Matsferill er safn matstækja sem dregur upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda, reglulega yfir skólagönguna. Þeim er ætlað að auðvelda starfsfólki skóla að miða kennslu við þarfir hvers nemanda og koma auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska. Matsferill er því verkfæri sem hjálpar til við þrepaskipta þjónustu eins og farsældarlögin gera ráð fyrir. Með Matsferli mun íslenskt skólakerfi hafa greiðari aðgang en áður að vönduðum mælingum.
Hvassaleitisskóli er einn af 26 skólum sem tekur þátt í að þróa prófin á þessu skólaári áður en stöðu- og framvindupróf í stærðfræði og lesskilningi verða lögð fyrir alla skóla á Íslandi 2026. Nokkrir nemendur í Hvassó léku í auglýsingunni sem var gerð til að kynna Matsferilinn og eins og sjá má stóðu þau sig frábærlega vel.