Þemaverkefni - Indland
Markmið: Finna hlut sem hannaður er og smíðaður á Indlandi og lýst í orðum og myndum hvernig hluturinn er smíðaður.
Stutt ágrip úr sögu Indlands:
Saga Indlands nær langt aftur í aldir. Hægt er að rekja akuryrkju aftur til ársins 6000 f.Kr. Um árið 2500 f.Kr. átti sér stað þéttbýlismenning, svokölluð Indusdalsmenning (3300-1700 f.Kr.), og átti hún upphaf sitt þar sem nú er Pakistan. Frá árunum 1500-1200 f.Kr. komu þjóðflokkar sem kölluðust Arianar og réðust inn í norðvesturhluta Indlands og breiddist þessi þjóðflokkur út um landið næstu árhundruðin.
Keisarar Maurya-keisaraveldisins, sem stóð yfir frá 321-185 f.Kr., sameinuðu það sem nú er þekkt sem Indland. Menningin til forna náði hámarki sínu á tíma Gupta-veldisins en Gupta-konungar ríktu frá 320-540 e.Kr. Bókmenntir, tónlist, leiklist, myndlist og höggmyndalist blómstruðu og á þessum tíma var hindúasiður orðinn ríkjandi á Indlandi.
Á 8. öld hófu múslimar innreið sína inn í Indland og seint á 16. öld höfðu trúarbrögð þeirra breiðst út um allt landið.
Á fyrri hluta 19. aldar var Indlandi stjórnað af breska Austur-Indíafélaginu. Árið 1857 gerðu indverskir hermenn uppreisn og börðust gegn Bretum en biðu ósigur ári seinna. Þá ákvað breska ríkisstjórnin að taka sjálf yfir stjórn landsins í stað Austur-Indíafélagsins.
Með breskum yfirráðum skapaðist friður í landinu og fjárhagsleg uppbygging en margir íbúanna töldu að Indverjar ættu að stjórna landinu sjálfir. Árið 1885 stofnaði hluti þeirra indverska Kongressflokkinn og árið 1920 hóf Mahatma Gandhi, leiðtogi flokksins, að hvetja Indverja til að neita að hlýða breskum lögum og reglum. Sú leið sem hann hvatti til er kölluð borgaraleg óhlýðni. Árið 1947 ákváðu Bretar að gefa Indverjum fullt sjálfstæði.
Spurningar sem þarf að svara í verkefninu:
1. Hvaða verkefni var valið?
a. Hljóðfæri
b. Handverk
c. Byggingalist
Hljóðfæri: Mikið úrval er til af indverskum hljóðfærum, bæði strengja, blásturs og ásláttarhljóðfæri.
Handverk: Í 8000 ára sögu Indlands hafa indverjar hannað og notað mikið af verkfærum og áhöldum, lika trúarleg tákn, styttur, húsgögn og margt fleira.
Byggingalist á Indlandi á sér þúsunda ára sögu. Frægar byggingar eins og Taj Mahal, Sri Harmandir Sahab eða Lotus hofið (Bahai hofið) en líka látlaus íbúðarhús, brýr og önnur mannvirki.
2. Úr hvaða efni eða efnum eru hluturinn/verkefnið? Nefndu eins mörg mismunandi efni og þú getur.
3. Hvers vegna heldur þú að þessi efni séu í hlutnum/verkefninu? - Efnisval gæti verið af trúarlegum, menningarlegum, jarðfræðilegum eða landfræðilegum ástæðum.
4. Hvernig er hluturinn/verkefnið smíðað? - skrifaðu eins ýtarlega lýsingu og þú getur (300-500 orð) og útskýrðu hvaða efni er notað, hvaða verkfæri eru notuð, og hvaða handbragð og aðferðir eru notuð til samsetninga.
5. Hvernig tengist þessi hlutur menningu og sögu Indlands?
Skila þarf greinargóðum svörum (ekki eins orða eða stuttum setningum, heldur lýsandi svar við hverjum þætti.
Finna þarf myndir eða teikna myndir til útskýringa.
Verkefninu má skila sem:
· Ritgerð
· Glæru
· Umræðuþætti (Podkast)
· Myndbandi