Í upphafi allra smíðaverkefna erum við bara með hugmynd. Annað hvort átt þú hugmyndina eða færð hana frá kennaranum þínum. Komi hugmyndin frá kennaranum eru til teikningar af smíðahlutunum sem hægt er að nota eða að til eru hlutir í smíðastofunni sem við munum mæla og teikna upp í vinnuteikningu.
Ef hugmyndin er þín þarft þú að teikna hana upp frá hugmyndinni, myndinni sem þú hefur af hlutnum í huga þínum. Þú gætir líka fundið þennan hlut og komið með í smíðastofuna, mælt hann og teiknað af honum vinnuteikningu. Þú gætir líka fundið ljósmynd eða myndband á veraldarvefnum og teiknað vinnuteikningu eftir því.
Allir framleiddir hlutir hefja sitt ferðalag sem hugmynd. Mynd sem við sjáum í huga okkar af hlut sem okkur vantar eða teljum mikilvægt og gott að smíða. Þessa hugmynd verðum við að myndgera, teikna á blað eða í teikniforriti, og setja þannig fram að aðrir skilji hvernig hugmynd við fengum og hvernig hún lítur út.
Þessar fyrstu teikningar af hugmyndinni okkar köllum við skissur (á ensku sketch). Þá teiknum við grófa mynd af hlutnum og gerum hlutinn skiljanlegan fyrir okkur sjálf og fyrir öðrum. Oft skrifum við niður lýsingu á hlutnum og hvað hann gerir. Oftar en ekki þarf að teikna margar skissur á meðan við erum að koma hugmyndum okkar á blað og velta virkni og hönnun fyrir okkur.
Fáðu autt blað og kubb hjá kennaranum. Teiknaðu skissu af kubbinum á blaðið.
Myndin hér til hliðar gæti verið fyrsta hugmynd að nýjum sportbíl, skissa sem hjálpar okkur að sjá formið.
Þessi skissa er síðar notuð til að gera aðra og nákvæmari mynd af sportbílnum þar sem við sjáum smáatriði og málsetningar.
Vinnuteikningar eru nákvæmari myndir af hugmyndinni okkar. Teikning sem leiðbeinir þeim sem smíðar hlutinn eða setur hann saman. Vinnuteikningar eru málsettar og sýna hlutinn sem á að smíða frá nokkrum hliðum. Við sjáum ofan á hlutinn, framan á hann og til hliðar. Ef hluturinn er flókinn teiknum við allar hliðar.
Vinnuteikningar eru hafðar eins nákvæmar og kostur er til þess að sá aðili sem smíðar hlutinn geti gert það þannig að hluturinn fái á sig eins líka mynd og hugmyndin var.
Þegar við höfum skissað upp hlutinn/hugmyndina þína teiknum við vinnuteikningu. Vinnuteikningar eru myndir af hlutnum sem verið er að hanna eða á að smíða. Ákveðnir staðlar, eða reglur, gilda um vinnuteikningar. Þessar reglur eru settar til þess að auðvelda öllum sem vinna að hönnun og smíði að lesa og skilja teikningar og hugmyndir hvers annars, og til að allar teikningar séu eins uppbyggðar.
Fyrsta reglan er vörpun. Við vörpun sínum við hlutinn sem við erum að hanna frá ólíkum sjónarhornum. Algengast er að sýna ofan á hlutinn, framan á og á hlið.
Með vörpun fáum við góða tilfinningu fyrir útliti hlutarins þar sem við sjáum margar hliðar hans. Algengast er að sjá þrjár hliðar en ef hluturinn er flókinn má bæta við þeim hliðum sem þarf til að sýna það sem nauðsynlegt er.
Snið eða sneiðmyndir eru gerðar til að sýna inn í hluti og hönnun. Sneið er eins og nafnið bendir til, sneið af hlutnum. Þessi teikniaðferð er góð þegar sýna þarf aðrar hliðar eða eiginleika hluta og þeir sjást ekki þegar teiknað er með hefðbundinni vörpun.
