Í skólaþróunarverkefninu Lítil skref á leið til læsis er lögð rík áhersla á öflugt samstarf heimila og skóla. Foreldrum og forráðamönnum barna elstu deildar leikskólans og í 1. bekk er boðið á fræðslufundi einu sinni á önn þar sem þeir fá fræðslu um málörvun og læsi, fínhreyfingar og ritun, jákvæðan aga og fræðslu um hvernig þeir geta stutt við nám barnanna í gegnum samveru, samræður, leiki og skemmtilega verkefnavinnu. Á fundunum hlusta þátttakendur á innlegg frá fyrirlesurum og kennurum skólanna og taka þátt í stöðvavinnu sem veitir þeim innsýn í kennsluhætti skólanna og þau verkefni sem börnin eru að fást við.
Fræðslufundirnir eru í heildina fjórir og ná yfir þau tvö skólaár sem marka þau tímamót þar sem börnin eru elst í leikskólanum og yngst í grunnskólanum. Fundirnir eru auglýstir í skólunum og eru allir í skólasamfélaginu velkomnir á þá.
Markmið fundanna er að er skapa vettvang fyrir samtal og tengslamyndun allra þeirra sem koma að barnahópnum – foreldra og forráðamanna, kennara og starfsfólks skólanna. Á fundunum gefast tækifæri til að ræða hugmyndir, spyrja spurninga og miðla leiðum sem styðja við læsisnám barna.
Tveir fundir voru haldnir með foreldrum/forráðamönnum barna í leik- og grunnskóla skólaárið 2024-2025. Lagt var upp með að fundirnir væru með fræðilegu innleggi sem tengdist þróunarverkefninu en einnig að foreldrar/forráðamenn fengju að gera æfingar/verkefni sambærileg þeim sem börnin vinna í skólunum í tengslum við verkefnið.
Á fræðslufundi októbermánaðar fjallaði Íris Hrönn frá Miðstöð skólaþróunar við HA um málörvun og hvernig heimilin geta stutt við málþroska barna með einföldum en áhrifaríkum aðferðum. Auk þess fjallaði Natascha Catharina Damen sjúkraþjálfari um fínhreyfingar, tengsl þeirra við ritun og mikilvægi þess að vinna með þær jafnt og þétt frá unga aldri.
Að loknum fræðsluerindum fengu foreldrar og forráðamenn að spreyta sig á ýmsum verkefnum tengdum málörvun og fínhreyfingum. Æfingarnar endurspegluðu verkefni sem börnin vinna í skólanum og er jafnframt hægt að nýta heima.
Á fræðslufundi febrúarmánaðar var fjallað um jákvæðan aga sem er agastefna skólanna, Kolbrún Ada deildarstjóri úr Borgarhólsskóla sagði frá leiðum til að efla samskipti og búa börnum uppbyggilegt og hvetjandi umhverfi, bæði heima og í skóla. Í kjölfarið var kynning frá Önnu Sigrúnu frá Miðstöð skólaþróunar við HA á Byrjendalæsi sem er heildstæð nálgun í kennslu læsis sem unnið er með í 1.-3. bekk í Borgarhólsskóla. Í Byrjendalæsi er málörvun, lestur og ritun samþætt í gegnum leik, sköpun og merkingarbær verkefni.
Að lokinni fræðslu fengu þátttakendur tækifæri til að prófa ýmis verkefni tengd Byrjendalæsi. Æfingarnar voru tengdar kennsluáætlun Flökkusögu sem unnin var með skiptiheimsóknum skólanna í tengslum við þróunarverkefnið.
Þessum bæklingi var dreift eftir fyrri fundinn.
Þessum bæklingi var dreift eftir seinni fundinn.
Að loknum fræðslufundunum var lögð könnun fyrir foreldra/forráðamenn. Niðurstaða hennar var að foreldrar/forráðamenn voru ánægðir með fundina og efni þeirra. Þeim fannst sérstaklega gagnlegt að fá að gera sömu æfingar/verkefni og börnin þeirra gera í leik- og grunnskólanum.
Takk fyrir vinnuna að bjóða upp á og halda þessa vinnustofu.
Frábært verkefni!
Fræðslan frá Natascha var áhugaverð - um hvað það skiptir miklu máli að skrifa með höndunum og áhrifin sem það hefur.
Erfitt að velja hvað var áhugaverðast en Osmo var mjög áhugavert og að fá hugmyndir af leiðum til að auka orðaforða í hversdagsleikanum.
Frábær fræðsla! Meira svona!
Stöðvavinna og hands on frekar en fyrirlestrar fannst mér frábært.
Fræðslan var fín. Fannst gott að sjá hvað barnið mitt er að vinna með í skólanum.
Ég myndi vilja fá meiri fræðslu um fleiri verkefni sem eru unnin í skólanum. Skemmtilegt að fá að prófa og fá fræðslu um leið. Alveg frábært.