Rétt eins og börn læra að ganga áður en þau geta hlaupið, þurfa þau að þjálfa fínhreyfingar áður en þau geta skrifað. Fínhreyfingar skipta miklu máli í þroska ungra barna og þróast stig af stigi, meðal annars með því að teikna mismunandi form sem verða flóknari með aldrinum. Með aukinni færni styrkist hreyfigetan smám saman. Góðar skriftarvenjur byggjast á hæfni barnsins til að halda á og stjórna blýantinum á markvissan og öruggan hátt. Þó að þetta virðist gerast eðlilega hjá sumum börnum, þá er það ekki raunin hjá öllum. Mörg börn þurfa markvissa þjálfun til að ná þessari færni.
Skriftarfærni og fínhreyfingar barna hafa dalað á síðustu árum, ekki síst vegna aukinnar skjánotkunar. Til að fá betri innsýn í stöðu barnanna var Natascha Catharina Damen, sjúkraþjálfari með meistaragráðu í barnasjúkraþjálfun, fengin til liðs við verkefnið. Hún lagði fínhreyfipróf fyrir öll börnin á elstu deild leikskólans og í fyrsta bekk grunnskólans og greindi styrkleika og veikleika hvers og eins. Í sumum tilvikum kom í ljós að þörf var á sérhæfðri sjúkraþjálfun til að efla ákveðna færniþætti.
Natascha útbjó markviss þjálfunarverkefni fyrir leikskólabörnin með það að markmiði að byggja upp nauðsynlega fínhreyfigetu áður en hefðbundin skriftarkennsla hefst og sérhönnuð verkefni fyrir fyrsta bekk til að þjálfa fínhreyfingar samhliða skriftarnáminu.
Styrkur í höndum og fingrum
Nauðsynlegur til að framkvæma stýrðar hreyfingar með blýanti, s.s. við teikningu og skrift.
Styrkur í efri hluta líkamans
Góður styrkur í efri hluta líkamans hjálpar börnum að stjórna handahreyfingum betur og kemur í veg fyrir bakvandamál og óæskilega líkamsstöðu eins og að hanga yfir borð.
Samhæfing augna og handa
Hæfni til að vinna úr upplýsingum sem augað nemur og stýra hreyfingum handanna samkvæmt því.
Tvíhliða samþætting
Að nota tvær hendur saman við verkefni, t.d. að halda blaði með annarri hendinni á meðan hin skrifar eða teiknar.
Að fara yfir miðlínuna
Geta til að teikna eða skrifa yfir miðlínu líkamans án þess að hreyfa blaðið – bendir til góðrar hreyfistjórnunar og líkamsvitundar.
Blýantsgrip
Aldursviðeigandi grip á blýanti styður við nákvæmar hreyfingar og rétt álag á blaðið.
Meðhöndlun innan handar
Hæfni til að færa hluti innan handarinnar sjálfrar.
Sjónræn skynjun og hreyfisamþætting
Hæfni heilans til að túlka það sem augað sér, t.d. að þekkja stafi og tölur, greina mun á b og d og geta endurgert form eða stafi rétt.
Rýmissjón
Hæfni til að skynja bil, staðsetningu og stefnu stafa á blaði. Hæfni tl að gera réttar hreyfingar þegar stafir eru skrifaðir.
Guðbjörg R. Þórisdóttir læsisráðgjafi hjá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu hélt fræðsluerindi í apríl 2024, um gildi skriftar og skriftarkennslu á tímum upplýsingatækni, fyrir grunnskólakennara sem kenna á yngsta stigi. Í erindinu kynnti hún niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á mikilvægi skriftarkennslu fyrir lestrar- og ritunarnám ungra barna. Niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið sýndu m.a. fram á að:
Börn sem handskrifa virkja sömu svæði í heila og eru virk við lestur og ritun en það átti ekki við um börnin sem voru látin vélrita/skrifa á lyklaborð. Leiðin að nákvæmri bókstafsþekkingu virðist því liggja í því að forma bókstafi handvirkt (virkjun vöðvaminnis). James og Engelhardt (2012)
Að skrifa bókstafi með skriffæri styrkir skynjun nemenda á formi þeirra og hefur jákvæð áhrif á lestur og stafsetningu. Hvernig? Stafdráttur er mikilvægt ílag sem hjálpar til við skynjun á ólíkum bókstafsformum sem greiðir fyrir myndun tengsla milli bókstarfs, hljóðs og orða. Beringer (2012)
„Niðurstaða okkar er sú að skrift með blýanti styður fremur við bókstafsnám og eykur rýmisgreind (e. visiospatial skills) en notkun lyklaborðs.“ Mayer, Wallner, Budde-Spengler, Braunert, Arndt og Kiefer (2020)
Áhersla á skriftarfimi getur haft áhrif á grunnfærni í lestri eins og endurþekkingu bókstafsheita og hljóða og lykilþætti ritunar eins og að setja saman texta. Ray, Dally, Rowlandson, Tam og Lane (2021)
Æfið að lita innan lína
Nota plokkara/flísatöng til að
taka upp litla hluti
Perla
Leika með litla hluti og mega
bara nota þumal og vísifingur til
að taka þá upp (Ef það er erfitt
þá látið þau hafa eitthvað til að
halda á með hinum þremur
fingrunum)
Á vefnum er hægt að finna mikið magn æfinga sem þjálfa fínhreyfingar, dæmi um slíkar æfingar má sjá hér fyrir neðan. Hér eru nokkur leitarorð sem hægt er að nota til að finna verkefni:
Dot to dot drawings
Maze drawing game
Follow the lines pre drawing
Copying shapes pre drawing
Pencil control drawing exercises