Á myndinni hér til vinstri má sjá sneiðmynd. Til vinstri er hluturinn heill en til hægri er búið að sneiða hluta úr hringnum til að sýna okkur meira en við getum séð með hefðbundinni vörpun.
Við gætum hafa séð vinnuteikningar frá arkitektum og húsasmiðum. Þar sjáum við útlit húsa en einnig svokallaðar þverskurðarmyndir. Með þverskurðarmyndum er eins og við tökum hluta af húsinu og lítum inn í húsið og sjáum öll herbergi og veggi, hurðar, glugga, og fjölmörg smáatriði sem hjálpa húsasmiðum, rafvirkjum, pípulagningafólki og öllum sem að byggingu hússins koma. Þannig hafa allir sömu „hugmynd“ að því hvernig húsið skal líta út þegar það er tilbúið.
Myndin hér til vinstri er sneiðmynd, en þá er eins og hluti sér skorinn af til að geta skoðað smíðahlutinn betur. Búið er að skera þakið af Stapaskóla til að við getum séð inn í hann og áttað okkur betur á uppbyggingu hússins innandyra. Ef þakið væri á gætum við ekki séð uppröðun skólastofa, hvar matsalur, sundlaug eða tröllastiginn væri staðsettur. Þetta er allt mjög auðvelt að sjá þegar búið er að sneiða þakið af og opna skólann.
Ef hluturinn er ekki stór er hægt að teikna mynd í raunstærð. Raunstærð þýðir að teikningin er nákvæmlega jafn stór og hluturinn sem við ætlum að smíða.
Mældu kubbinn sem þú skissaðir áðan og teiknaðu vinnuteikningu af kubbnum í raunstærð. Notaðu reglustiku til þess að mæla kubbinn og teiknaðu svo að minnsta kosti þrjár hliðar af kubbnum samkvæmt vörpunar-reglunum hér að ofan.
Málsettu myndina þegar þú hefur teiknað hana.
Ef hluturinn er stór, til dæmis stórt hús eins og Stapaskóli, þá er vinnuteikningin teiknuð í hlutföllum. Við þekkjum hlutföll vel á landakortum. Þar er merkt hvað einn sentimeter á korti eru margir kílómetrar í alvörunni.
Hlutföll þýðir því einfaldlega að myndin er ekki í sömu stærð og hluturinn heldur er búið að minnka eða stækka hlutinn á teikningunni svo hann passi betur á blaðið okkar. Stórir hlutir eins og til dæmis hús er minnkuð en litlir hlutir eins og vefmyndavél i farsíma eru stækkaðir.
Hlutföll eru merkt sérstaklega. Ef teikning er merkt 1:1 þýðir það að hún er í réttum hlutföllum. 1 sentimeter á teikningunni er 1 sentimeter á hlutnum.
Ef teikningin er merkt 1:2 þýðir það að hluturinn er tvisvar sinnum stærri en teikningin, einn sentimeter á teikningunni er 2 sentimetrar í alvörunni.
Og á móti ef teikningin er merkt 2:1 þá er teikningin tvisvar sinnum stærri en hluturinn.
Vinnuteikningin er síðan málsett til að sá sem á að smíða hlutinn smíði hann ekki í þeirri stærð sem hluturinn er teiknaður heldur eins og sá sem á hugmyndina vill að hluturinn verði stór.
Dæmi: Teikningarnar tvær hér að ofan eru báðar teiknaðar í hlutföllum og málsettar til þess að smiðurinn átti sig á réttri stærð. Skoðaðu myndina af farsímamyndavélinni. Hún er málsett í millimetrum en það þýðir að talan 19,5 sem er hæðin eru 1,95 sentimetrar.
Skoðaðu líka myndina af húsinu. Þar eru málsetningar í fermetrum. Báðar teikningar eru svipað stórar en sýna okkur tvo mjög ólíka hluti að stærð og gerð. Annar hluturinn kemst í vasa en við getum átt heima inni í hinum.