Hæfniviðmið
Lykilhæfni
Hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar
Listir og handverk eru svo sterklega samtvinnuð daglegu lífi okkar að oft á tíðum erum við ekki meðvituð um tilvist þeirra og áhrif. Afrakstur lista og handverks einskorðast ekki við listviðburði, sýningar og verkstæði heldur er allt umhverfi okkar og daglegt líf mótað af listum og handverki. List- og verkgreinar geta auðveldað nemendum við lok grunnskóla að gera sér grein fyrir hvar áhugi þeirra liggur og átta sig á atvinnu- og námstækifærum innan starfs- og listnáms.
Í list- og verkgreinum þroska nemendur með sér sjálfstætt gildismat þar sem lögð er áhersla á að kynnast og njóta list- og verkmenningar. Þátttaka og þjálfun í gagnrýnni umræðu um handverk og listir veitir nemendum einnig aðgang að menningarorðræðu samfélagsins. Í skapandi starfi og lausnaleit getur nemandinn haft áhrif á umhverfi sitt og tekið þátt í að móta menninguna.
Megintilgangur með námi í list- og verkgreinum í grunnskóla er að allir nemendur kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verkkunnáttu, sköpunarkraft, samhæfingu hugar, hjarta og handar og margar, ólíkar tjáningarleiðir. Menntun í list- og verkgreinum getur stuðlað að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda. Þær eru vettvangur menntunar til sjálfbærni þar sem nemendur vinna með samábyrgð, tilfinningar sínar og annarra, samhengi við aðra menningarheima og eigið umhverfi og náttúru. Er það grunnur að velferð þeirra og virkni í mótun samfélagsins.
Sameiginleg hæfniviðmið:
Unnið sjálfstætt eftir vinnuferli frá hugmynd til lokaafurðar og greint frá mismunandi nálgun við vinnuna.
Hagnýtt þá sérhæfðu leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast á skapandi hátt og sýnt frumkvæði.
Tekið þátt í samvinnu með sameiginlegt markmið hópsins að leiðarljósi.
Skipulagt vinnu sína með sjálfbærni í huga.
Beitt þeirri tækni sem námsgreinin býr yfir á sjálfstæðan hátt.
Sett verkefni sín í menningarlegt samhengi.
Tjáð sig um verkefni sín með því að nota hugtök sem greinin býr yfir.
Sýnt frumkvæði í góðri umgengni og frágangi á vinnusvæði.
Metið eigið verk og annarra og rökstutt álit sitt með þeim hugtökum sem viðkomandi námsgrein býr yfir.
Sérhæfðari hæfniviðmið:
Beitt fjölbreyttum aðferðum og áhöldum greinarinnar við formun textílafurða.
Rökstutt eigið val á textílefni eftir viðfangsefni og efnisfræði.
Unnið með snið og uppskriftir, tekið mál, áætlað stærðir og efnisþörf.
Beitt skapandi og gagnrýnni hugsun í hönnun og textílvinnu.
Skreytt textílafurð á skapandi og persónulegan hátt.
Lagt mat á eigin vinnubrögð, sagt frá góðu handbragði, formi og hönnun og notað til þess viðeigandi hugtök.
Nýtt margvíslega miðla til að afla upplýsinga á gagnrýninn hátt um efni sem tengist textílsögu, hönnun og iðnaði.
Sagt frá vinnslu textílefna við mismunandi aðstæður og sett í samhengi við sjálfbærni og umhverfisvernd.
Valið aðferðir, efni og verkfæri við hæfi og sýnt rétta og ábyrga notkun verkfæra.
Sagt frá mikilvægi verkþekkingar í nútíma samfélagi.
Útskýrt hugmyndir sínar fríhendis- og með grunnteikningu.
Unnið sjálfstætt eftir verkáætlun og vinnuteikningu, útbúið efnislista og reiknað kostnað.
Framkvæmt flóknari samsetningar, s.s. samlímingu, töppun og skrúfun.
Hannað verkefni út frá efni, fagurfræði, tækni, umhverfi, notkun og endingu.
Sagt frá hvernig tækni er nýtt í atvinnulífinu.
Gert grein fyrir áhrifum nýsköpunar á umhverfi sitt og samfélag.
Greint vistvæn efni frá óvistvænum og haft sjálfbærni að leiðarljósi við vinnu sína, s.s. við efnisval.
Gert sér grein fyrir hvort og hvernig hægt er að endurnýja ýmsa hluti til að lengja líftíma þeirra.
Beitt viðeigandi vinnustellingum og notað réttan hlífðarbúnað og fjallað um vinnuvernd og hvers vegna reglur þar að lútandi eru settar.
Valið á milli mismunandi aðferða við sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir í fjölbreytta miðla.
Greint og beitt fjölbreyttum aðferðum og tækni.
Tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu og gagnrýni á samfélagið.
Sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun, tilraunir og samtal.
Skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðar á eigin ímyndunarafli og / eða rannsókn, myndrænt og/ eða í texta.
Notað orðaforða og hugtök til að tjá skoðanir sínar á myndlist og hönnun og fært rök fyrir þeim út frá eigin gildismati.
Gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar og sett hann í persónulegt, menningarlegt og sögulegt samhengi.