifæri til að þróa samstarfið enn frekar á næsta skólaári.
Skiptiheimsóknirnar tókust sérlega vel og urðu til þess að börnin á elsta ári leikskólans kynntust starfi grunnskólans snemma á skólaárinu en þau heimsóttu grunnskólann í fjórum skiptiheimsóknum yfir árið, tóku þátt í þriggja daga vorskóla í maí og tóku þátt í ýmsum viðburðum í grunnskólanum. Þau sóttu einnig vikulega tónlistartíma í tónlistarskólanum sem staðsettur er í grunnskólanum. Kennarar sjá strax mikinn mun á hversu öruggari börnin eru í vorskólanum og einnig á sundnámskeiði sem umsjónarkennari 1. bekkjar kennir. Það er greinilegt að samveran og samstarfið í vetur hefur styrkt börnin. Börnin þekkja bæði húsnæði og umhverfi grunnskólans betur og hafa myndað tengsl við kennarana á yngsta stigi. Grunnskólabörn hafa einnig notið þess að heimsækja leikskólann og fá þar tækifæri til að vinna skemmtileg verkefni, hitta vini sína og gamla kennara og starfsfólk aftur.
Kennarar í leik- og grunnskóla hafa unnið saman að því að samræma kennsluhætti m.a. hvernig stafirnir eru kenndir og hvernig á að skrifa þá, oft hefur verið erfitt að leiðrétta það sem börnin hafa vanið sig á. Börnin sýna aukinn áhuga á stafanámi og í heimsóknum kenna eldri börnin þeim yngri – sem styrkir sjálfstraust þeirra og tengir árgangana saman.
Fínhreyfi- og gripstyrksþjálfun hefur skilað sýnilegum árangri og mikill styrkur af því að hafa sjúkraþjálfara með í verkefninu. Börn sem áður forðuðust að teikna og skrifa hafa með stuðningi sjúkraþjálfara, kennara og foreldra aukið færni sína og hafa nú gaman af því að tjá sig í gegnum ritun.
Að lokum hefur skapast gott samband á milli árganganna – börnin þekkjast betur og hafa tekið þátt í þemavinnu saman.
Í heildina hefur verkefnið tekist vel og stuðlað að jákvæðu og öflugu skólasamfélagi þar sem allir vinna saman að því að efla nám barnanna og velferð.
Verkefnið Lítil skref til læsis hefur hlotið styrk úr Sprotasjóði fyrir skólaárið 2025–2026, styrkurinn gefur tækifæri til að dýpka og þróa starfið enn frekar. Áhersla verður áfram lögð á samfellu í læsisnámi og snemmtækan stuðning fyrir börn á mörkum leik- og grunnskóla, samstarf á milli skólastiga og öflugt samstarf og fræðslu varðandi læsismál fyrir heimilin.
Natascha Catharina Damen, sjúkraþjálfari, mun halda áfram vinnu sinni með börn í fínhreyfiþjálfun. Hún mun einnig bæta við fleiri árgöngum í leikskólanum og styðja við þróun verkefna sem tengjast hreyfiþroska og undirbúningi fyrir skrif og ritun.
Arna Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri stoðþjónustu í Borgarhólsskóla og Jenný Gunnbjörnsdóttir frá Miðstöð skólaþróunar munu bætast í hópinn næsta vetur og koma að skipulagi og verkferlum fyrir börn sem þurfa meiri stuðning. Með því er unnið að því að styrkja verklag og tryggja markvissa og samfellda þjónustu fyrir börn með fjölbreyttar þarfir.
Í verkefninu er áfram stefnt að því að vinna að öflugu og samræmdu skólastarfi þar sem mál og læsi og samstarf allra í skólasamfélaginu er í forgrunni.