Hönnun og smíði væri nærri ómöguleg án verkfæra. Við höfum aðgang að fjölda verkfæra í smíðastofunni og fáum að kynnast þeim öllum. Við lærum hvernig við notum þau, á hvaða efni þau virka best, og hvað þarf að varast við notkun þeirra.
Hér fyrir neðan eru öll verkfærin sem við lærum að nota í hönnun og smíði.
Bakkasög
Sög með ferkönntuðu blaði og styrkingu ofan á blaðinu. Notuð með skerstokk til að saga rétthyrnt niður.
Geirungsög
Sög með stýringu ofan á blaðinu. Notuð til að saga rétthyrnt niður. Hægt að breyta horni í 15°, 30°, og 45°.
Handbor/borsveif
Handbor er gamalt verkfæri til að bora göt og holur. Verkfærið minnir á handþeytara en bornum er snúið með sveif.
Klaufhamar
Klaufhamar er algengasti hamar í smíði. Nafnið er dregið af klauf öðru megin á hamarshausnum en klaufin er notuð til dæmis til að draga nagla úr timbri. Kaufhamrar eru til í nokkrum þyngdum.
Laufsög
Laufsög, eins og útsögunarsögin sem við notum mest, er notuð við útsögun. Munurinn á laufsög og útsögunarsög er að í laufsög er örmjótt sagarblað.
Laufsög dregur líklega nafn sitt af laufblaði sem er óreglulegt og líkist munstri líkt og oft er sagað út með þessari sög. Laufsög er mikið notuð við útsögun margskonar smáhluta svo sem kertastjaka, saumaskrína, eggjabikara, ljósakróna og margra annarra.
Naglbítur
Naglbítur er klípitöng eða handklippur sem notaðar eru til að klippa málma. Algengt er að nota naglbít til að klippa nagla, pinna og víra.
Járningamenn sem setja skeifur undir hófa á hestum nota naglbít til að klippa framan af hóffjöðrum.
Pinnahamar
Pinnahamar er algengur í fínni smíði. Er hann notaður til að negla pinna (mjóa nagla). Pinnahamar er líka notaður til að forma efni eins og mjúka málma í silfursmíði.
Plasthamar
Segja má að plasthamarinn sé arftaki kjullunnar en haus hans er úr plasti og skaftið úr tré. Plasthamrar eru hentugir við sömu störf og kjullan en þeim hættir til að spænast upp og brotna ef ekki er hugað að því að láta skallann hitta rétt á höggflötinn. Einnig eru til hamrar með stórum haus úr hertu gúmmíi og gagnast þeir vel til að móta málmplötur þar sem hamarinn má ekki marka í efnið. Þessir hamrar eru stærri og þyngri en plasthamrarnir.
Raspar
Raspar, eru til í mörgum gerðum og misjafnir að stærð. Þessir ganga undir nafninu tréraspar. Rasparnir eru notaðir til að forma tré og til að taka mikið af efni og því notaðir fyrst. Þeir eru misjafnir að lögun og því auðvelt að ná til allra staða sem raspa á. Þeir eru með grófar tennur sem rífa tréð mikið og verður að fara varlega svo ekki skemmi þeir meira en má.
Skerstokkur
Skerstokkur er stokkur með stýringum/raufum til að saga ýmist beint (0°) eða 45°horn. Notuð er bakkasög og fæst þannig bein sögun.
Skrúfjárn
Skrúfjárn er samsetningarverkfæri og notað til að skrúfa skrúfum í efni. Margar útgáfur eru til af skrúfjárnum til ða passa í mismunandi skrúfur. Á okkar verkstæði erum við með venjulegt/beint skrúfjárn, stjörnuskrúfjárn, og Torx skrúfjárn.
Útsögunarsög
Notuð til að saga út myndir margskonar og form úr krossviði eða þunnri furu. Blaðið er gróftennt og rífur krossvið illa á bakhlið ef ekki er sagað hægt og gætilega. Hægt er að snúa blaðinu í söginni og saga bæði aftur á bak og út á hlið til þæginda. Þessi sög er af sumum kölluð bogasög en það nafn á þó betur við mótasögina sem gengur undir því nafni.
Þjalir
Þjalir, tréþjalir eru eins og rasparnir fjölbreytilegar að gerð. Þær eru notaðar til að sverfa og koma yfirleitt á eftir raspinum því þær hafa fínni tennur og vinna niður rispurnar eftir hann. Þær eru yfirleittt rúnnaðar öðru megin en sléttar hinu megin.
Hringfari
Hringfari, oft kallað sirkill, er verkfæri til að teikna upp hringi og einnig til að skipta hring upp í gráður eða geisla við smíði margra hluta.
Hringfarar eru bæði til með blíanti til að teikna með eða járnoddi til að rispa á málma eða tré.
Málband
Málband
Málbönd notum við til að mæla stærðir og lengdir. Málbönd eru til í mörgum stærðum og lengdum. Á málbandi eru merktir millimetrar og sentimetrar. Á enda málbands er krókur sem krækja má á brún eða leggja við þaðsem mæla á. Algengustu málböndin (1 til 8 metra löng) eru handhæg bönd úr málmi og rúllast þau inni í skel sem hægt er að stinga í vasann eða hengja á belti.
Mörg málbönd sýna bæði metra- og imperial mælieiningar. Á myndinni hér til hliðar má sjá að sentimetrar eru fyrir neðan og imperial (tommur) fyrir ofan.
Lengri málbönd (allt að mörg hundruði metra löng) eru í strigabandi og rúllað upp á stóra rúllu.
Rennimát/skífumál
Skífumál, aðallega notað til mælinga á sívölum hlutum svo sem borum og slíku. Einnig má mæla innanmál og dýpt og síðan eru gjarnan töflur yfir stærðir bora og annað sem snertir járnsmíði á sumum þeirra. Til eru einnig skífumál með micro mælir en hann mælir minni einingar en millimeter svo sem 10. parta eða 100. ustu parta og er því mjög nákvæmur.
Rissmát
Vinkill
Vinkill er notaður til að mæla eða merkja rétt horn (90°) eða 45°horn.
Þvingur/Klemmur
Þvingur eru algengar festingar sem auðvelt er að nota.
Kennarinn hefur aðgang og þekkingu til að nota fjölmörg verkfæri sem ekki er talið öruggt að nemendur noti, eða noti aðeins með aðstoð og leiðsögn kennara.
Flest þessara verkfæra eru inni í vélaherbergi.
Það er stranglega bannað að nota þessi verkfæri án aðstoðar kennara.