Kappakstursbíll

Verkefnið er að smíða farartæki sem knúið er af tuttugu, eða færri, 5 cm löngum gúmmíteygjum. Gerið tilraunir með hversu langt er hægt að láta farartækið fara úr kyrrstöðu. Ekki er leyfilegt að nota teygjurnar sem teygjubyssu.

Fyrst þarf að búa til nokkur hjól eða útvega kringlótt plastlok. Búið því næst til létta grind úr tré, plasti, pappír eða öðru stinnu efni. Notið granna díla sem öxla, og gangið úr skugga um að þeir snúist auðveldlega. Gerið tilraunir með hvernig orkan úr gúmmíteygjunum nýtist best.

Ábendingar

A. Gerið tilraunir með að setja teygjurnar saman á mismunandi hátt.

B. Smyrjið öxlana til að minnka viðnám.

C. Stór og létt hjól gera farartækið langdrægara.

Efni

Efni í bílinn skal vera endurunnið eða endurnýtt

Efnið í bílinn finnum við heima, í skólanum eða umhverfinu


Verkfæri

Við nýtum verkfæri í smíðastofunni

Verklýsing

1. Hönnun farartækisins er kjörinn vettvangur fyrir hópumræður um kosti stórra eða lítilla hjóla, áhrif þyngdar, samsetningu teygjanna o.s.frv. Hugmyndir sem lofa góðu ætti að rissa upp.

2. Hjólin má búa til úr gömlum hljómplötum eða dósalokum. Einnig má saga þau út úr masónítplötu eða krossviði. Nákvæm miðjusetning öxlanna minnkar viðnám.

3. Grindin er búin til úr eins léttu en stífu efni og mögulegt er. Áhugavert er að rannsaka sambandið milli lengdar bílsins og þess hversu langdrægur hann er. Því lengri sem bíllinn er þeim mun meira strekkist á gúmmíteygjunum en um leið verður bíllinn þyngri. Mikilvægt er að gera tilraunir með þetta og mæla árangurinn nákvæmlega.

4. Fyrir prófanir þarf slétta 40 metra langa braut. Þar sem erfitt getur verið að stýra farkostunum nákvæmlega er æskilegt að hafa gott rými til hliðanna. Eftir fyrstu prófun getur kennarinn gefið nemendum færi á að endurhanna bílinn.

5. Bíllinn þarf að vera tilbúinn á keppnisdag. Ekki má breyta bílnum eða virkni hans á keppnisdag.