Plast
Plastefni eru gerfiefni sem hafa lágt bræðslumark sem gerir þau vinsæl og auðveld efni til hönnunar og smíða. Hægt er að hita plast og beygja það, hægt að bræða og forma meðan það er heitt, og hægt er að líma plöst saman.
Hvernig verður plast til?
Plast er ekki til í náttúrunni. Plast er búið til af mönnum, svokallað manngert efni eða gerfiefni.
Til eru margar gerðir af plasti. PET í plastflöskum, HDPE í flöskutöppum, ABS í bílainnréttingum og Legó kubbum, vínill í gólfefnum og regnfötum, nælon í fatnaði og svo mætti lengi telja.
Plast verður til sem hliðarefni þegar jarðgas eða jarðolía er hreinsuð. Jarðolíunni er blandað við sterka sýru og við það myndast svokallaðar fjölliður (e.polymer) sem eru langar keðjur af plasti. Ef við myndum skoða fjölliður (plast) í smásjá myndi það vera eins og að horfa á soðið spaghetti í potti.
Til að búa til 1 kíló af plasti þarf 2 kíló af olíu
Algengustu fréttir og umtal um plast er neikvætt
Við heyrum hve mikið er af plastrusli í umhverfinu okkar. Við heyrum oft hvað plast er hættulegt umhverfinu og náttúrunni. Við heyrum að plast brotnar ekki auðveldlega niður í náttúrunni og taki mörg hundruð ár að hverfa og eyðast. Vísindamenn segja að það taki 400 til 500 ár fyrir plast að brotna niður í náttúrunni.
Er plast gott?
Árið 1850 var ekki til neitt plast í heiminum. Þá voru notuð náttúruleg efni til að búa til alls konar hversdagslega hluti eins og greiður, leikföng, gleraugnaumgjörðir, hluti sem eru í dag gerðir úr plasti.
Áður en að plast var fundið upp var algengt að nota tré, málma, steina, dýrahorn og dýrabein í alla okkar hluti. Fílatennur voru sérstaklega dýrmætar og notaðar til að búa til hvítu nóturnar á píanó og billiard-kúlur, fullt fullt af billiardkúlum. Þegar fílar voru komnir í útrýmingarhættu fóru billiardkúluframleiðendur að leita að nýju efni til að búa til kúlur. Þeir buðu háar fjárhæðir í verðlaun fyrir nýja tegund af billiardkúlum. Þetta var árið 1863.
Á næstu árum unnu vísindamenn að því að finna lausn og komu að lokum upp með gerfiefnið fjölliður, sem við köllum plast í daglegu máli.
Það er talað um að ef plast hefði ekki verið fundið upp gætu fílar og skjaldbökur verið í útrýmingarhættu, jafnvel útdauð í dag.
Við getum því sagt að plast er gott vegna þess að það leyfði okkur að búa til hluti sem annars væru gerðir úr efnum og notkun þeirra gengi á náttúruna og dýraríkið.
Plast gerði hluti líka ódýrari og auðveldari í framleiðslu. Margt í nútímanum er svo algengt út af því það er úr plasti.
Verkefni:
Horfðu í kringum þig og skrifaðu niður 4 plasthluti plast sem þú sérð.
Í hvað er þessir hlutir notaðir?
Er það gott að þessir hlutir eru úr plasti?
Ef plast væri ekki til, úr hverju væru þessir hlutir?
Plast tegundirnar eru margar og hafa misjafna eiginleika. Sumt plast er mjúkt eins og plastpoki en annað er grjóthart eins og Legókubbur. Sumt plast brennur hratt og sumt brennur alls ekki.
Hörð plöst eru notuð í hluti sem eiga að endast. Símar, fjarstýringar, innréttingar, glös, heimilistæki og fleira.
Mjúk plöst eru mikið notuð í einnota plastumbúðir og pakkningar.
Fjöldaframleiðsla á plasthlutum hófst eftir seinni heimsstyrjöld, í kringum 1950. Framleiðslutækni sem kölluð er sprautumótun gerði plast að besta efni til að fjöldaframleiða alls kyns hluti ódýrt og hratt.
Eins og sést hér á myndinni er bræddu plasti sprautað í mót sem formar hlutinn.
Mótið lokast 2. bræddu plasti er sprautað inní mótið 3. plastið kólnar í mótinu 4. mótið opnast og pinnar ýta plastinu út.
