Hannaðu útlitið á gestabókinni þinni. Veldu hvort þú ert með mynd eða útskurð.
Gestabækurnar mega vera fyrir A5 eða A4 blaðsíðustærð. Við skerum út, fræsum, eða laserskerum mynd og texta á forsíðuna, bindum saman blaðsíðurnar, og smíðum lamir úr tré.
Gestabókin má vera úr hvaða viðartegund sem er. Þú byrjar á að leita að efni sem hægt er að endurvinna í gestabókina þína.
Algengt er að finna gamla borðplötu því þær eru oft úr góðum gegnheilum við. Passa skal að viðurinn sé gallalaus, þurr og ósprunginn, og að efnið dugi til að gera framhlið og bakhlið bókakápunnar og lamir til að loka bókinni.
Hannaðu forsíðuna áður en þú formar hana. Hvort sem þú vinnur forsíðuna í höndunum eða lætur fræsivélina eða laserinn forma eða brenna fyrir þig myndir og letur þá verður að búa til vinnuteikningu sem við notum við smíðarnar.
Blaðsíðurnar í bókinni búum við til sjálf úr ljósritunarpappír. Aðferðin sem við notum er kölluð bókband og er í raun og veru einfaldlega að sauma saman blaðsíður. Í myndbaninu hér að neðan má sjá hvernig við saumum saman blaðsíðurnar.
Lamirnar smíðum við úr tré. Við mælum og sögum út lamirnar þegar við höfum lokið við bókbandið því við viljum að kápan lokist rétt og þétt að bókinni okkar.
Hér að neðan er myndband sem sýnir dæmi um lamir smíðaðar úr tré.
Yfirborð gestabókarninnar þarf að vera fallegt. Pússa þarf alla fleti og gera þá mjúka og slétta. Svo þarf að velja hvort gestabókin verði lökkuð, vaxborin eða olíuborin.
Klára þarf alla yfirborðsmeðferð áður en blaðsíðurnar eru festar í bókarkápuna.