7. bekkur á Reykjum í Hrútafirði
7. bekkur fór í skólabúðir á Reyki í Hrútafirði 10. – 13. mars og áttu góðar stundir ásamt nemendum Foldaskóla, Hamraskóla og Húsaskóla í Grafarvogi. Það var ekki dauð stund þessa þrjá daga og sóttu nemendur til dæmis fjölbreytta tíma hjá starfsfólki skólabúðanna og frjálsum tíma var eytt í leiki og samveru með nýjum vinum. Einnig var mjög vinsælt að fara í náttúrupottinn við fjöruna, Gaga-bolta, fótboltatennis og listasmiðju frjálsa tímanum. Ferðin þétti hópinn okkar, auk þess sem nemendur milli skóla kynntust og ný vinasambönd urðu til. Í raun var svo gaman að á fimmtudaginn voru allir á því að vilja ekkert fara heim.
Hér má sjá ummæli nokkurra nemenda úr Hvassó eftir ferðina:
„Það sem stóð helst upp úr hjá mér var eiginlega bara það hversu allir voru saman og vinna saman, kynnast fleiri krökkum og blandast öðrum hópum úr öðrum skólum.“
„Það var skemmtilegt á Reykjum og uppáhalds hluturinn minn var að fara í náttúrupottinn. Við fórum líka í sjóinn og síðan aftur í náttúrupottinn.“
„Uppáhalds kennari minn var Louis sem er svo fyndinn og skemmtilegur, allir elska hann“