Verkefni:
Skoðaðu einhvern plasthlut eins og leikfang. Getur þú séð hvort og hvernig þessi hlutur er formaður með sprautumóti?
Plast er búið til úr jarðolíu. Það þarf því ekki að veiða nein dýr til að búa til plast. Plast bjargaði því fílum og skjaldbökum frá útrýmingu.
Plast er líka gott til að fjöldaframleiða alls kyns hluti á ódýran hátt.
En hvernig gat plast bjargað náttúrunni og síðan orðið hættulegt fyrir náttúruna?
Einn af eiginleikum plastefna er hve lengi þau endast. Enginn veit nákvæmlega hve lengi plast endist, vísindamenn telja að það geti enst í mörg hundruð ár. Þess vegna er plast svo gott í alls kyns hluti sem við notum dags daglega. Við eigum þessa hluti í mörg ár. Fyrstu Legó-kubbarnir sem voru búnir til eru ennþá til og þeir eru bara í fínu lagi.
Lífrænir hlutir brotna niður. Þeir eru étnir af bakteríum, myglu eða ormum og flugum, og/eða leysast upp og verða aftur hluti af náttúrunni. Plast er hins vegar gerfiefni og verður ekki aftur hluti af lífríkinu og náttúrunni.
En þótt að plast brotni ekki niður eins og lífrænt efni þá endist plasthlutur eins og sjónvarpsfjarstýringin ekki í mörg hundruð ár.
Alls kyns íblöndunarefni "leka" úr plastinu og þá missir plastið eiginleika sinn. Algengast er að mýkingarefni sem gera plast sveigjanlegt þorni og þá verður plastið brothætt og molnar og brotnar. Eins og brauðsneið sem við geymum á borðinu í nokkra daga þornar og verður brothætt eins og kex.
Fjarstýringin molnar því niður með tímanum, en af því plastið sem notað var til að búa til fjarstýringuna er gerfiefni þá hverfur það ekki.
Örplast
Vandinn með plast er að þegar það brotnar niður þá hverfur það ekki heldur verður að örplasti (míkróplasti). Örplast er eins og plast-ryk eða pínu pínu litlar plastkúlur. Örplast safnast upp í vöðvum og vefjum lífvera og er talið að það valdi krabbameinum og sjúkdómum.
Enduvinnsla og endurnýting
Ein leið til að sporna við plastvanda heimsins er endurnýting og endurvinnsla. Einnota innkaupapokar eru mjög endingagóðir. Það er merkilegt að þeir séu kallaðir einnota því við getum átt þá í nokkur hudruð ár. Þess vegna er mikilvægt að nýta þá vel. En um leið og við höfum engin not fyrir þá er mikilvægt að flokka þá á réttan hátt svo að aðrir geti endurnýtt þá eða endurnotað.
Verkefni:
Safnaðu ÖLLU plasti sem heimilið þitt hendir. Með öðrum orðum, skolaðu og settu í sér ruslapoka (úr plasti) allt plast og plastumbúðir sem safnast upp á heimilinu í sjö daga.
Viktaðu pokann þegar vikan er liðin.
Hvað er plastrusl heimilisins þungt?
Margfaldaðu töluna með 52. Þá færðu út þyngdina sem heimilið þitt gæti hent af plasti á einu ári.
Einnota eða fjölnota
Vandinn við plast er ekki plastið sjálft heldur hvernig við notum það. Plastmengun er að miklu leyti komin til vegna þess að við notum plastið bara einu sinni. Talið er að helmingur af öllu plasti sem er búið til verði bara notað einu sinni og svo hendum við því.
Innkaupapoki úr plasti:
Hve lengi í mínútum notum við hvern einnota innkaupapoka?
Hve lengi endist einnota innkaupapoki?
Fimm hlutir sem þú getur gert strax í dag gegn plastmengun landvernd.is
Hættum að nota einnota hluti eins og plastglös og plasthnífapör.
Afþökkum einnota hluti og segjum öðrum frá af hverju við afþökkum.
Kaupum minna af óþarfa og sleppum því að kaupa dót úr plasti sem endist ekki lengi.
Flokkum og þrífum allt plast sem við notum.
Tínum upp rusl sem við sjáum á víðavangi, því ef það er laust, þá fýkur það í sjóinn í næsta roki.
Heimildir:
Vísindavefurinn
Landvernd.is
Wikipedia