Hönnun vikunnar
Hér að neðan má finna hönnunarverkefni sem þú mátt velja og leysa.
Fyrstu þrjú eru nýjustu verkefnin og þar fyrir neðan má finna eldri verkefni.
Alltaf skal gera vinnuteikningu og/eða fylgja fyrirmælum í hverju verkefni fyrir sig.
Góða skemmtun
Graskersdagurinn
26. október ár hvert er hefð að skera út og skreyta graskersljós, svokölluð jack-o-lanterns. Graskerið á rætur sínar úr írskum þjóðsögum um mann að nafni Stinky Jack, sem plataði djöfulinn með alls kyns hrekkjum. Út af hrekkjum sínum komst Stinky Jack hvorki til himna né heljar þegar hann dó því Guð vildi ekki þennan hrekkjalóm og djöfullinn launaði honum hrekkina með logandi kolamola og henti út úr helvíti. Þjóðsagan endar á því að vofa Stinky Jack gengur um sveitir landsins með þennan logandi kolamola í útskorinni næpu.
Fólk á Írlandi og Skotlandi skáru út svona ljós og settu út í glugga til að hræða í burtu vofuna Stinky Jack og aðra drauga. Innflytjendur tóku síðan hefðina með sér til Bandaríkjanna þar sem þau fundu út að betra var að skera út ljósin úr graskerjum en að nota næpur og kartöflur.
Verkefnið:
Hannaðu og teiknaðu hræðilegt (eða fyndið) grasker sem yrði fullkomið til að hræða burtu íslenskar vofur og drauga.
Frumkvöðullinn og uppfinningamaðurinn Thomas Edison
Thomas Edison lést 18. Október 1931. Edison var mikill hugsuður og uppfinningamaður og fékk einkaleyfi fyrir 1093 uppfinningar. Þetta er ennþá heimsmet í fjölda einkaleyfa frá einum einstaklingi. Edison fékk hugmyndir að bæði eigin uppfinningum og bætti líka aðrar eins og símann og ljósaperuna.
Verkefnið:
Googlaðu uppfinningar Edison og finndu eina sem þú vissir ekki að Edison hefði fundið upp.
Gætir þú bætt einhverja af þessum hugmyndum hans?
Teiknaðu skýringarmynd af þessari uppfinningu og hvernig þú gerir hana betri.
Halloween
Halloween á rætur að rekja til Keltnesku trúarhátíðarinnar Samhain. Fyrir 2000 árum fögnuðu keltar nýju ári þann 1. nóvember. Þessi dagur markaði enda sumars og uppskeru og upphaf á köldum dimmum vetri. Keltar trúðu því að kvöldið fyrir nýtt ár (31.október) yrðu skilin milli lífs og dauða óskýr og því mikilvægt að hræða drauga í burtu svo þeir kæmust ekki yfir í okkar líf. Prestar klæddust því í alls kyns búninga, oft með dýrahausum, og keltar fórnuðu svo dýrum og korni til að halda guðunum góðum og draugum í burtu. Síðan hefur þessi hátíð þróast og vaxið yfir í þessa nammihátíð sem við þekkjum.
Vissir þú að 25% af öllu sælgæti sem er selt í Bandaríkjunum er notað á Halloween? Allt þetta nammi kostar 484 milljarða króna – fyrir einn dag.
Verkefnið:
Hannaðu þitt eigið Halloween nammi sem þú myndir vilja fá á Halloween.
Teiknaðu bæði útlit og lýstu bragðinu.
Þú mátt líka teikna umbúðir ef namminu er pakkað inn.