Það var skemmtilegt fyrir árgangana að lesa sömu bækurnar og koma svo saman til að vinna að sameiginlegum verkefnum.
Áhuginn á hljóðum og heiti stafanna var mikill og fannst þeim sértaklega gaman að búa til orð úr stöfunum sem lagðir voru inn.
Gott var að samræma á milli skólastiga hvernig stafirnir eru kenndir og hvernig á að skrifa þá, oft hefur verið erfitt að leiðrétta það sem börnin hafa vanið sig á.
Börnin uxu og efldust í hópavinnu og sérstaklega þegar eldri árgangurinn fékk tækifæri til að kenna og hjálpa þeim yngri. Að geta kennt öðrum það sem börn eru nýbúin að læra eykur sjálfstraust þeirra og tengir árgangana sterkari böndum.
Það var gaman að sjá öryggi yngri barnanna aukast með hverri heimsókn, þau voru dugleg að spyrja og biðja eldri börnin og kennara um aðstoð.
Fínhreyfiæfingar/gripæfingar skiluðu miklum árangri þar sem kennararnir og börnin urðu meðvitaðari um grip og stöðu handar þegar skrifað er. Fínhreyfiprófin hafa komið sterkt inn og gert kennurum kleift að finna strax þau börn sem þurfa aukaþjálfun. Sjúkraþjálfari sá um þjálfun barnanna og var ánægjulegt að sjá að börn sem áður komu helst ekki nálægt litum og blöðum hafa styrkst mikið og eru orðin áhugasöm um að teikna og skrifa. Þjálfunin er unnin í samstarfi við heimilin og bæði kennarar og foreldrar finna mikinn mun á börnunum.
Það er löng hefð fyrir góðu samstarfi milli skólanna og með þessu verkefni hafa þau bönd styrkst enn frekar, samstarfið varð markvissara, er orðið fastara í sessi og auðvelt er fyrir kennara sem taka við árgöngunum að halda samstarfinu áfram.
Reglulegir fundir leik- og grunnskólakennara í vetur hafa aukin skilning kennara á báðum skólastigum á námsefni og kennsluháttum beggja skólanna og myndað betri samfellu á milli stiga.
Samstarfið auðveldar flutning leikskólabarnanna upp á nýtt skólastig þar sem þau þekkja grunnskólann orðið vel þegar þau byrja í 1. bekk og jafnvel kennarana líka.
Börnin fara í fjórar skiptiheimsóknir í grunnskólann yfir árið, Vorskóla í þrjá daga í maí og auk þess er þeim boðið reglulega á uppákomur í sal. Einu sinni í viku á vorönn fara þau í tónlistartíma í tónlistarskólann sem staðsettur er í grunnskólanum.
Skiptiheimsóknirnar juku öryggi barnanna og stuðluðu að betri líðan. Vorskólinn hefur verið fastur liður í samstarfi skólanna til nokkurra ára og sáu kennarar mikinn mun á börnunum í ár. Öryggi þeirra hafði aukist mikið eftir skiptiheimsóknirnar í vetur, þau mættu tilbúin og óhrædd, þau þekktu vinnubrögðin og hlökkuðu til að vinna verkefnin.
Það er gaman fyrir fyrstu bekkinga að koma í heimsókn í leikskólann aftur og ekki síður fyrir kennarana að hitta börnin aftur sem yfirleitt hafa stækkað og þroskast heilmikið á þessum mánuðum milli útskriftar og fyrstu skiptiheimsóknar.
Börnin í fyrsta bekk voru mjög dugleg og hjálpsöm við leikskólabörnin með námsefnið og sýndu þeim kurteisi og þ.a.l. varð samvinna og félagsfærni barnanna betri.
Samstarf heimila og skóla hefur eflst í tengslum við verkefnið. Foreldrar fengu tækifæri til að koma með hugmyndir af fræðslu sem þau vildu fá og reynt var að koma til móts við óskir þeirra. Foreldrar sem mættu á fræðslufundina voru ánægðir með skipulagið og þau viðfangsefni sem tekin voru fyrir. Foreldrar upplifa sig öruggari og betur upplýsta um hvernig lestrarnám barna í fyrsta bekk fer fram og hvað þeir geta gert til að styðja við mál og læsi barnanna sinna. Börnin voru einnig mun öruggari í vorskólanum eftir fyrsta árið í þróunarstarfinu en áður, þau hafa fengið tækifæri til að kynnast Byrjendalæsi og voru t.d. spennt fyrir lykilorðavinnunni.
Kennarar og annað starfsfólk í grunnskólanum kynnist foreldrunum fyrr og foreldrar fá tækifæri til að heimsækja grunnskólann og mynda tengsl áður en börnin hefja grunnskólagönguna.
Aukin samvinna heimila og skóla skilaði sér þannig í betri líðan, sterkari tengslum og aukinni trú barnanna á eigin getu.